Tímarit lögfræðinga - 01.04.2017, Qupperneq 43
41
a) Samspil almenningsþarfar og meðalhófs
Þegar metið er hvort eignarnám teljist nauðsynlegt í þágu almennings í
einstökum tilvikum er í grunninn verið að bregða mælistiku meðalhófs
á fyrirhugaða ákvörðun. Hið efnislega mat þessara tveggja þátta
er því samkynja, enda þótt stundum sé það orðað svo að vægari
úrræði séu ekki tiltæk eða að eignarnám teljist nauðsynlegt. Segja
má að þýðing meðalhófs við ákvörðun um eignarnám hafi tekið á sig
skýrari mynd í dómaframkvæmd á allra síðustu árum.70 Á regluna í
þessum skilningi reyndi í dómi Hæstaréttar frá 15. nóvember 2012 í máli nr.
60/2012 (Hverfisgata). Eins og fyrr segir varðaði málið raunar ekki gildi
eignarnáms heldur freistaði húsfélag þess að fá einn íbúðareigandann
skyldaðan til að selja eignarhlut sinn í fjöleignarhúsi á grundvelli
55. gr. laga um fjöleignarhús. Um mat á þýðingu meðalhófs við þær
atviksbundnu aðstæður sem uppi voru í málinu sagði í forsendum
dómsins:
„Verður þá að huga að því hvort jafnframt séu uppfylltar kröfur um meðalhóf
til að beita megi fyrstnefnda ákvæðinu [5. mgr. 55. gr. laga nr. 26/1994] við
þær aðstæður, sem uppi eru í málinu, en því aðeins er unnt að taka til
greina dómkröfu gagnáfrýjanda að ekki sé með öðrum úrræðum unnt
með ásættanlegu móti að ná þeim tilgangi, sem hún miðar að, sbr. meðal
annars dóm Hæstaréttar 19. mars 2009 í máli nr. 425/2008. Um þetta verður
að gæta að því að eignarréttindi og heimili annarra eigenda fasteignarinnar
að Hverfisgötu 68a njóta friðhelgi eftir ákvæðum stjórnarskrárinnar. Eins
og málið liggur fyrir eru ekki efni til annars en að líta svo á að eignarhald
aðaláfrýjanda að hluta fasteignarinnar rýri svo að máli skipti verðgildi
annarra eignarhluta, svo sem gagnáfrýjandi heldur fram. [...] Þessir hagsmunir
annarra eigenda fasteignarinnar verða ekki nægilega tryggðir með því að
neyta þeirra úrræða, sem að öðru leyti eru heimiluð í 55. gr. laga nr. 26/1994,
að banna aðaláfrýjanda búsetu og dvöl í húsnæði sínu, enda stæði það ekki
því í vegi að hún gæti aftur tekið upp á því að safna þar sorpi, en ætla verður
að veruleg hætta geti verið á því að teknu tilliti til þess að hún hefur eftir
gögnum málsins litið svo á í meira en aldarfjórðung að lífshættir hennar
að þessu leyti séu öðrum eigendum fasteignarinnar óviðkomandi. [...] Eins
og atvikum er hér háttað er að þessu virtu ekki að sjá að tiltæk séu önnur
vægari úrræði til að gæta lögvarinna réttinda annarra eigenda fasteignarinnar
en að staðfesta þá niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að taka til greina kröfu
gagnáfrýjanda.“ [áherslubreyting höfunda]
70 Sjá Páll Hreinsson: „Meðalhófsregla stjórnsýslulaga“. Í ritinu Lögberg. Rit Lagastofnunar
Háskóla Íslands, Reykjavík 2003, bls. 504-533 og Björg Thorarensen: „Áhrif meðalhófsreglu
við skýringu stjórnarskrárákvæða“. Í ritinu Lögberg. Rit Lagastofnunar Háskóla Íslands,
Reykjavík 2003, bls. 55.