Tímarit lögfræðinga - 01.04.2017, Blaðsíða 41
39
Eignarnámsþoli óskaði eftir ríflegum fresti til þess að geta brugðist við
þeim gögnum með sérfræðilegri skoðun, en ráðuneytið féllst ekki á svo
langan frest sem beðið var um. Því kom ekki til þess að eignarnámsþoli
legði fram sérfræðileg gögn af sinni hálfu. Í niðurstöðu héraðsdóms,
sem staðfest var með vísan til forsendna, var fallist á þessa málsmeðferð
með vísan til málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga.
iii) Tilkynningarskylda
Fram kemur í 14. gr. stjórnsýslulaga að stjórnvald skuli vekja athygli
aðila á að mál hans sé til meðferðar eins fljótt og kostur er, nema ljóst sé
að hann hafi fengið vitneskju um það fyrir fram. Slíkt er forsenda þess
að aðili, sem eignarnám beinist gegn, geti notið andmælaréttar, sbr. 13.
gr. stjórnsýslulaga. Í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar frá 6. desember 2012 í
máli nr. 329/2012 (Útlaginn), leiddi brot á tilkynningarskyldu, samkvæmt
14. gr. stjórnsýslulaga með öðru til ógildingar á eignarnámsákvörðun.
Fyrri eignarnámsákvörðun var afturkölluð og ný tekin án þess að
eignar námsþoli væri upplýstur um það. Má augljóst vera að sú máls-
meðferð stóðst ekki kröfu 13. gr. stjórnsýslulaga um rétt aðila máls til
þess að tjá sig um efni þess áður en stjórnvald tæki ákvörðun í því.
Um þetta atriði segir svo í dómnum:
„Stefnanda var ekki kynnt ný og breytt umsögn Skipulagsstofnunar, fyrri
ákvörðun hreppsnefndar um eignarnámið var ekki afturkölluð þó fyrir lægi
að hún stæðist ekki skilyrði heimildarlaga og stefnanda var ekki tilkynnt um
að mál hans væri á ný til meðferðar hjá stefnda, sbr. 14. gr. stjórnsýslulaga.“
iv) Krafan um rökstuðning og skýrleika
Eignarnámsákvörðunin verður að bera það skýrlega með sér að hvaða
eignarréttindum eignarnámið beinist og í hverju skerðingin felist.
Í framkvæmd tíðkast að ákvörðun um eignarnám fylgi samhliða
rökstuðningur, enda þótt meginregla stjórnsýslulaga sé eftirfarandi
rökstuðningur, sbr. 21. gr. laganna.69
69 Nokkuð skýra forskrift þessarar kröfu má finna í Hrd. 1958, bls. 141 (Herrulækur). Málið
varðaði staðfestingu á lögbanni sem hafði verið sett vegna byggingar rafstöðvar, sem
byrjað var að reisa, við Herrulæk samkvæmt leyfi ráðherra til virkjunar vegna framleiðslu
á raforku. Verulega skorti á skýrleika leyfisins og var lögbannsgerðin staðfest. Um þetta
sagði nánar í dómi Hæstaréttar: „Með bréfi 26. febrúar 1957 veitti ráðherra gagnáfrýjanda
leyfi til að virkja Herrulæk til framleiðslu á raforku. Segir í bréfinu að leyfið verði gefið
samkvæmt V. kafla laga nr. 15/1923, og er þar vísað til nefndra laga um framkvæmdir og
annað, er virkjun varðar. Í ráðherrabréfinu eru hins vegar eigi talin þau ákvæði V. kafla
laga nr. 15/1923, sem leyfið er reist á, og eigi er þess getið í bréfinu, hvaða skilyrðum
gagnáfrýjandi skuli fullnægja um greiðslu eða tryggingu fébóta fyrir töku vatnsréttinda,
landsspjöll eða veiðispjöll, sem af virkjuninni leiða.“