Hinsegin dagar í Reykjavík - 01.08.2022, Page 39

Hinsegin dagar í Reykjavík - 01.08.2022, Page 39
Við kunnum ekki það heiti á þeim árum, en við sem þreifuðum okkur út úr myrkrinu á sínum tíma erum áreiðanlega flest með einhverja útgáfu af áfallastreitu. Eftir öll árin sem við vorum að átta okkur á hver við værum og sættum öllu þessu öráreiti frá samfélaginu. Allir þessir litlu skurðir, klipið örlítið hér, klórað dálítið þar. Stóru sárin inn á milli. Af því að við pössuðum ekki. Við kunnum ekki einu sinni heiti yfir af hverju við pössuðum ekki. Ég átti ekkert heiti, ekkert hugtak yfir það þegar ég varð skotin í stelpu í fyrsta sinn. Samfélagið átti ýmis heiti yfir mig og ég mátaði þau við mig. Þau áttu það öll sameiginlegt að fólk spýtti þeim út úr sér. Ég kærði mig ekkert um að ganga með þann hráka framan í mér. Samfélag okkar var svo smátt og svo hikandi og svo brotið. Við vorum að komast á fullorðinsár en höfðum ekki fengið að vaxa úr grasi í réttum hlutverkum. Ekki fengið að játa að vera skotin í þessari eða hinni þegar við vorum varla komin á kynþroskaaldur, ekki fengið að kyssa þá sem við vorum raunverulega skotnar í fyrsta kossinum. Þeim kossi var svo splæst á einhvern dreng, þótt það væri augljóslega alrangt, af því að annað var bara ekki hægt. Það var ekki til. Svo vorum við þarna, milli tvítugs og þrítugs, þessi sundurleiti hópur. Við hittumst allar helgar, drukkum of mikið, rifumst, grétum, hlógum, sórum þess dýran eið að gera eitthvað annað næstu helgi, mættum aftur næstu helgi af því að þetta var eina samfélagið þar sem okkur leið vel, leið illa, drukkum allt of mikið eins og alltaf, gátum ekki annað, gátum þetta ekki, þarna vorum við með kjaft, áttum allan heiminn, svo ótrúlega kjarkmiklar og svo skíthræddar. Alltaf meira og minna skíthræddar. Við samveruna, við einveruna. Tókum ekki á okkar fólki með hönskum Þegar strákarnir fóru að veikjast héldum við áfram að drekka og skemmta okkur. Strákarnir sem eftir voru ekki síður en við stelpurnar. Við drukkum ennþá meira. Mörg notuðu alls konar efni önnur en áfengi. Ég kann enga tölu yfir það, en allt of mörg okkar hurfu í neyslu. Áfallastreitan, sem var ekki ennþá búið að nefna, hún sá til þess. Reyndar skoðaði ég það mál lítillega á dögunum og þetta er ekki bara tilfinning, áfallastreita er sannarlega algengari hjá hinsegin fólki en þeim sem falla betur að samfélagi sínu og losna við öráreitið. Nema hvað. Ég hef líklega aldrei lifað í jafn mikilli afneitun eins og árin sem strákarnir voru

x

Hinsegin dagar í Reykjavík

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Hinsegin dagar í Reykjavík
https://timarit.is/publication/1512

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.