Tímarit lögfræðinga - 01.04.2017, Page 13
11
hvort að baki henni búi mikilvægir þjóðfélagslegir hagsmunir, (iii) að
hve mörgum skerðingin beinist, þ.e. er hún almenn eða sértæk og (iv)
hversu umfangsmikil skerðingin er fyrir einstaka eigendur.16 Vísað
hefur verið til þessara viðmiða með ýmsum hætti í dómaframkvæmd
og má sem dæmi nefna eftirfarandi ummæli í fyrrgreindum dómi
Hæstaréttar frá 28. október 2011 í máli nr. 340/2011 (Neyðarlögin) þar
sem skera þurfti úr um hvort lög nr. 125/2008 fælu í sér bótaskylda
eignarskerðingu eða almenna takmörkun sem kröfuhafar þyrftu að
þola bótalaust:
„Að fenginni þeirri niðurstöðu kemur til úrlausnar hvort ákvæði 6. gr. laga
nr. 125/2008 feli í sér skerðingu á réttindum sóknaraðila, sem teljist vera
eignarnám eða slík takmörkun á eignarrétti að fari í bága við 72. gr. eða 65.
gr. stjórnarskrár. Við úrlausn um það verður að líta til margra atriða í senn,
svo sem tilefnis þeirra aðgerða sem gripið var til, markmiðs með þeim og
afleiðinga, eðlis þessara ráðstafana og hversu almennar og víðtækar þær
voru.“ [áherslubreyting höfunda]
Annað dæmi úr dómaframkvæmd sem sýnir að mörk bótaskyldra
skerðinga og annarra eignarskerðinga geta reynst óljós er dómur Hæsta
réttar frá 27. september 2007 í máli nr. 182/2007 (Björgun). Í málinu var
deilt um hvort breyting á lögum nr. 73/1990 um eignarrétt íslenska
ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, sem hafði í för með sér að leyfi
Björgunar ehf. til efnistöku á hafsbotni féll niður fimmtán árum
fyrir lok gildistíma, leiddi til bótaskyldu íslenska ríkisins. Af hálfu
félagsins var meðal annars vísað til þess að það hefði eitt verið með
leyfi samkvæmt eldri lögum og að lagabreytingin bitnaði sérstaklega
harkalega á því. Um þetta sagði meðal annars í dómi Hæstaréttar:
„Ákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar taka til nýtingar opinbers leyfis til efnis-
töku á hafsbotni Íslands. Er fallist á með áfrýjanda að breytingar, sem gerðar
voru á lögum, nr. 73/1990 með 3., 4. og 6. gr. laga nr. 101/2000, hafi verið
íþyngjandi fyrir hann að því leyti að umrætt leyfi hans 28. ágúst 1990 féll
niður rúmum fimmtán árum fyrr en ella hefði orðið, auk þess sem nýtt leyfi
16 Sjá til hliðsjónar Gaukur Jörundsson: Eignaréttur. Reykjavík 1983, bls. 50-52, Björg
Thorarensen: Stjórnskipunarréttur. Mannréttindi, bls. 490 og Valgerður Sólnes: „Neyðarlaga-
dómarnir og friðhelgi eignarréttar“, bls. 366. Svipuð viðmið hafa verið lögð til grundvallar í
dönskum rétti. Hér vísast til rits Hanne Mølbeck og Jens Flensborg: Ekspropriation i praksis,
bls. 27-30. Þar eru nefnd þau grunnviðmið sem litið er til, þ.e. hvort eignarréttindi flytjist á
milli manna, hvort skerðingin sé almenn eða beinist að tilteknum aðila, hvaða markmið búa
að baki skerðingunni og áhrif skerðingarinnar á eigandann. Úr danskri dómaframkvæmd
má sem dæmi nefna UfR. 1972, bls. 189 Ö (Aðgangur og dvöl í skógum á einkalandi), UfR. 2000,
bls. 855 H (hækkun vatnsborðs) og UfR. 2006, bls. 1539 H (takmarkanir á vinnslu mosa).