Tímarit lögfræðinga - 01.04.2017, Page 98
96
þessu tagi. Atvik og aðstæður í mörgum þessara mála eru með þeim
hætti að háttsemi yrði nú heimfærð undir 218. gr. b.
9.3 Dómareifanir
Við skoðun á dómum Hæstaréttar, sem kveðnir voru upp á tímabilinu
1. maí 2011 til 1. maí 2016, má finna dóma þar sem sakfellt er fyrir
líkamlegt ofbeldi í nánum samböndum, sbr. H 121/2012 (sambýliskona),
H 361/2012 (fyrrverandi eiginkona), H 93/2013 (faðir), H 214/2013
(fyrrverandi sambýliskona), H 757/2013 (sambýliskona), H 68/2014
(sambýliskona), H 508/2014 (barnsmóðir og fyrrum unnusta), H 843/2014
(sambýliskona), H 125/2015 (fyrrverandi eiginkona og stjúpdóttir) og
H 300/2015 (fyrrverandi tengdafaðir).
H 121/2012
Maður var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. hgl., með því að hafa
ráðist í tvígang á sambýliskonu sína og barnsmóður á heimili þeirra. Með
hliðsjón af 77. og 78. gr. hgl. var hann dæmdur í 12 mánaða fangelsi.65 Við
ákvörðun refsingar var litið til þess að maðurinn hafði gerst sekur um „tvær
grófar líkamsárásir á hendur sambýliskonu sinni, í fyrra skiptið þegar hún var
gengin rúmlega 27 vikur með barn þeirra, en hina þegar hún var nýkomin úr
keisaraskurði og hélt á fimm daga gömlu barni þeirra í fanginu“. Áverkarnir,
sem konan hlaut í fyrri árásinni, stefndu lífi hins ófædda barns í mikla hættu
og með síðari árásinni var heilsu konunnar og nýfædds barns hennar stefnt
í stórfellda hættu. Í dóminum segir: „Er þetta virt ákærða til refsiþyngingar,
sbr. 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Jafnframt er litið til
þess að fyrri árásin átti sér stað að viðstöddum ungum börnum brotaþola
og dóttur ákærða.“
H 361/2012
Maður var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 217. og 1. mgr. 218. gr. hgl., með
því að hafa í þrígang ráðist á fyrrverandi eiginkonu sína. Konan var stödd á
heimili sínu í eitt skiptið en á vinnustað sínum í hin tvö skiptin. Maðurinn
var dæmdur í fangelsi í þrjá mánuði. Í dóminum segir: „Það þykir horfa
refsingu ákærða til þyngingar, sbr. 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga,
að brot hans beindust að fyrrverandi eiginkonu hans og voru tvö brotanna
að nokkru framin í viðurvist ungs barns þeirra.“
H 93/2013
Maður var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. hgl., með því að hafa ráðist
á föður sinn á heimili hans og greitt honum hnefahögg í andlitið. Í sama máli
var hann sakfelldur fyrir að hafa nauðgað karlmanni, sbr. 1. mgr. 194. gr. hgl.
og umferðarlagabrot. Hann var dæmdur í fangelsi í þrjú ár og sex mánuði. Við
65 Ákærði var jafnframt sakfelldur fyrir fjölda umferðarlagabrota og ævilöng ökuleyfis-
svipting áréttuð.