Tímarit lögfræðinga - 01.04.2017, Blaðsíða 19
17
að aðstæður voru metnar svo að umræddar framkvæmdir væru í
þágu almennings í skilningi ákvæðis dönsku stjórnarskrárinnar um
vernd eignarréttar, enda þótt þær tengdust íþróttaiðkun sem eingöngu
hluti fólks hefur áhuga á að stunda. Þá kom fram í fyrrgreindum
úrskurði að það hefði ekki þýðingu fyrir lögmæti eignarnáms að hið
eignarnumda svæði skyldi látið einkareknu fyrirtæki í té sem skyldi
sjá um framkvæmdir, sbr. KFE 1996.132. 28
Sams konar sjónarmið má jafnframt sjá í íslenskri dómafram-
kvæmd. Hér má nefna dóm Hæstaréttar frá 5. nóvember 2015 í máli nr.
173/2015 (Hestamannafélagið Funi) þar sem ágreiningur var um lögmæti
eignar náms í því skyni að koma upp reiðstíg á landi í einkaeigu sem
eðli málsins samkvæmt kom eingöngu takmörkuðum fjölda manna
til nota. Um þetta sagði meðal annars í dómi Hæstaréttar:
„Þótt slík þörf standi samkvæmt áðursögðu jafnframt til að stefnda geti orðið
að þola frekari skerðingu á eignarréttindum sínum til að koma við reiðstíg
um landið verður ekki horft fram hjá því að stígur af þeim toga kemur
aðeins takmörkuðum fjölda manna að beinum notum og er að auki miðað
hér við að hann yrði í eigu einkaaðila en hvorki ríkisins né sveitarfélags. Af
þessu leiðir að ekki getur komið til álita að skerða eignarréttindi stefndu
frekar en orðið er með því að taka undan jörð hennar land undir annað
vegarstæði nema fullreynt sé að aðrir ásættanlegir kostir séu ekki tækir.“
[áherslubreyting höfunda]
Skilja verður þetta með þeim hætti að mat á því hvort skilyrði 72. gr.
stjórnarskrárinnar um að almenningsþörf krefji og að meðalhófs hafi
verið gætt sé sérstaklega strangt þegar framkvæmd þjónar eingöngu
hagsmunum afmarkaðs hóps manna, svo sem á við um reiðstíg eða
aðstöðu til íþróttaiðkunar.29
Að sama skapi geta risið álitamál þess efnis hvort það standist að
framkvæma eignarnám í þágu einkaaðila. Telja verður ótvírætt að svo
sé, sbr. fyrrgreindan dóm Hæstaréttar frá 15. október 2015 í máli nr. 306/2015
28 Danska stjórnsýslunefndin hefur að ákveðnu leyti sambærilegt hlutverk og úrskurðar-
nefnd umhverfis- og auðlindamála sem starfar á grundvelli laga nr. 130/2011. Nánari
upplýsingar um nefndina og úrskurði hennar má finna á heimasíðunni. Heimild sótt 12.
júní 2017.
29 Í danskri framkvæmd hefur einnig verið lögð áhersla á það skilyrði að framkvæmd
þjóni samfélagslegum hagsmunum. Þá hefur verið bent á að við mat á því hvort eignarnám
teljist nauðsynlegt geti verið þörf á því að bera saman þá almannahagsmuni, sem til
grundvallar liggi, og hagsmuni viðkomandi eiganda af því að þurfa ekki að sæta eignarnámi.
Þannig virðast til að mynda samfélagslegir hagsmunir sem tengjast eignarnámi vegna
byggingar golfvallar takmarkaðri í samanburði við hagsmuni landeiganda af því að geta
nýtt viðkomandi landsvæði áfram til landbúnaðar. Sjá nánar Hanne Mølbeck og Jens
Flensborg: Ekspropriation i praksis, bls. 51.