Tímarit lögfræðinga - 01.04.2017, Blaðsíða 47
45
sem sveitarfélög veita á grundvelli skipulagslaga, áður eða eftir að
beiðst er eignarnáms. Sem dæmi má nefna framkvæmd á grundvelli
raforkulaga. Áður en til greina kemur að leita eignarnámsheimildar
eða framkvæmdaleyfis er nauðsynlegt að tryggja að framkvæmdin
samræmist skipulagi, að fram hafi farið mat á umhverfisáhrifum og
eftir atvikum að aflað hafi verið leyfis Orkustofnunar í samræmi við
ákvæði laganna. Það má leiða rök að því að eðlilegra sé að ákvörðun
hafi verið tekin um eignarnám áður en framkvæmdaleyfi er veitt. Í
því sambandi má nefna að öflun eignarnámsheimildar getur reynst
mjög tímafrek, en samkvæmt 2. mgr. 15. gr. skipulagslaga fellur fram-
kvæmda leyfi úr gildi hefjist framkvæmdir ekki innan tólf mánaða frá
útgáfu þess. Samkvæmt því er framkvæmdaleyfi lokahnykkurinn í því
ferli sem um ræðir. Þetta er þó ekki vafalaust og má í því sambandi
benda á að samkvæmt 15. gr. laga um framkvæmd eignarnáms getur
eignar nemi horfið frá fyrirhuguðu eignarnámi ef hann tilkynnir það
innan mánaðar frá því að mat á eignarnámsbótum lá fyrir. Að öðrum
kosti er hann bundinn við eignarnámsákvörðunina.76 Ekki hefur reynt
beinlínis á þetta álitaefni í dómaframkvæmd.77 Þessi óvissa kallar
ásamt öðru á endurskoðun löggjafar á þessu sviði.
c) Eignarnám sem lokaúrræði
Það hefur löngum verið viðurkennt að í áskilnaði 2. málsliðar 1. mgr.
72. gr. stjórnarskrár um almenningsþörf felist sú krafa að eignar-
nám sé lokaúrræði í þeim skilningi að eignarnemi hafi freistað þess
að ná samkomulagi við eignarnámsþola um kaup eða afnot þeirra
eignarréttinda sem eignarnámið beinist að. Sást þessa að nokkru
staður í eldri lögum en sú krafa hlýtur jafnframt að vera atviks-
bundin hverju sinni og erfitt að setja eina og altæka reglu þar að
lútandi. Raunveruleikinn er þó sá að til skamms tíma var krafan um
samningsumleitan skilin sem hreint formsatriði.
Nokkur straumhvörf urðu í þessum efnum með fyrrnefndum Hrd.
1998, bls. 985 (Arnarnes). Svo sem fram hefur komið hafði þess verið
freistað um nokkra hríð að ná samningum um kaup á viðkomandi
landi á Arnarnesi án árangurs. Eignarneminn, Garðabær, taldi þær
samningsumleitanir fullreyndar. Eignarnámsþolar voru á öndverðri
76 Á þetta ákvæði reyndi í Hrd. 1985, bls. 801 (Nes).
77 Þess má geta að í stjórnsýsluframkvæmd virðist hafa verið talið að unnt sé að taka
ákvörðun um eignarnám án þess að framkvæmdaleyfi liggi fyrir, sbr. til dæmis þær
framkvæmdir sem fjallað er um í dómum Hæstaréttar frá 12. maí 2016 í málum nr. 511, 512,
513 og 541/2015 (Suðurnesjalína 2).