Hinsegin dagar í Reykjavík - 01.08.2022, Page 25

Hinsegin dagar í Reykjavík - 01.08.2022, Page 25
Veruleiki hinsegin eldri borgara Hinsegin dagar! Hátíðin þar sem við sameinumst um að fagna mannréttindindum og umburðarlyndi með fjölskrúðugri dagskrá, litasprengjum og gleði. En einmitt þá er jafnframt tilefni til að horfa til baka, að horfa til þeirra sem ruddu brautina. Hvar eru þau stödd í dag, brautryðjendurnir sem skópu þessa gleðihátíð? Þetta var fólk sem hafði mátt sæta ofsóknum og lítillækkun samfélagsins alla sína tilveru. Það þurfti mikið hugrekki, áræðni og sannfæringarkraft fyrir mannréttindum hinsegin fólks til að stíga fram úr felum og neita að sætta sig við útskúfun og forsmánun. En þau höfðu baráttuþrek og sannfæringu um að við værum öll jöfn og samfélagið væri fyrir okkur öll. Þetta er fólkið mitt. Þetta er mín kynslóð. Ég man svo langt aftur þegar Hörður Torfason kallaði saman á sellufund lítinn hóp manna sem læddist inn í litla íbúð í háhýsi í austurbænum í skammdegisdrunganum til að ræða stöðu sína og hugsanlega stofnun baráttuhóps. Margir í hópnum höfðu orðið illilega fyrir barðinu á fordómum og hatri. Orðið fyrir barsmíðum, mismunun á vinnumarkaði og sum hreinlega misst bæði atvinnu og húsnæði fyrir það eitt að vera hinsegin. Þetta var veturinn 1977-1978. Það var tekist á um hversu árennilegt það væri að storka opinberlega svo fordómafullu samfélagi með að bindast samtökum um mannréttindi hinsegin fólks. Harðasti kjarninn í þessum litla hópi stofnaði síðan Samtökin ‘78. Full sannfæringar um að ástin fari aldrei í manngreinarálit og ástin sigri allt. Jafnréttis- og mannréttindabarátta er okkur öllum mikilvæg. Þá fyrst verður hún lífsnauðsynleg þegar við sjálf verðum fyrir misrétti. Það hefur fyllt mig endurnýjaðri orku og gleði að sjá hversu mikið hefur áunnist í þessari mannréttindabaráttu og ekki síst hversu margir hafa fundið lífshamingju sína vegna baráttu fólksins í Samtökunum ‘78. Þetta er líka hreyfingin sem hefur skapað skemmtilegustu og litríkustu fjölskylduhátíð ársins. Hátíð sem hefur til skamms tíma sprengt hvert þátttökumetið á fætur öðru, ár eftir ár, í Gleðigöngunni. En við lifum á fallvöltum tímum og ekkert er gefið. Það hefur verið gæfa Samtakanna að stöðugt hafa nýjar hendur komið og lagst á árarnar, þegar aðrar lúnari hafa þurft á hvíld að halda og frá að hverfa. Þótt við hin eldri séum orðin göngumóð þá er það þó eðli baráttufólks að það dregur sig aldrei alveg í hlé. Því það veit að baráttunni er aldrei endanlega lokið. Mannréttindi eru aldrei sjálfsögð í augum alltof margra og við þurfum stöðugt að vera viðbúin nýjum hatursáróðri. Nýjum þvingunum. Vaktinni er aldrei lokið. Okkar hinna eldri, kynslóðarinnar sem hrinti af stað baráttunni, hvort sem við vorum í fararbroddi eða fylgdum fast á eftir, bíður núna nýtt hlutskipti og þar með nýjar áskoranir. Við erum flest orðin eftirlaunafólk í dag. Helsta áskorunin er að máta sig við tilveruheim eldri borgarans eins og samfélagið hefur mótað hann. Þar sem ekki hefur verið gert ráð fyrir hinsegin eldra fólki. Okkar er að verða enn á ný brautryðjendur, nú sem fyrstu opinberlega hinsegin eldri borgarar landsins. Mörg í okkar hópi eru einhleyp og sum farin að þurfa stuðning við daglegt líf og þá þarf að leita á náðir þeirra sem veita slíka þjónustu. Þá geta komið, í einu vettvangi, hatrammar endurupplifanir frá fyrri tíð þegar fólk er komið í þessa viðkvæma stöðu og er upp á aðra komið og þarf jafnvel að bjóða ókunnum inn á heimili sitt, gefa sig þeim á vald, eða deila húsnæði með ókunnu fólki. Þau eru sett í þá stöðu að verða upp á náð og miskunn þeirra sem þau verða að umgangast án þess að hafa valið þau sem vini, varnarlaus bak við luktar dyr. Geta orðið útsett fyrir hvers kyns misrétti og ofbeldi; andlegu, líkamlegu og fjárhagslegu. Í þeirri stöðu kjósa sum að loka sig af, einangra sig og afþakka þá aðstoð sem þau eiga rétt á - því þau treysta ekki samfélaginu. Treysta því ekki að það verði ekki brotið á þeim - aftur. Það er brothætt tilvera. Því meint umburðarlyndi í samfélaginu er veikt; brothætt. Afar brothætt. Það sýnir okkur hraður uppgangur haturs í okkar vestræna heimi, bæði í Evrópu og vestanhafs. Þessar haturshreyfingar auka fylgi sitt dag frá degi og færast nær okkur með hverjum deginum. Mesta grimmdin og taumlaust hatrið beinist nú að trans fólki með skelfilegum afleiðingum. En hversu lengi þurfum við að bíða þess að hatrið og grimmdin verði allsráðandi í garð hinsegin samfélagsins? Baráttunni er svo fjarri lokið. Henni lýkur aldrei. Gætum hvert að öðru. Sofum með opin augu. “The fragility of tolerance” The generation of queer people that started Samtökin ‘78 and paved the way in the fight for queer rights in Iceland is entering a new stage of life, the world of the pensioner. This is a generation that had been beaten, denied housing and job opportunities for being queer, and now they are getting on in age and need assistance. It is a right they are entitled to but the fact that it’s mainly provided by strangers creates extra vulnerabilities. Strangers need to be let into people’s homes and trusted not to harm the person they are tasked with assisting. Elderly queer people might struggle to extend such trust because they do not have faith in society and realize that tolerance can be very fragile. “The fight is far from over. The fight is never over. We need to watch over each other. Sleep with one eye open. “ Viðar Eggertsson 25

x

Hinsegin dagar í Reykjavík

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Hinsegin dagar í Reykjavík
https://timarit.is/publication/1512

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.