Tímarit lögfræðinga - 01.04.2017, Blaðsíða 16
14
meðal annars á eignarnám sem fram fór í þágu skipulags, en fyrir
liggur að sá hluti landsins sem um ræðir var ekki nýttur í samræmi
við skipulagið.21
3. AÐDRAGANDI ÁKVÖRÐUNAR UM EIGNARNÁM -
NÁNAR UM ALMENNINGSÞÖRF OG LAGAHEIMILD
Skýringu á skilyrðunum um lagaheimild og almenningsþörf er ekki
að finna í almennum lögum, en nánar verður vikið að álitaefnum því
tengdu í þessum og næsta kafla. Skilyrðinu um fullt verð eru settar
formlegar skorður í lögum um framkvæmd eignarnáms nr. 11/1973
þar sem fjallað er um hlutverk matsnefndar eignarnámsbóta við
ákvörðun bóta.22
Eignarnám á sér eðli málsins samkvæmt aðdraganda hverju sinni.
Svo sem nánar verður fjallað um síðar er óhjákvæmilegt að stjórnvald,
ellegar sá aðili annar, sem telur almenningsþörf standa til þess að
öðlast ákveðin eignarréttindi, leiti fyrst allra leiða til þess að komast
yfir þau með öðrum og vægari úrræðum en eignarnámi sem jafnan er
lokaúrræði. Það er fyrst á því tímamarki sem slíkt er fullreynt sem til
greina kemur að beita eignarnámi. Þá dugir ekki aðeins að sýna fram
á almenningsþörf heldur verður fyrirhuguð eignarskerðing að eiga
sér stoð í lögum, sbr. áskilnað 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár. Verður nú
vikið nánar að skilyrðinu um almenningsþörf og þeirra krafna sem
gerðar eru til lagaheimilda.
3.1 Almenningsþörf og útfærsla lagaheimilda
Mat á því skilyrði 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár að eignarnám verði að
byggjast á lagaheimild tengist órjúfanlega kröfunni um almennings-
þörf. Síðastnefndur áskilnaður er óneitanlega matskenndastur þeirra
þriggja skilyrða sem stjórnarskráin setur eignarnámi. Þó svo að hug-
takið almenningsþörf sé ekki túlkað bókstaflega felst allt að einu í
því sú fyrirætlan að samfélagslegir hagsmunir í einhverri merkingu
verði að búa að baki kröfu um eignarnám þannig að alla jafnan verði
persónulegir hagsmunir fárra einstaklinga ekki taldir nægja til þess
21 Málin voru flutt munnlega fyrir yfirdeild Mannréttindadómstólsins 2. september
2015, en dómur liggur ekki fyrir þegar grein þessi er rituð.
22 Lögin um framkvæmd eignarnáms hafa þó ekki að geyma eiginlegar efnisreglur sem
beitt verður við það mat og leiðsögn er helst að finna í dómaframkvæmd og niðurstöðum
matsnefndar eignarnámsbóta. Efnislegar kröfur 2. mgr. 72. gr. stjórnarskrár hafa verið taldar
fela í sér að bætur verði að vera réttilega ákvarðaðar, tryggar auk þess sem takmörk eru
fyrir því hvaða kostnaður af ákvörðun þeirra verði lagður á eignarnámsþola. Til hliðsjónar
sjá Gauk Jörundsson: Eignaréttur, bls. 84.