Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 01.10.2022, Blaðsíða 25

Læknablaðið - 01.10.2022, Blaðsíða 25
L ÆKNABL AÐIÐ 2022/108 453 R A N N S Ó K N Greinin barst til blaðsins 10. júní 2022, samþykkt til birtingar 16. september 2022. þess mátti sjá að krabbamein hjá konum uppgötvaðist í 23% tilvika í skimun (hærra hlutfall ef við skoðum bara brjóstakrabbamein). Hjá körlum var einnig algengt að krabbamein uppgötvaðist þegar þeir fóru til læknis vegna annars. Í rannsókninni mátti sjá að þátttakendur voru nær helmingi líklegri til hefja fyrstu meðferð meira en mánuði frá greiningu árið 2019, borið saman við árið 2015. Þessi þróun sást einnig meðal kvenna með brjóstakrabbamein á Íslandi í óbirtum niðurstöðum úr gæðaskráningu krabbameina, sameiginlegu verkefni Krabba- meinsfélagsins, Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri.16 Ekki var munur á tímalengd milli ára frá því að einstaklingur fékk fyrst að vita að hann gæti verið með krabbamein þar til staðfesting fékkst á því á rannsóknartímanum (2015-2019). Hér á landi eru ekki opinber viðmið um tíma í þessum efnum. Það er hins vegar raunin í nágrannalöndunum, til dæmis í Svíþjóð og Danmörku þar sem eru gefin viðmið um hve langur tími megi líða frá gruni um mein þar til staðfesting fæst og einnig hve langt ætti að há- marki að líða frá staðfestingu meins þar til meðferð hefst, í flestum tilvikum undir 28 dögum. Slík viðmið má telja að séu gagnleg og leiðbeinandi bæði fyrir sjúkling og heilbrigðisstarfsfólk og til þess fallin að veita aðhald og skapa öryggi. Til að mögulegt sé að bregðast við margþættum áhrifum krabbameinsmeðferðar er nauðsynlegt að víðtækar þarfir fólks séu metnar með reglubundnum og kerfisbundnum hætti. Stærstur hluti þátttakenda sagði að ekki hefði verið metið reglulega hvort þeir þyrftu á ákveðnum úrræðum að halda samhliða krabba- meinsmeðferðinni. Þörf fyrir sjúkraþjálfun, næringarráðgjöf og sálfræðiþjónustu var metin reglulega hjá 18-28% þátttakenda (mis- munandi eftir kyni og tegund úrræða). Ástæðan fyrir þessu gæti verið skortur á starfsfólki, aðstöðu eða notkun skilgreindra ferla við matið. Ætla má að hér séu sóknarfæri til staðar sem geta leitt til betri lífsgæða og árangurs af meðferð. Borið saman við karla fannst konum síður að vel hefði verið staðið að greiningu krabbameins. Þær töldu sig frekar þurfa stuðn- ing frá heilbrigðisstarfsfólki vegna þess hvernig þeim leið andlega og fannst þær einnig síður hafa möguleika á að ræða ítarlega um sjúkdóm sinn meðan á meðferð stóð. Á þessu geta verið ýmsar skýringar. Algengara var að konur fengju upplýsingar um grein- ingu í símtali og að konur með brjóstakrabbamein þyrftu fleiri en eina tegund krabbameinsmeðferðar. Einnig eru vísbendingar um að þær hafi frekar upplifað ýmsar aukaverkanir vegna krabba- meinsmeðferðanna borið saman við karla í þessari rannsókn (óbirt gögn, verða aðgengileg á Krabb.is/rannsokn í október). Í nýlegri samantektarrannsókn á 23.000 þátttakendum kom í ljós að konur voru 34% líklegri en karlar til að upplifa alvarlegar aukaverkanir af krabbameinsmeðferð.17 Mikilvægt er einnig að taka alvarlega að 35% kvenkynsþátttakenda sögðust að litlu, nokkru eða engu leyti hafa haft möguleika á að ræða ítarlega um sjúkdóm sinn við heil- brigðisstarfsfólk. Helstu styrkleikar Áttavitans eru að öllum á Íslandi sem greind ust með krabbamein á árunum 2015-2019 og voru á lífi við upphaf rannsóknar, var boðin þátttaka og þau spurð á víðtækan hátt um reynslu sína. Spurningarnar voru að danskri fyrirmynd og forprófaðar á smáum hópi og aðlagaðar eftir þörfum að ís- lenskum aðstæðum. Helsti veikleiki Áttavitans er að óvíst er hve nákvæmlega rannsóknarþýðið endurspeglar allan þann hóp fólks sem greinist með krabbamein á Íslandi en þátttaka var háð meðal annars tölvufærni, notkun rafrænna skilríkja og tungumáli. Með- alaldur við greiningu hjá þátttakendum var 59 ár en meðalaldur allra sem greinast á Íslandi er 66 ár. Einstaklingum eldri en 80 ára við greiningu var ekki boðin þátttaka. Hlutfallslega fleiri kon- ur voru bæði í úrtakshópnum, 53%, og hópi þátttakenda í Átta- vitanum, 57%. Að meðaltali voru liðin um 3,5 ár frá greiningu, svarhlutfall var 37%. Mögulega voru þátttakendur í rannsókninni við betri heilsu en þeir sem ekki tóku þátt. Til stendur að skoða þennan þátt betur síðar með því að bera saman dánartíðni þessara tveggja hópa. Undanfarna áratugi hefur dánartíðni vegna krabbameina verið hærri hjá körlum en konum, sem líklega má rekja til mis- munandi lífshátta, til dæmis reykingavenja og þátttöku í krabba- meinsskimun.15 Síðustu ár hefur dregið mikið úr þessum mun og almennt hefur dánartíðni bæði kvenna og karla lækkað, sem er rakið til margra þátta, svo sem langtum minni tóbaksnotkunar og betri greiningar- og meðferðarúrræða.15 Miklu máli skiptir að leitað sé sem fyrst til læknis ef vart verður einkenna sem geta bent til krabbameins, svo sem óvenjulegra blæðinga, þykkilda eða hnúta, óútskýrðs þyngdartaps og breytinga á hægðum eða þvaglátum. Það að krabbamein greinist snemma getur haft afger- andi áhrif á framgang sjúkdómsins og horfur. Því er afar mikil- vægt að gott aðgengi sé að heilbrigðisþjónustu, bæði greiningu og meðferð.8 Fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar benda til að huga megi betur að ýmsum þáttum við greiningu og meðferð krabbameina, svo sem viðtalsformi þegar upplýst er um krabbameinsgreiningu, tímalengd frá greiningu þar til meðferð hefst og reglulegu, kerfis- bundnu mati á þörfum fyrir ýmis konar úrræði meðan á meðferð stendur. Munur sást á niðurstöðunum eftir kyni og búsetu hvað varðar viðtalsformið og skoða þarf fleiri þætti í aðdraganda grein- ingar og greiningarferlinu út frá menntun og tekjum. Margt já- kvætt sást líka í niðurstöðunum, eins og upplifun þátttakenda af samskiptum við heilbrigðisstarfsfólk, sem var almennt góð, 84% voru jákvæð gagnvart upplýsingaflæði frá heilbrigðisstarfsfólki í krabbameinsmeðferðinni. Vonast er til að niðurstöður úr Áttavit- anum muni auka þekkingu innan heilbrigðiskerfisins og að þær geti nýst til að auka gæði þjónustunnar enn frekar, auðvelda for- gangsröðun verkefna og stuðla að fyrsta flokks þjónustu sem get- ur haft áhrif á heilsu og líðan þeirra sem greinast með krabbamein bæði til lengri og skemri tíma. Þakkir Sérstakar þakkir fær Guðríður Helga Ólafsdóttir, gagnagrunn- stjóri rannsóknarinnar, fyrir sína mikilvægu aðkomu að undir- búningi og gagnaöflun rannsóknarinnar sem og varðveislu gagna. Einnig þökkum við þátttakendum kærlega fyrir þátttökuna í Átta- vitanum.

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.