Kirkjublaðið - 09.12.1946, Blaðsíða 13
KIRKJUBLAÐIÐ JÓLIN 194ö
13
þó að ég væri öllum ókunnugur. I júlímánuði 1903
bauð Ricard mér á kristilegan stúdentafund í Sórey.
Var ég þar vikutíma. En er á fundinn leið, mætti
Ricard mér þar úti í skóginum, og skýrði mér frá, að
nú væri mér boðið að dvelja sumarlangt á prestssetri
á Lálandi. Tók ég boðinu með þakklæti.
Ef ég ætti að lýsa prestinum þar og heimili hans,
starfi þeirra hjónanna, safnaðar- og kirkjulífinu þar
í sveitinni, gæti það orðið langur kapítuli.
Júlíus Bachevold hét presturinn og Matthildur hét
kona hans. Heima áttu þau í Rubbelykke. Ég lít á
þann stað sem heimili mitt. Þar var ég allt sumarið
1903, og upp frá því í jóla- og sumarleyfum, og
skrapp þangað einnig um páskana.
Þar varð ég aðnjótandi þeirra áhrifa, sem enn
heilla huga minn. Ég hefi aldrei séð slíkt safnaðar-
líf. Hvílík jólahátíð. Gleði og lofsöngur í kirkju, í
samkomuhúsinu og á heimilunum. Jólamorgunn, frið-
ur og kyrrð, nýfallinn snjór. Fjöldi fólks á leið til
kirkju, sem varð troðfull af fólki. Sungið var með
krafti og fögnuði og prédikun flutt með sönnun
anda og kraftar. Á hverjum sunnudegi var kirkjan
full af fclki, og ávallt fjöldi manna til altaris. Guðs-
þjónustur voru einnig haldnar á mörgum heimilum,
og í samkomuhúsi safnaðarins flutti presturinn eld-
heitar prédikanir. Þangað komu einnig ræðumenn
víðs vegar að. Oft hugsaði ég til orðanna: „Sæl er
sú þjóð, sem þekkir fagnaðarsönginn“.
Þar voru jólaguðsþjónustur haldnar fyrir gamla
fólkið, og þá var börnunum heldur ekki gleymt. Jóla-
tréshátíð var haldin fyrir börnin, og hafði ég, ásamt
öðru ungu fólki, það starf að undirbúa hátíðina, og
leika við börnin og unglingana.
í barnahópnum var á þessum jólum, nú fyrir 40
árum, lítill drengur, sem hét Kaj. Hefir hann í end-
urminningum sínum lýst þessum stundum í sam-
komuhúsinu. Drengur þessi varð frægur maður, og
kannast allir við Khj Munk. Átti hann heima þar í
grenndinni, og var oft í sunnudagaskóla hjá frú
Bachevold. Drengurinn hlustaði á prestinn, og hefir
Munk í ritum sínum lýst Bachevold með ógleyman-
legum orðum. Einu sinni hittust þeir úti í skógi, er
drengurinn var á leið í skólann, og Munk segir frá
því, er presturinn lagði hönd á höfuð drengsins og
blessaði hann. Kaj Munk segir: „Um leið og ég
skrifa þetta, finn ég hönd prestsins á enni mínu,
og fingur mínir titra af þakklæti“. — „Oft hefir
mig dreymt prestinn“, segir Kaj Munk. „Kemur
hann til mín teinréttur og fjörmikill, réttir mér
höndina og segir: Komdu sæll, Kaj. Það gleður mig,
að þú ert trúr því, sem ég hefi kennt þér. Ég ætla
bráðum að koma til þín og prédika fyrir þig“.
Kaj Munk hefir í ritum sínum lýst prestinum svo
vel, að menn hafa séð, að prédikun prestsins hefir
mótað sálarlíf hins fræga prests og rithöfundar.
Ég kom á liðnu sumri ásamt konu minni og dóttur
á þessar æskustöðvar mínar. Vorum við í heimsókn
hjá syni gamla prestsins. Heitir hann Jóhannes
Bachevold. Er hann óðalsbóndi og býr á fögrum stað,
er Asserstrup heitir. Eru þar vegleg húsakynni og
landrými mikið. Fetar sonurinn í fotspor föður síns,
og tekur ásamt konu sinni mikinn þátt í trúar- og
safnaðarlífi sveitarinnar. Þar prédikaði ég á sól-
fögrum júlídegi, og nokkru síðar ókum við til Opa-
ger, en það er æskuheimili Kaj Munks. Þaðan héld-
um við út í kirkjugarðinn, að leiði Bachevoldshjón-
anna. Þótti mér áletrunin á legsteininum eiga vel við
minningar mínar um prestshjónin, en á steininum
eru þessi orð: „Trúr vottur vinnur sálir“.
Frá kirkjugarðinum héldum við að samkomuhús-
inu. En hve ég mundi vel eftir yfirskriftinni yfir
dyrunum: „Drottinn er góður þeirri sál, er til hans
leitar“.
Samkvæmt þessu var prédikað á þessum stað á
sumrum og vetrum. Þaðan á ég hinar helgustu jóla-
minningar. Þegar ég er að búa mig undir jólin,
hugsa ég oft þangað, sé kirkjuna fulla af lofsyngj-
andi söfnuði, og hlusta á orð Bachevolds.
Þar var hin brennandi trú og hinn skýri boð-
skapur. Hér var hirðirinn, sem sagði frá því, er við
hafði borið, og lofaði Guð og vegsamaði fyrir allt
það, er hann hafði heyrt og séð. Það var hin kallandi
rödd hins trúaða prests, og mér var ljóst, að það
var kallað á mig. Jólasagan var ekki í fjarlægð, en
mjög nálæg. Þetta var nú, nú í dag, handa mér.
Ég hefi aldrei gleymt þessum stundum.
Við yl minninganna vermist hjartað. Með hjart-
anu er trúað og með munninum er játað. Ég bið
þess, að þetta megi fara saman í kirkju vorri.
Jólin benda oss á það, sem gerðist. En jólin eru
send oss nú, til þess að vér fáum hlutdeild í því,
sem er að gerast. Hér er um það að ræða, sem hef-
ir gerzt. En til þess eru oss jólin gefin, að þetta
gerist hjá oss nú, að boðskapurinn sé fluttur oss nú.
Jólaguðspjallið byrjar á þessa leið: „En það bar
til um þessar mundir“. Hér er um viðburð að ræða,
hið mesta undur. En þetta á að snerta oss nú, svo
að boðskapurinn nái persónulega til vor: Yður er
í dag frelsari fæddur.
Þetta er hjálpin handa mér í dag.
Sú jólabæn er í hjarta mínu, að íslenzku prest-
arnir megi líkjast hirðunum, er vöktu yfir hjörðinni.
Þeir vöktu um nóttina. Þannig skulum vér vaka
og búa oss undir heilaga hátíð. Til prestsins, að
hjarta hans sjálfs, skal fagnaðarboðskapurinn ná.
Það á ekki að þegja yfir slíkri fregn. Förum að
eins og hirðarnir. Segjum frá því, sem bar við. Lát-
um jólaprédikanir vorar mótast af því, að þetta hefir
náð tökum á oss, og þá munum vér um leið finna,
að það er sjálfsagt að segja öðrum frá því. Hér er
um sannan, fagnaðarríkan viðburð að ræða. Þeir,
sem hafa sagt frá þessu, hafa talað sannleikann.
Frh. á bls. 28,