Hinsegin dagar í Reykjavík - 01.08.2022, Side 69

Hinsegin dagar í Reykjavík - 01.08.2022, Side 69
 Hvað er burlesk? Þetta er spurning sem ég fæ nánast í hvert skipti sem ég segi frá því sem ég er að gera og það eru sko til mörg svör við þessari spurningu. Burlesk er nefnilega ofboðslega frjálst listform og getur verið mjög mismunandi eftir því hvar í heiminum þú sérð það. Stutta svarið mitt við spurningunni er að burlesk er kynþokkafullur kabarettdans. En ef ég útskýri aðeins nánar þá flokkast burlesk undir sviðslistir, getur verið einhvers konar sambland af leikhúsi og dansi þar sem fjallað er um líkama, kynþokka, kyn og jafnvel mörk velsæmis. Oftast er þetta gert með miklum líkamlegum húmor en getur líka verið þrælpólitískt. Í burlesk- atriði er það yfirleitt ein manneskja sem fer á svið og flytur ákveðna sögu sem getur verið misflókin en í langflestum tilfellum endar sagan á því að manneskjan er í heldur færri fötum heldur en hún byrjaði atriðið í ... en þó ekki alltaf. Það má nefnilega gera alls konar í burlesk. Margir eru líka einhverju nær þegar ég nefni fjaðravængi, fjaðrabóur og brjóstadúska en þetta eru allt hlutir sem tilheyra klassísku burlesk og einhverjir kveikja líka á perunni þegar ég nefni bíómyndir eins og Cabaret, Chicago eða Moulin Rouge. Burlesk er líka náskylt dragi og á sér sinn kafla í sögu og menningu hinsegin fólks. Þar getum við til dæmis nefnt Berlin á millistríðsárunum. Á þeim tíma blómstraði kabarett í borginni, Magnus Hirschfeld talaði fyrir réttindum hinsegin fólks og meira frelsi til þess að vera hinsegin ríkti almennt. Hinsegin fólk sótti og tók þátt í kabarettsýningum þar sem svigrúm gafst til þess að leika sér með mismunandi tjáningu á kyni og kynhneigð. Sjónvarpsþættirnir Babylon Berlin fanga þessa stemningu mjög vel, mæli sko aldeilis með þeim Er kannski drag og burlesk það sama? Já og nei. Það er ofboðslega margt líkt með þessum listformum. Bæði í dragi og burlesk er það oftast ein manneskja sem fær hugmynd, setur saman atriði, búning, velur tónlist, skapar ákveðinn lítinn heim fyrir áhorfendur til að skyggnast inn í. Drag leikur sér meðal annars að því að brjóta upp stífar hugmyndir samfélagsins um kyn og ýkja steríótýpur og burlesk gerir það í einhverjum mæli líka en gengur þó meira út á að leika sér með kynþokka og stundum kynhneigð, þar er dansað á mörkum velsæmis. Eins og í draginu er mikill húmor í burlesk og gengur sá húmor mikið út á hvað það er sem er kómískt við mannslíkamann ... allir geta tengt við svoleiðis brandara og oft kemur það fólki á óvart hversu mikið er hlegið á burlesk sýningum. Burlesk brýtur líka upp stífar hugmyndir samfélagsins um hvað er fallegt. Það er einmitt eitt af því sem ég elska svo mikið við burlesk, að þar eru allir líkamar fallegir og velkomnir. Hvað finnst þér burlesk hafa gert fyrir þig? Þegar ég byrjaði í burlesk var ég strax með ákveðnar hugmyndir um hvað mig langaði að gera. Ég vildi nota þetta listform til þess að tjá á yfirdrifinn máta hinseginleika minn og mig langaði að brjóta upp hugmyndir um kyn, það sem er stundum kallað „gender bending”. Ég held að ég eigi þrjú atriði sem ég hef sýnt sem fjalla á einhvern hátt um kyn og kynhneigð en svo á ég auðvitað líka atriði sem fjalla ekkert sérstaklega um það. Samt sem áður þá er burleskið ákveðin leið fyrir mig til þess að lyfta upp og deila með öðrum öllu því sem gerir mig öðruvísi en aðra. Burleskið hefur því tvímælalaust verið ákveðin leið til þess að læra að elska það sem gerir mig frábrugðna öðrum. Það sem er öðruvísi við mig er um leið það sem gerir mig einstaka og þegar ég fer á svið er ég að sýna það með stolti. Fyrir utan að vera lesbísk og örvhent er ég líka vel yfir meðallagi í hæð og með rosalega langa fótleggi og vil þess vegna gjarnan vera kynnt þannig á svið. Hér áður fyrr þegar ég var unglingur var það að vera hávaxin stelpa ógeðslega vandræðalegt og leiðinlegt. Ég var líka lengi að koma almennilega út úr skápnum en í stað þess að vera bitur og leið yfir því að hafa ekki getað notið þess að vera ég sjálf fyrr þá nota ég burlesk-persónuna mína til að vera súper gay og hella hinseginleikanum yfir fullan sal af fólki. Það sem ég er kannski að reyna að segja er að burlesk fyrir mér er bæði valdeflandi og frelsandi og þetta eru lýsingarorð sem ég heyri mjög margt burlesk-fólk tala um. Þar sem ég er í þeim minnihlutahópi að vera lesbía þá eru mínar hugmyndir um hvað er kynþokkafullt við konu kannski að einhverju leyti frábrugðnar því sem gagnkynhneigðu fólki finnst kynþokkafullt. Í mínum burlesk- atriðum vil ég því brjóta upp normið og sýna eins gay hlið á mér og ég mögulega get, á sviðinu er það ég sem stjórna, ég ræð hvað ég sýni og

x

Hinsegin dagar í Reykjavík

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Hinsegin dagar í Reykjavík
https://timarit.is/publication/1512

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.