Tímarit lögfræðinga - 01.04.2017, Qupperneq 103
101
og lífshættu“. Þá kemur fram að konan þjáist af áfallastreituröskun
og þunglyndi í kjölfar árásarinnar. Tveggja ára dóttir konunnar og
ofbeldismannsins var viðstödd og kemur fram að atburðurinn sæki
mjög á hana og trufli daglegt líf hennar. Í vottorði frá leikskólanum
segir að hegðunarbreytingar hafi orðið vart hjá henni og hún hafi verið
mun óöruggari og minni í sér en venjulega. Í H 121/2012 réðst maður
á þungaða sambýliskonu sína með þeim afleiðingum m.a. að legvatn
fór að leka. Í vottorði læknis kemur fram að áverkarnir hafi stefnt lífi
ófædda barnsins í mikla hættu. Er það virt refsingu til þyngingar.
Þá er í mörgum dómanna lýst alvarlegum sálrænum afleiðingum.
Í H 121/2012 kemur fram að hið andlega og líkamlega ofbeldi, sem
brotaþoli hafi orðið fyrir af hendi ákærða, hafi komið í veg fyrir að
hún nyti meðgöngunnar og fyrstu mánaðanna eftir fæðingu barnsins.
Hún hafi verið hrædd, kvíðin, reið, döpur og lengi vel í hálfgerðu
áfalli yfir því sem hafi gerst. Í H 68/2014 sló maður sambýliskonu sína
í andlitið með þeim afleiðingum að bein brotnaði í nefi hennar og
varðaði brotið þegar af þeirri ástæðu við 1. mgr. 218. gr. hgl. e) Þungun.
Í þremur málanna er ráðist á vanfæra konu, sbr. H 121/2012, H 68/2014
og H 843/2014. Í því fyrst talda kemur fram að lífi hins ófædda barns
hafi verið stefnt í mikla hættu vegna þeirra áverka er móðirin hlaut
við árásina. f) Tengsl. Vísað er til þyngingarákvæðis 3. mgr. 70. gr. hgl.
við ákvörðun refsingar í sex dómanna. Í þeim öllum er sakfellt fyrir
fleiri árásir en eina, sbr. H 121/2012, H 361/2012, H 757/2013, H 68/2014,
H 843/2014 og H 125/2015. Í fjórum málanna bjuggu gerandi og þolandi
saman, sbr. H 121/2012, H 757/2013, H 68/2014 og H 843/2014. Í tveimur
málanna var þolandi fyrrverandi eiginkona árásarmannsins, sbr. H
361/2012 og H 125/2015.
9.5 Niðurstaða dómarannsóknar og einkenni málanna
Algengast er að brotin eigi sér stað innan veggja heimilisins, ýmist á
sameiginlegu heimili geranda og þolanda, sbr. H 121/2012, H 757/2013
og H 843/2014 (ein af fjórum árásum á sambýliskonu) eða á heimili
brotaþola, sbr. H 361/2012 (ein af þremur árásum á fyrrverandi eigin-
konu), H 93/2013, H 68/2014, H 508/2014, H 125/2015 og H 300/2015. Í
öðrum tilvikum er ráðist á brotaþola á vinnustað hans, sbr. H 361/2012
(tvær af þremur árásum á fyrrverandi eiginkonu), í bifreið, sbr. H
843/2014 (tvær af fjórum árásum á sambýliskonu), á heimili föður
geranda, sbr. H 843/2014 (ein af fjórum árásum á sambýliskonu) eða í
sumarbústað, sbr. H 214/2013.