Tímarit lögfræðinga - 01.04.2017, Blaðsíða 94
92
7.3 Saksókn
Í upphaflega frumvarpinu var ekki sérstaklega tekin afstaða til þess
hvar hagkvæmast væri að ákæruvald í málum vegna ofbeldis í nánum
samböndum skyldi liggja. Samkvæmt h-lið 1. mgr. 23. gr. laga um
meðferð sakamála, nr. 88/2008, höfðar héraðssaksóknari mál vegna
brota á XXIII. kafla almennra hegningarlaga (Manndráp og líkams
meiðingar), öðrum en 215. gr. ef brot tengist broti á umferðarlögum,
og 217., 1. mgr. 218. og 219. gr.
Í áliti allsherjar- og menntamálanefndar kom fram sú skoðun að
eðlilegt væri að lögreglustjórar færu að meginstefnu til með ákæruvald
í málum sem þessum og lagði til breytingar á lögum um meðferð
sakamála þar að lútandi.53 Í samræmi við það var 218. gr. b bætt við
upptalningu í h-lið 23. gr. sakamálalaganna á þeim brotum sem heyra
undir ákæruvald lögreglustjóra, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 23/2016.
8. SJÓNARMIÐ AÐ BAKI REFSIÁKVÆÐI UM OFBELDI Í
NÁNUM SAMBÖNDUM
8.1 Almennt
Rétt er í upphafi að víkja stuttlega að samanburði á 3. mgr. 70. gr. og
218. gr. b. Fyrra ákvæðið geymir refsiþyngingarástæðu og er að finna
í almenna hluta hegningarlaganna. Tilgangurinn er að mæla svo fyrir
að þyngja megi refsingu ef verknaður er framinn gegn manneskju sem
er nákomin geranda. Nýmæli 218. gr. b er á hinn bóginn efnisákvæði
í sérstaka hluta hegningarlaganna. Mikilvægt þykir að hafa sjálfstætt
ákvæði um ofbeldi í nánum samböndum, þó að ákvæðin byggi annars
í grunninn á sömu eða sambærilegri hugmyndafræði og sjónarmiðum,
þar sem það felur í sér sérstakt brot á því trausti og trúnaði sem alla
jafna má gera ráð fyrir í nánum tengslum. Þykir eðlilegt að refsingar
taki mið af því. Margvísleg önnur refsipólitísk, samfélagsleg eða
afbrotafræðileg sjónarmið liggja til grundvallar nýju ákvæði um brot
í nánum samböndum eins og nú verður rakið.54
53 Álit allsherjar- og menntamálanefndar með breytingartillögu, sbr. þskj. 987, 401. mál,
145. löggjafarþing (2015–2016).
54 Í greinargerð eru sjónarmið að baki 218. gr. b rakin. Þau eru jafnframt áréttuð og
skýrð frekar í ræðu innanríkisráðherra, er hann mælti fyrir frumvarpinu á Alþingi 19.
janúar 2016 og eins í áliti allsherjar- og menntamálanefndar um frumvarpið. Þá falla þau
sjónarmið, sem búa að baki Istanbúl-samningnum og koma fram í aðfaraorðum hans, að
miklu leyti saman við þau sjónarmið sem hið nýja lagaákvæði byggir á.