Tímarit lögfræðinga - 01.04.2017, Side 92
90
Af framangreindri upptalningu er ljóst að áherslan liggur á stöðu
þolandans gagnvart gerandanum. Því til áréttingar segir í greinargerð:48
Ekki er lykilatriði [...] hvar brot er framið, þ.e. innan veggja heimilis eða utan,
heldur er litið til tengsla þolanda og geranda og þess rofs á trúnaðarsambandi
og trausti þeirra á milli sem í háttseminni felst.
Hugtakið „heimilisofbeldi“ kemur ekki fyrir í texta 218. gr. b, sem
fyrr segir, en í greinargerð er það oft haft innan sviga á eftir orðunum
„ofbeldi í nánum samböndum“. Þetta er gert í þeim tilgangi að draga
fram að þungamiðjan sé á hinum félagslegu tengslum geranda og þolanda,
en það er einmitt vegna þeirra sem ofbeldi á undir þetta sérákvæði,
en ekki önnur og almennari ákvæði hegningarlaganna, eins og t.d.
almenn ákvæði um líkamsmeiðingar, sbr. 217. og 218. gr.
Þegar allsherjar- og menntamálanefnd hafði frumvarpið til
umsagnar var sérstaklega rætt á fundum hennar hvort 218. gr. b næði
til aðila, sem væru í parasambandi sem hefði staðið í nokkurn tíma.49 Í
áliti nefndarinnar kemur fram að kveikjan að þeirri umræðu hafi verið
nýfallinn dómur Hæstaréttar þar sem taka þurfti afstöðu til þess hvort
piltur og stúlka, sem höfðu verið í sambandi í nokkurn tíma án sambúðar,
væru „nákomin“ í skilningi 233. gr. b hgl.50 Nefndin áréttar að rétt sé að
48 Kafli 3.4 (Sérstakt ákvæði um ofbeldi í nánum samböndum).
49 Álit allsherjar- og menntamálanefndar með breytingartillögu, sbr. þskj. 987, 401. mál,
145. löggjafarþing (2015–2016).
50 Um er að ræða H 312/2015, sem var kveðinn upp 15. desember 2015. Málavextir voru
með þeim hætti að 18 ára piltur hafði birt fimm nektarmyndir af fyrrum unnustu sinni,
sem þá var 17 ára, á Facebook-samskiptasíðu sinni, með tilvísun í nafn hennar. Myndirnar
sýndu bakhluta og kynfæri stúlkunnar. Textinn „Takk fyrir ad halda framhja mer sæta“
fylgdi með. Stúlkan hafði sjálf tekið myndirnar meðan á sambandinu stóð og sent unnusta
sínum rafrænt. Pilturinn var ákærður fyrir brot gegn barnaverndarlögum (3. mgr. 99.
gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002), brot gegn blygðunarsemi (209. gr. hgl.) og stórfelldar
ærumeiðingar (233. gr. b hgl.), þar sem hann hafi með háttsemi sinni sært blygðunarsemi
stúlkunnar auk þess að móðga hana og smána. Í héraði var pilturinn sakfelldur fyrir brot
gegn 209. gr. hgl. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga, en sýknaður af broti gegn 233. gr. b
hgl., á þeim forsendum að hann yrði „að njóta vafans um það hvort slík festa hafi verið
komin á félagsleg tengsl hans og brotaþola, þrátt fyrir rúmlega eins árs samband, að þau
teljist hafa verið „nákomin“ í skilningi 233. gr. b“. Í dómi Hæstaréttar segir: „Með vísan til
forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða fyrir brot
gegn 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr.
80/2002, sem og sýknu af broti gegn 233. gr. b. þeirra fyrrnefndu. Þótt fallist sé á röksemdir
héraðsdóms fyrir sýknu af þeim sakargiftum á grundvelli þeirrar meginreglu íslensks
réttar, að allan vafa um það hvort refsiákvæði taki til háttsemi ákærða eigi að virða honum
í hag, braut ákærði gróflega gegn trúnaði brotaþola með framferði sínu.“ Af þeim sökum
og með hliðsjón af 1., 6. og 7. tl. 1. mgr. 70. gr. hgl. var refsing piltsins ákveðin fangelsi í
sex mánuði, en vegna ungs aldurs hans og þess að hann játaði háttsemi sína og honum
hafði ekki verið refsað áður var hún skilorðsbundin í 2 ár.