Hinsegin dagar í Reykjavík - 01.08.2023, Blaðsíða 24
24
Steindór Sigurjónsson
37 ára, hann
Hver er þín íþróttasaga?
Ég er alinn upp í fótbolta. Frá 6 ára aldri, með kannski
smá fríum inn á milli sem var ekki oft, hef ég æft og
spilað með knattspyrnufélaginu Sindra á Höfn. Ég
fór á Pollamót á Laugarvatni og á þeim tíma var mjög
stórt að fá að hitta Loga Ólafsson þar sem hann var
landsliðsþjálfari Íslands. Þessi ár sem ég var að spila
og alast upp þá unnum við alltaf leikina okkar á móti
liðunum á Austurlandi og vorum við mjög stór og góður
árgangur. Svo í seinni tíð þegar maður hugsar til baka
þá eru það svona nokkrir hlutir sem standa upp úr, eins
og Pollamótið sem var haldið þá og svo þegar ég var
í 4. flokki tókum við þátt í fyrsta ReyCup-mótinu sem
haldið var. Það eru nokkur ár síðan það var og vorum
við mjög stoltir yfir því að fá að taka þátt þar sem þessi
mót eru mikið breytt í dag. Svo á ég nokkra leiki að baki
í meistaraflokki Sindra og maður gleymir aldrei þegar
maður skorar fyrsta markið sitt. En það skemmtilegasta
í þessu eru öll gay fótboltamótin sem ég hef farið á,
þau eru eitthvað í kringum tíu held ég. Ég hef misst af
nokkrum flottum eins og þegar Styrmir, liðið okkar, fór
til Argentínu. Ég hef eignast góða vini úti um allan heim
á þessum mótum og er enn í góðum samskiptum við
þá. Einnig vil ég nefna að fá að keppa á Evrópumótum,
heimsmeistaramótum og svo er GayGames mér mjög
minnisstætt. Í gegnum þennan vinskap hef ég fengið
að spila með öðrum hommaliðum frá t.d. Stokkhólmi,
Kaupmannahöfn, Hamborg, Leeds og Fort Lauderdale,
og svo hafa önnur lið boðið mér að taka þátt líka en ég
ekki enn haft tækifæri til að spila með þeim. Ég á enn
eftir að vinna gull á þessum mótum en silfur og brons
getur maður ekki verið ósáttur við. Það síðasta, og eitt af
þeim afrekum sem ég er stoltastur af, er að árið 2021-
2022 var ég aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla hjá
Sindra og í fyrra tókum við okkur til og unnum 3. deildina.
Eftir það afrek og eftir mikið álag og ferðalög ákvað ég
að taka mér frí frá þjálfun.
Stefán Þór Sigurðsson
20 ára, hann @stefan_ths
Hver er þín íþróttasaga?
Ég æfði fimleika og listskauta þegar ég var lítill krakki,
byrjaði síðan að æfa klifur hjá Klifurfélagi Reykjavíkur
ellefu ára. Ég er stoltastur af því að hafa unnið
Íslandsmeistaratitilinn bæði árin í 18-19 ára flokki og lent
í 3. sæti í fullorðinsflokki 2023. Í útiklifri er ég stoltastur
af því að hafa klifrað leiðina Föðurlandið (5.13c) sem var
erfiðasta leið á Norðurlöndunum þegar hún var boltuð.
Antonía Arna,
36 ára, hún/hín
Hver er þín íþróttasaga?
Bardagaíþróttir. Uppgjafarglíma. Mjölnir MMA.
Áttu skemmtilega sögu af þér í íþróttum sem
tengist hinseginleikanum?
Áður en ég kom út lifði ég tvöföldu lífi og þóttist vera
harður gaur í kringum æfingafélagana en klæddist
kvenmannsfötum og málaði mig þegar ég var í öðru
umhverfi. Einn daginn komst yfirþjálfarinn að því að ég
væri trans og bauð mig velkomna eins og ég er.
Ég brotnaði saman og fór að gráta fyrir framan æfinga-
félagana. Eftir það hætti feluleikurinn og ég hóf kyn-
leiðréttingarferli. Ég vonast til að keppa í kvennaflokki
þegar ég er tilbúin.