Tímarit lögfræðinga - 01.04.2017, Síða 56
54
að leggja sérstakan reiðstíg inn Eyjafjörð til að tryggja umferðaröryggi,
jafnt fyrir ökumenn bifreiða sem og hestamenn. Ekki væru efni til að
hnekkja þessu mati á því að almenningsþörf væri að þessu leyti fyrir
hendi til að skerða eignarréttindi eignarnámsþolans. Síðan segir svo
í forsendum dómsins:
„Úr því verður á hinn bóginn jafnframt að leysa hvort uppfylltar séu kröfur
um meðalhóf til að beita heimild til eignarnáms á landi stefndu við þær
aðstæður, sem uppi eru í málinu, en þeim kröfum telst því aðeins fullnægt að
ekki sé með öðrum úrræðum unnt á ásættanlegan hátt að ná þeim tilgangi,
sem eignarnámi er ætlaður, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar 19. mars
2009 í máli nr. 425/2008 og 15. nóvember 2012 í máli nr. 60/2012.“
Við mat á því hvort uppfylltar væru kröfur um meðalhóf yrði að
gæta að því að eignarnámsþola hefði þegar verið gert í almannaþágu
að sæta takmörkun á eignarréttindum sínum þar sem um landið
hefði verið lagður þjóðvegur. Þótt almenningsþörf stæði jafnframt
til þess að eignarnámsþoli gæti orðið að þola frekari skerðingu á
eignarréttindum sínum til að koma við reiðstíg um landið yrði ekki
horft fram hjá því að stígur af þeim toga kæmi aðeins takmörkuðum
fjölda manna að beinum notum og væri að auki í eigu einkaaðila. Af
þessu leiddi að ekki gæti komið til álita að skerða frekar eignarréttindi
eignarnámsþola nema fullreynt væri að aðrir ásættanlegir kostir
væru ekki tækir. Í málinu lá fyrir að vegamálastjóri hafði lagt til
grundvallar í tillögu sinni að tveir valkostir um legu reiðstígs í landi
eignar náms þolans hefðu verið raunhæfir og framkvæman legir,
annars vegar með því að fara leiðina austan við Eyjafjarðará, sem
deilt var um í málinu, og hins vegar með því að bæta við héraðsleið
fyrir hestaumferð samhliða þjóðvegi vestan við ána og gera úr henni
stofn leið. Ekki yrði séð á hvaða grunni þessi síðarnefndi kostur væri
óásættan legur í samanburði við hagsmuni eignarnámsþolans af því
að þurfa ekki að hlíta frekari skerðingu eignarréttinda sinna. Tekið
var fram að ekki hefði verið hnekkt málatilbúnaði eignarnámsþolans
um að kostnaðarmat, sem vegamálastjóri hafði aflað í tengslum við
tillögurnar, væri ekki í öllum atriðum reist á réttum forsendum. Hefði
því ekki verið sýnt fram á það gegn andmælum eignarnámsþolans
að meðalhófs hefði verið gætt þegar ráðherra tók hina umþrættu
ákvörðun. Var eignarnámsákvörðunin því ógilt.
Þegar bornir eru saman dómar Hæstaréttar frá 19. mars 2009 í máli
nr. 425/2008 (Brekka í Núpasveit) og 5. nóvember 2015 í máli nr. 173/2015
(Hestamannafélagið Funi) og eldri dómar má sjá að þróunin er á þá