Jökull - 01.01.2019, Page 132
Jöklabreytingar 2017–2018
Reykjarfjarðarjökull – hopar eins og á undanförnum
árum. Þröstur Jóhannesson gekk ásamt sjö félögum
yfir í Reykjafjörð úr Hrafnsfirði um miðjan september
til mælinga.
Norðurlandsjöklar
Tungnahryggsjökull – hopaði um nokkra metra milli
ára.
Búrfellsjökull – Það hefur verið erfitt undanfarin ár að
ákvarða legu sporðsins vegna snjóalaga á haustin, sem
og urðarkápu og dauðísslandslags eftir framhlaupið
árið 2004. Mælingar eru því ekki nákvæmar frá ári
til árs en yfir lengri tíma fæst gott yfirlit yfir hop jök-
ulsins, eins og segir í skýrslu Sveins Brynjólfssonar.
Deildardalsjökull – Mælt hefur verið á tveimur stöð-
um, en annar þeirra er gjarnan hulinn snjó fram á
haust og því vandkvæðum bundið að gera þar mæl-
ingu. Skafti Brynjólfsson nefnir að afkoma hafi mælst
lítillega jákvæð, en um 60% af yfirborði jökulsins var
hulið vetrarsnjó að hausti og samræmist þetta ágæt-
lega niðurstöðum sporðamælinga.
Gljúfurárjökull – Gerð var mæling á stöðu jökulsins
í blíðskaparveðri í byrjun september í fylgd gangna-
manna.
Langjökull
Kirkjujökull – Seint í september náðu mælingamenn
að jöklinum. Samkvæmt skýrslu Benedikts Gröndals
hefur sporðurinn hopað mikið síðan 2014, þegar síð-
ast var mælt. Nú stendur nýtt sker upp úr jöklinum
norðanverðum og kominn er í ljós hryggur sem liggur
frá jaðrinum og upp eftir miðjum jöklinum.
Geitlandsjökull – Fjarlægðarmælir var notaður til þess
að meta breytingar á stöðu Geitlandsjökuls.
Hagafellsjöklar – Báðir Hagafellsjöklar voru mældir
haustið 2018, og miklar breytingar eiga sér stað við
jaðar Eystri-Hagafellsjökuls. Í skýrslu Einars Ragn-
ars Sigurðssonar segir: „Nú hefur jökullinn skipt sér
upp, þ.e. brún á lágu móbergsfjalli með hraunskildi er
komið upp undan jöklinum og er ís eftir neðar sem er
núna alveg aðskilinn frá jöklinum sjálfum. Í mælingu
núna er því ekki talið rétt að miða við neðri hlutann
þar sem hann hefur ekki lengur nein bein tengsl við
jökulinn sjálfan.“
Hofsjökull
Blágnípujökull – Farið var til mælinga við Blágnípu-
jökul og skoðaðar aðstæður við íshelli sem er við út-
fallið á Jökulkvíslinni, en óreglulegt sigsvæði hefur
myndast stutta leið upp eftir jöklinum.
Nauthagajökull – Mælingamönnum tókst að mæla
jaðar jökulsins þrátt fyrir erfiða færð.
Múlajökull – Staða Múlajökuls er áætlað með mæl-
ingum með fjarlægðarkíki, en haustið 2018 gáfu þær
niðurstöður til kynna að jökullinn væri e.t.v. að ganga
fram. Hins vegar hafa jarðsjár- og íssjármælingar
Ívars Arnar Benediktssonar og fleiri leitt í ljós að
hryggur liggur samsíða jökuljaðrinum, sem útskýrir
líklega brattan sporðinn fremur en framhlaup. Sam-
anburður á Sentinel gervihnattamyndum frá septem-
ber 2017 og 2018 sýna að jökullinn er ekki að ganga
fram.
Mýrdalsjökull
Sólheimajökull – Framan við sporð Sólheimajökuls er
komið mikið lón sem nær frá Hvítmögu nánast að Jök-
ulhaus. Meðfram Jökulhaus er hægt að ganga að jökl-
inum en annar staðar er ófært með öllu. Því hefur
verið ógerningur að mæla jökulinn við miðju sporðs-
ins undanfarin ár. Annað árið í röð var jökuljaðarinn
mældur með fjarlægðarkíki og hopið mælist eitt það
mesta í 88 ára sögu mælinga á jöklinum.
Vatnajökull
Síðujökull – Hlynur Skagfjörð Pálsson hefur tekið að
sér mælingar við Síðujökul, en þær hafa verið stopul-
ar undanfarin ár enda jökullinn ekki í alfaraleið.
Skeiðarárjökull austur – Skeiðarárjökull austanverð-
ur hopar mikið, eða yfir 200 m á tveimur stöðum
samkvæmt mælingum Ragnars Franks Kristjánsson-
ar með fjarlægðarkíkinum. Miklar breytingar eiga sér
stað framan jökuls, sístækkandi lón, dauðís sem losn-
ar frá meginsporðinum, hluti sporðsins gæti verið á
floti og í einhverjum tilfellum erfitt að ná mælingu á
sótsvartri jökulröndinni.
Morsárjökull – Jökullinn er orðinn rýr og mælist hop-
ið um 100 m með fjarlægðarkíki. Landslagið framan
hans er sífellt að breytast, lónið stækkar mikið fyr-
ir framan jökulinn, dauðísinn er að hjaðna og þar af
leiðandi betra að greina á milli hans og jökulsins.
JÖKULL No. 69, 2019 131