Tímarit lögfræðinga - 01.04.2017, Page 34
32
aðili fari með eiginlegt vald til töku eignarnámsákvörðunar, eins og
síðar verður vikið að.
Þegar fleiri en eitt stjórnvald koma að töku ákvörðunar um eignar-
nám getur verið um að ræða skyldu til að leita umsagnar eða álits
tiltekins aðila, en í öðrum tilvikum hafa fleiri en einn aðili sjálfstæða
aðkomu að ákvarðanatöku. Sem dæmi má nefna annars vegar 1. mgr.
50. gr. skipulagslaga þar sem gert er ráð fyrir því að ráðherra geti að
fenginni umsögn Skipulagsstofnunar veitt sveitarstjórn heimild til að
taka eignarnámi fasteignir og fasteignaréttindi í þágu framkvæmdar
aðalskipulags að nánar tilteknum skilyrðum uppfylltum. Hins vegar
2. mgr. 50. gr. sömu laga þar sem sveitarstjórn er heimilað að fenginni
umsögn Skipulagsstofnunar og á grundvelli gildandi deiliskipulags
að taka eignarnámi fasteignaréttindi. Þá verður að skilja 15. gr. laga
um kirkjugarða o.fl. þannig að heimild sveitarstjórnar til að beita
eignarnámi sé bundin því skilyrði að fyrir liggi samþykki ráðherra.
Ástæða er til að taka fram að það er æskilegast að ákveðin fjarlægð
sé jafnan að lögum á milli þess sem tekur ákvörðun um eignarnám
og eignarnema. Þannig getur það augljóslega valdið vafa um hæfi
ef sá sem tekur ákvörðun um eignarnám hefur sem slíkur hag af
framkvæmdinni (t.d. í fjárhagslegum skilningi). Að því leyti er óheppi-
leg sú tilhögun sumra eignarnámsheimilda að eignarneminn sjálfur,
sbr. t.d. Vegagerðin samkvæmt 37. gr. vegalaga, fari með valdið til þess
að taka ákvörðun um eignarnám.58 Það breytir ekki þeirri skoðun þó
svo að í hlut eigi stofnanir ríkisins eða sveitarfélög.59
Þá getur eignarnám komið til þó svo stjórnvöld komi þar hvergi
nærri og hafa þá verið nefnd til sögunnar lög nr. 113/1952, sbr. 8. gr.
þeirra, þar sem gerð er grein fyrir þeirri stöðu þegar tvær jarðir njóta
gagnkvæms ítaksréttar. Neytti eigandi annarrar jarðarinnar úrræða
laganna til að leysa af henni ítak hinnar jarðarinnar gat eigandi þeirrar
58 Í grein Gauks Jörundssonar: „Um framkvæmd eignarnáms“. Úlfljótur 1973, bls. 136
fjallaði höfundurinn um að það væri naumast eðlilegt í öllum tilvikum að sá sem sé
eignarnemi eða í beinu fyrirsvari fyrir þá hagsmuni eða þarfir sem eignarnámsheimild
er veitt vegna taki ákvörðun þar um. Sama sjónarmið kom jafnframt fram í aðdraganda
setningar laga nr. 11/1973, um framkvæmd eignarnáms, sbr. Álit nefndar, sem skipuð var
af dómsmálaráðherra til að endurskoða gildandi löggjöf um framkvæmd eignarnáms, sbr. ályktun
Alþingis hinn 22. apríl 1970. Vissulega hefur orðið hægfara þróun í þessa veru á þeim 44
árum sem liðin eru en óhjákvæmilega verður staldrað við þær eignarnámsheimildir sem
enn gera ráð fyrir þessari grundvallar aðkomu eignarnemans að eignarnámsákvörðuninni.
59 Í því samhengi má nefna til sögunnar heppilegri útfærslu af þessum toga í 2. mgr. 50.
gr. skipulagslaga en þar er heimild sveitarstjórnar til þess að láta fara fram eignarnám í
eigin þágu, sbr. 1. töluliður 2. mgr., bundin því skilyrði að eignarnámið sé í samræmi við
gildandi deiliskipulag og að umsögn Skipulagsstofnunar liggi fyrir.