Hinsegin dagar í Reykjavík - 01.08.2022, Page 65
Að flytja til nýs lands er krefjandi og
jafnvel ógnvekjandi upplifun. Hinsegin
fólk þarf oft að hugsa út í eigið öryggi í
nýju landi og fyrir þau sem koma hingað
ein síns liðs er fyrsta skrefið að finna
öruggt skjól.
Derek T. Allen flutti til Íslands frá
Bandaríkjunum árið 2016 þegar hann
hóf íslenskunám í Háskóla Íslands. „Síðan
þá hef ég lengi verið involveraður í
alls konar aktívisma. Í fjögur ár var ég
virkur í stúdentahreyfingunni og endaði
með því að vera forseti Landssamtaka
íslenskra stúdenta (LÍS). Var ég fyrsta
manneskjan af lituðum kynþætti til að
gegna embættinu.“ Derek var einnig
einn af stofnendum Black Lives Matter
hreyfingarinnar á Íslandi og hefur áður
skrifað um málefni því tengdu í tímarit
Hinsegin daga árið 2020. „Annars reyni
ég bara að njóta lífsins þegar ég er ekki
að gæta hagsmuna einhvers hóps!
Síðastliðinn apríl hlaut ég íslenskan
ríkisborgararétt og þess vegna skilgreini
ég mig sem Nýslendingur (nýr +
Íslendingur), og mun gera það þangað til
ég dey. “
Hann hefur nú safnað upplifunum
aðflutts hinsegin fólks hér á landi -
frásögnum hinsegin fólks sem fæddust
ekki hérlendis heldur fluttu hingað á
sínum fullorðinsárum. Íslenskt samfélag
er lítið og hinsegin samfélagið enn
minna. Það gerir það ekki auðvelt fyrir
fólk að tjá sig um erfiðar upplifanir
sínar innan þess. Flestir viðmælenda
Dereks óskuðu eftir því að fá að vera
nafnlaus af ótta við aðkast eða fordóma.
Nauðsynlegt er að hinsegin samfélagið
lesi frásagnir þeirra og læri af þeim, það
er greinilega tilefni til.
Hinsegin paradísin
Einn viðmælandi Dereks er hinsegin
kona, lesbía sem flúði andúð í heimalandi
sínu í Evrópu og kom til Íslands árið 2010
í von um opnara umhverfi:
„Ég hafði séð fréttirnar um ein
hjúskaparlög en vildi ekki gera mér of
miklar væntingar um stöðuna á Íslandi.
Sumt lítur bara vel út á blaði, þú veist?
Ég var því vör um mig í fyrstu þótt fólk
virtist almennt vera frekar opið en lagði
mig líka fram við að drífa mig á hinsegin
hitting sem fyrst. Ég vissi að þar myndi ég
finna fólkið mitt. Við fyrstu sýn fannst mér
hinsegin samfélagið ótrúlega frjálslegt
miðað við það sem ég þekkti heima, það
var smá sjokk en samt gott sjokk. Ég var
komin heim.“
Derek tók einnig eftir því hvað hinsegin
fólk á Íslandi virtist frjálst þegar hann
kom inn í hinsegin samfélagið. Hann segir
að tilfinningar sínar hafi verið blendnar.
„Annars vegar fannst mér magnað hvað
það var frjálst, eða allavegana leit það
þannig út. Fólk … var bara!“ Þetta er
sannarlega ekki sjálfgefið og fáir staðir í
heiminum þar sem slíkt frelsi fyrir hinsegin
manneskju er að finna. „Hins vegar tók ég
fljótlega eftir því að hinsegin Íslendingar
lifa í smá forréttindabúblu,“ segir Derek
en hann er ekki sá eini sem tók eftir
forréttindabúbblunni.
„Að flytja til Íslands var æðislegt og
ömurlegt á sama tíma. Ég hafði heyrt
svo mikið af fallegum sögum frá Íslandi
og hinsegin samfélaginu hér. Ég byrjaði
strax að mæta á margvíslega viðburði
hjá hinsegin samtökum en það tók
mig langan tíma, jafnvel nokkur ár, að
finnast eins og ég ætti heima á slíkum
viðburðum. Mér fannst eins og fólkið á
viðburðunum væri allt hvítt, íslenskt og
hámenntað. Það var enginn eins og ég
og það tók enginn eftir þessu nema ég.“
(Trans maður, Bandaríkin.)
„Það voru, og eru, alltaf öll alveg viss
um að þau væru svo fordómalaus og
frábær en það er bara ekki satt. Þau fela
forréttindin sín bak við hinseginleikann og
neita að gera sér grein fyrir því að þau eru
betur sett en mörg önnur og verða jafnvel
reið ef það er minnst á það.“ (Hommi,
Suður-Ameríka.)
Derek minnir á að baráttunni sé ekki
lokið og að það séu ýmsar hindranir
sem standa í vegi fyrir hinsegin fólki á
Íslandi. Barátta hinsegin fólks á Íslandi er,
segir Derek, lituð af hinni hvítu vestrænu
forréttindastöðu. „Þar sem Íslendingar
eru mestmegnis hvítir og búa í vestrænu
þjóðfélagi kom þetta mér ekki á óvart,
en samt sem áður er þetta atriði sem mér
hefur mislíkað í gegnum tíðina sökum
þess að íslensku baráttuna sárvantar fleiri
sjónarhorn og það á ekki alltaf að vera á
ábyrgð „hinna“ (þ.e.a.s. þeirra sem njóta
ekki fyrrnefndrar forréttindastöðu) að vera
til taks fyrir aðra hópa hinsegin fólks.“
Fordómar í paradís
Forréttindum fylgja oft fordómar og
gildir þetta um hinsegin samfélagið jafnt
sem samfélagið almennt. Fyrir aðflutta
geta þessir fordómar einfaldlega birst í
tungumálinu sem er notað, eða jafnvel
tungumálinu sem er ekki notað.
„Fólk var oft búið að ákveða að ég talaði
ekki íslensku þegar það sá mig af því
ég er ekki hvítur á hörund eins og þau.“
(Trans maður, Bandaríkin.)
„Ég kann ágæta íslensku og tala með
hreim. Ég hef upplifað oftar en ég get
talið að einhver skipti yfir í ensku þegar
ég byrjaði að tala þó að ég hafi sjálf alltaf
talað íslensku.“ (Lesbía, Evrópa.)
Það var algeng upplifun þeirra sem fluttu
til Íslands frá öðru landi að oft var búið
að ákveða hvernig þau væru eða hvað
þau gætu fyrirfram; með öðrum orðum
var búið að setja á þau einhvern stimpil
sem oftast tengdist því landi þaðan sem
þau eru eða kynþætti þeirra „en það fer
eftir ýmsu hvaða stimpil það fær,“ segir
Derek. „Þau sem koma frá Evrópulöndum
og öðrum löndum sem er víða litið á sem
vestrænar þjóðir eða fyrsta heims þjóðir
eins og Ástralía og Kanada til dæmis
geta notið ákveðins ávinnings byggðum
á þjóðerni þeirra.“ Derek segir einnig að
fólki frá þessum vestrænu löndum sé
frekar mætt með forvitni og velvilja en
hinum sem koma frá þriðja heims ríkjum
sé mætt með annars konar viðmóti. Derek
segir að stór þáttur í þessu sé kynþáttur
einstaklinga. „Hugsanleg ástæða þess
að farið er verr með þau sem koma
frá löndum utan hins vestræna heims
í íslenska hinsegin samfélaginu er að
flestir þessara einstaklinga eru ekki hvítir
samkvæmt algengustu skilgreiningu þess
að vera hvítur.
Fordómarnir sem fólk af erlendu bergi
brotnu mæta á Íslandi svipar til þeirra
fordóma sem margt aðflutt hinsegin fólk
mætir í heimalandi sínu. Þessir fordómar
eru þó ekki alltaf mjög sýnilegir „Eins
og ég hef þegar sagt eru þessi viðhorf
ekki alltaf neikvæð með beinum hætti,
enda getur hinsegin fólk orðið fyrir ýmsu
vegna þess að það kemur frá, eða lítur út
fyrir að koma frá, landi sem er framandi
Íslendingum. Blætisgerving í garð þessa
hóps tíðkast og einnig er þessihópur
fólks ausinn samúð án þess þó að nokkuð
sé gert til að bæta stöðu þeirra.“ Þessi
blætisgerving sem Derek nefnir getur
haft gríðarlega neikvæðar afleiðingar á
líf fólks.
„Úff, ég vildi óska þess að það sem ég
ætla að segja væri ekki satt því þetta
hljómar svo fáránlega en ég þurfti að
hætta á stefnumótaöppum eftir að ég
flutti til Íslands því fólk gat ekki hætt
að kalla mig „tranny“, „sissy“ og spyrja
hvernig kynfærin mín væru, oft í von um
65