Kirkjublaðið - 09.12.1946, Blaðsíða 30
30
KIRKJUHLAÐIÐ JÓLIN 1940
Sumav' jól
póst- ocj ó'mamáfasíjóri
Einhver sérkennilegustu jólin, sem ég hefi lifað,
voru jólin 1944. Ég var þá langt í burtu frá f jölskyldu
minni, á ferðalagi í Ameríku. Aðfangadagsmorgun-
inn kom ég til Los Angelos í Californíu. Um nóttina
hafði ég flogið yfir Sierra-Nevada-fjöllin, sem öll voru
snævi þakin. Austan við þau hafði flugvélin tafizt
vegna snjóa, en þegar vestur yfir þau kom, hlýnaði
mjög í lofti, og brátt kom í ljós hin broshýra strönd
Kyrrahafsins. Landið var grænt og fagurt, baðáð í
eilífu sólskini og hvergi sást skýhnoðri á lofti. Þarna
skiptust á skógar og fögur býli. í þessum jarðar-
skrúða, birtu, yl og ljósi fannst mér ég allt í einu
vera kominn úr vetri í sumar. Og þessi tilfinning yfir-
gaf mig ekki alla jóladagana, sem ég dvaldi í Cali-
forníu.
Á flugvellinum tók á móti mér góðkunningi minn,
sem ásamt fjölskyldu sinni hafði nokkra daga verið
mér samvista í Noregi, þegar stríðið skall þar á í
aprílmánuði 1940. Hann var Dani. Nú átti hann
þarna heima á friðsælum stað í Sancta Monica, sem
er hluti af Los Angelos, hafði ekki þorað að snúa aftur
frá Noregi til heimilis síns í Danmörku af ótta við
Þjóðverja, því bróðir hans, danski sendiherrann í
Washington, hafði strax eftir innrásina í Danmöi'ku
tekið ákveðna afstöðu gegn Þjóðverjum. Á heimili
hans biðu mín hinar alúðlegustu viðtökur og skömmu
eftir komuna ók ég með húsbóndanum spölkorn út úr
borginni til að sækja jólarósir. Ég gleymi aldrei öllum
þeim blómagróðri, er ég sá þarna, og það um há-vet-
ur. Jólarósirnar uxu þarna þétt og þöktu gríðarstór
svæði. Þær voru svo risavaxnar, að slíkt hefi ég aldrei
séð. Á heimleiðinni komum við við í nokkrum búðum
til undirbúnings jólunum.
Um kvöldið fór öll fjölskyldan til aftansöngs í litlu,
dönsku kirkjunni. Ungur, geðþekkur prestur flutti
fallega, látlausa jólaræðu og allir sungu. Þegar ég var
barn, var ég ákaflega trúaður. En sjaldan eða aldrei
síðan hefir boðskapurinn frá Betlehem, um fæðingu
Meistarans mikla, gagntekið sálu mína jafn innilega
eins og þarna, þar sem hann var fluttur í öllum sín-
um einfaldleik af unga prestinum danska í litlu kirkj-
unni í Sancta Monica. í þessu óbrotna umhverfi mitt
í heimsborginni, þar sem þetta litla þjóðarbrot var
samankomið í framandi landi, og þar sem andi sam-
úðar og vináttu virtist svo sterkur og gagnger. Ég
gleymdi stað og stund og mér fannst eins og ég vera
kominn heim í litlu kirkjuna í sveitinni minni, þar
sem ég ólst upp. Jólaminningar frá bernskuárunum
streymdu að mér og liðu fram hjá eins og myndir.
Ég minntist bernskuáranna, þegar ég ásamt systkin-
um mínum fékk að fara til kirkju á jólunum, 3ja
tíma gang á hjarni í heiðríku veðri, og síðan heim
aftur jóladagskvöldið í tunglsljósi, undir tindrandi
stjörnuhimni og við bragandi norðurljós. Allt þetta
laðaðist fram í huga minn og mér fannst ég staddur
í óendaleikans alskrýdda musteri. — Síðan hvarflaði
hugurinn aftur til ástvinanna heima, sem ég var svo
langt í burtu frá.
Þegar út úr kirkjunni kom, var ennþá bjart og
hlýtt, eins og á mildu íslenzku júlíkvöldi. Allir kirkju-
gestirnir tókust í hendur og buðu hver öðrum „gleði-
leg jól“ og röbbuðu saman sem vinir. Þegar svo var
komið heim frá kirkjunni, safnaðist fjölskyldan til
jólamátíðar. Yngsta dóttirin, lítil ljóshærður engill,
fór með borðbænina og allir hneigðu höfuð sín. Þá
var jólatréð tendrað, jólagjöfunum útbýtt og síðan
gleðskapur fram um miðnætti.
Næsta kvöld, jóladagskvöldið, var ég á heimili ann-
arar fjölskyldu, sem hafði gríðarstóran aldingarð
umhverfis húsið sitt og ræktaði þar margskonar á-
vexti. Gat þar að líta appelsínutré og ýms önnur tré,
hlaðin ávöxtum, þótt árstíðin héti vetur.
Báða jóladagana ókum við spölkorn upp í skógi-
vaxnar fjallshlíðarnar fyrir ofan borgina, og þar
reikuðum við um fótgangandi, léttklæddir, í glaða
sólskininu og röbbuðum margt. Stríðslokin vo'ru þá
fyrirsjáánleg, en hvað mundi koma á eftir? Betri
heimur eða verri? Vinur minn, sem er gáfaður mað-
ur og hefir óvenju ríka og sterka samkennd með með-
bræðrum sínum, þjáðist af meðvitundinni um allt
það böl, sem mannkynið kallar yfir sjálft sig. Hann
uggði illt um afleiðingar stríðsins, sem skilja mundu
eftir hefndarþorsta í hjörtum manna.
Svona liðu þessir friðsælu dagar í sífelldu sólskini.
Áfram, áfram, annirnar kölluðu og ferðin skyldi
hafin af nýju, þangað sem erindin biðu. En endur-
minningarnar geymast eftir að heim er komið, þótt
árin líði og hverfi í aldanna skaut.