Tímarit lögfræðinga - 01.04.2017, Page 53
51
eignarnámsheimildar 2. mgr. 50. gr. skipulagslaga aðeins heimilt að
yfirfæra með eignarnámi bein eignarréttindi en hvorki umferðarrétt
né önnur óbein eignarréttindi í þágu deiliskipulags. Ekki var fallist á
þessa röksemd með vísan til 3. gr. laga um framkvæmd eignarnáms
og þess að ekki var mælt á annan veg í skipulagslögum. Talið var hafið
yfir vafa að sveitarstjórn gæti með eignarnámi stofnað til takmarkaðra
eignarréttinda yfir fasteignum. Nánar tiltekið segir svo í forsendum
dómsins:
„Af hinu sama leiðir að þegar neytt er heimildar samkvæmt 2. mgr. 50. gr.
skipulagslaga er ekki skylt að taka fasteign í heild eignarnámi heldur er heimilt
að láta það einungis ná til þess eða þeirra hluta eignar sem eignarnema er
þörf á. Telji eignarnámsþoli sig vanhaldinn af slíkri ráðstöfun standa honum
til boða þau úrræði sem nefnd eru í 12. gr. laga nr. 11/1973 en ekki er fram
komið að áfrýjandi hafi freistað þess að neyta þeirra.“
Hæstiréttur vísar til 12. gr. laga um framkvæmd eignarnáms sem
er sérstök heimild matsnefndar eignarnámsbóta til að auka umfang
eignarnáms þegar fasteign skerðist með þeim hætti við eignarnám, að
sá hluti hennar, sem eftir er, verður ekki nýttur á eðlilegan hátt sem
sjálfstæð eign, sbr. 1. mgr. ákvæðisins. Undir þessum kringumstæðum
er matsnefnd heimilt eftir kröfu eignarnema að láta „eignarnámið ná
til eignarinnar allrar.“
Sem annað dæmi um þetta er svonefnt leigunám sem felur það í
sér að viðkomandi verðmæti eru tekin á leigu, en beinn eignarréttur
færist ekki til eignarnema (leigunema).81 Þetta álitaefni getur jafnframt
borið að með öðrum hætti. Má í því sambandi nefna dóm Hæstaréttar
frá 26. mars 2015 í máli nr. 583/2014 (Hjarðarhagi) þar sem reyndi jafn-
framt á inntak þeirra eignarréttinda sem nauðsynlegt var að taka
eignarnámi. Eignarnámsþoli byggði á því að nauðsyn bæri ekki
til þess að Vegagerðin öðlaðist með eignarnámi beinan eignarrétt
yfir landi undir þjóðveg enda stæði henni til boða endurgjaldslaus
afnot svæðisins svo lengi sem þörf krefði. Svo sem áður hefur verið
rakið er í dómi Hæstaréttar vísað til þess að ákvæði 37. gr. vegalaga
yrðu ekki skýrð á þann hátt að þau fælu í sér fortakslausan rétt og
jafnframt skyldu stefnda til að öðlast beinan eignarrétt að landi til
vegagerðar heldur yrði að líta til sjónarmiða um meðalhóf. Taldi
Hæstiréttur hins vegar að Vegagerðin hefði í þessu tilviki sýnt fram
á að eignarnámsmarkmiðinu yrði ekki náð með öðrum og vægari
úrræðum og var kröfu um ógildingu eignarnámsins hafnað.
81 Páll Sigurðsson: Leiguréttur. Reykjavík 1995, bls. 32 og 169.