Tímarit lögfræðinga - 01.04.2017, Page 104
102
Þegar dómarnir eru lesnir í heild sinni kemur glögglega fram í
sumum þeirra að þolandi hefur mátt búa við langvarandi ofbeldi. Í
H 361/2012 ber þolandi, sem var fyrrverandi eiginkona ákærða, að
um „langvarandi heimilisofbeldi hefði verið að ræða“. Í H 843/2014
bera nágrannar að ástandið á heimili ákærða og sambýliskonu hans
hafi oft verið slæmt. „Ákærði gengi í skrokk á brotaþola oft og illa,
þrátt fyrir að hún væri þunguð. Hann kallaði hana einnig öllum illum
nöfnum og hótaði henni líkamsmeiðingum og dauða.“ Í H 757/2013
segist brotaþoli búa við mikið ofbeldi af hálfu sambýlismanns síns.
Í fleiri dómum liggur fyrir að þolandi mátti þola ofbeldi oftar en
ákæruskjal ber með sér og það birst í fleiri myndum en líkamlegu
ofbeldi. Er ákvæði 218. gr. b einmitt ætlað að ná til slíkra viðvarandi
og ógnvekjandi kringumstæðna, í stað þess að einblína á ofbeldið sem
samansafn einstakra tilvika. Þetta er nánar útskýrt í greinargerð:68
Hefur ákvæðið það að markmiði að tryggja þeim sem þurfa að þola alvarlegt
eða endurtekið ofbeldi af hálfu nákominna meiri og beinskeyttari réttarvernd
[en] gildandi refsilöggjöf gerir. Í því sambandi er sérstaklega vert að geta
þess að líkamsmeiðingaákvæði almennra hegningarlaga ná eðli málsins
samkvæmt einungis til líkamlegs ofbeldis en ekki til andlegs ofbeldis,
svo sem kúgana, hótana eða niðurlæginga, sem er algeng birtingarmynd
ofbeldis í nánum samböndum. Er hinu nýja ákvæði ætlað að taka á þessum
vanda og er með því horfið frá því að líta á ofbeldi í nánum samböndum
sem samansafn einstakra tilvika og athyglin færð á þá viðvarandi ógn og
andlega þjáningu sem það hefur í för með sér. Með öðrum orðum þá verði
ofbeldisbrot í nánum samböndum virt heildstætt og eftir atvikum án þess
að sanna þurfi hvert og eitt tilvik fyrir sig [...]
Í kjölfar þess að sérstakt ákvæði hefur verið lögfest til höfuðs ofbeldi
í nánum samböndum er ekki óvarlegt að ætla að refsingar þyngist í
þessum málaflokki, en það er reynsla Svía69 og Norðmanna.70
68 Sjá nánar kafla 3.4 (Sérstakt ákvæði um ofbeldi í nánum samböndum).
69 Þetta kemur fram í kafla 3.3.2 (Noregur) í greinargerð með frumvarpi því er varð að
lögum nr. 23/2016, sbr. þskj. 547, 401. mál, 145. löggjafarþing (2015–2016).
70 Þetta kemur fram í kafla 6.2.1 (Gjeldende rett) í greinargerð með frumvarpi því er varð
að lögum nr. 46/2010 (Prop. 97 L (2009–2010)), bls. 30.