Tímarit lögfræðinga - 01.04.2017, Blaðsíða 39
37
framkvæmdaleyfis“. Þá var ekki talið sýnt fram á að bráð hætta af
yfirvofandi hlaupi hefði réttlætt skort á að ráðist væri í nægar undir-
búningsrannsóknir. Vegna þessa ágalla og þar sem stjórnvöldin höfðu
ekki sýnt fram á að breytt lega varnargarðsins hefði ekki valdið tjóni
á landi landeigenda var fallist á kröfu um ógildingu leyfisins.
Af dómaframkvæmd má ráða að brot á rannsóknarreglunni við
töku íþyngjandi stjórnvaldsákvarðana leiði til ógildingar, nema sýnt sé
fram á að rannsókn hefði ekki getað haft áhrif á efnislega niðurstöðu
málsins.67 Hvað varðar ákvörðun um eignarnám fær þetta stoð í dómum
Hæstaréttar frá 12. maí 2016 í málum nr. 511/2015 o.fl. (Suðurnesjalína 2)
þar sem broti á rannsóknarskyldu ráðherra var slegið föstu og tekið
fram að ekki hefði verið „sýnt fram á að atvik [væru] með þeim hætti
að líta beri fram hjá þessum galla á meðferð málsins“. Rétt er þó að
leggja áherslu á að í þessum málum, sem og í dómi Hæstaréttar frá 18.
maí 2006 í máli nr. 511/2005 (Gullver) og dómi frá 15. júní 2017 í máli
nr. 193/2017 (Kröflulína 4 og 5), var krafa um ógildingu á grundvelli
rannsóknarreglu jafnframt studd tilvísun til annarra reglna. Í þeim
málum sem vörðuðu Suðurnesjalínu 2 og Kröflulínu 4 og 5 var rann-
sóknarreglan túlkuð með hliðsjón af stjórnskipulegu meðalhófi, en
í Gullversmálinu var rannsóknarreglan túlkuð með hliðsjón af þeirri
kröfu sem gerð er til samningsumleitana eignarnema. Í dómi Hæstaréttar
frá 11. febrúar 2016 í máli nr. 411/2015 (enduruppbygging flóðavarnargarðs
við Þórólfsfell) sýnist rannsóknarreglan þó standa ein og óstudd til
grundvallar niðurstöðu um ógildingu framkvæmdaleyfis. Jafnframt
skal tekið fram að þær ályktanir verða alls ekki dregnar af fyrrnefndum
dómum um eignarnámsákvarðanir að meira þurfi að koma til en brot
á rannsóknarreglunni einni þannig að ákvörðun verði ógilt.
ii) Andmælaréttur
Við mat á efnislegu inntaki andmælaréttar eignarnámsþola verður eðli
málsins samkvæmt horft til viðmiða 13. gr. stjórnsýslulaga þess efnis
að hann eigi þess kost að tjá sig um efni málsins áður en ákvörðunin
er tekin. Þess má geta að löngu fyrir gildistöku stjórnsýslulaga má
sjá merki þess að óskráð regla um andmælarétt hafi gilt við töku
ákvörðunar um eignarnám.68
67 Páll Hreinsson: Stjórnsýsluréttur – Málsmeðferð, bls. 532-539. Sjá jafnframt Arnar Þór
Stefánsson: „Um ógildingu stjórnvaldsákvarðana“. Úlfljótur 2005, bls. 277-289.
68 Gaukur Jörundsson: „Um framkvæmd eignarnáms“, bls. 123-153. Sjá m.a. Hrd. 1948,
bls. 434 (Leigunám húsaleigunefndar Reykjavíkur).