Saga - 2022, Qupperneq 205
Doktorsritgerðin Vald og vanmáttur fellur vel að þessari almennu þróun
í ljósi þess að hún fjallar um sögu fatlaðs fólks og sögu jaðarsettra einstak-
linga á Íslandi frá ofanverðri átjándu öld og fram á fyrri helming tuttugustu
aldar. Með þessari ritgerð er í raun brotið blað í íslenskri sagnfræði vegna
þess að hér er í fyrsta skipti fjallað um þennan hóp fólks, lífsferil þess og
félagslega stöðu, með skipulögðum hætti. Þetta er gert með því að rekja
lífsþræði 101 einstaklings. Reyndar verður að viðurkennast að sagnfræð -
ingar og hugvísindafólk almennt hefur verið heldur seint til að bregðast við
ákalli leiðandi fræðimanna á sviði fötlunarfræða hérlendis frá því snemma
á öldinni um meiri og fjölfræðilegri rannsóknir á þessum sviðum.2
Afrakstur rannsóknarinnar birtist einkum í öðrum kafla ritgerðarinnar
sem er að mínu mati aðalkafli hennar því hann er hátt í 120 blaðsíður eða vel
yfir helmingur verksins. Saga hvers einstaklings í þessum kafla er vissulega
mislöng, allt eftir því hvað heimildaforðinn leyfir. Lengstar eru sög urnar af
þeim sem komust í kast við lögin en slík tilfelli gátu gefið af sér ítarlegar
heimildir. Hver og ein saga er sjálfstæð og án þess að upplýsingarnar um
hvern og einn séu settar í samhengi við samfélagsgerðina. Hér gegna svo-
kallaðar yrðingar lykilhlutverki en það eru lýsingar embættismanna á þeim
líkamlegu og andlegu skerðingum sem þeir töldu að einstaklingarnir 101 ættu
við að etja. Doktorsefnið á mikið hrós skilið fyrir að hafa tekist að setja þessar
sögur saman. Það ætti að blasa við hverjum þeim sem pælir í gegnum sög-
urnar hversu umfangsmikill og tímafrekur eltingaleikur þetta hefur verið við
heimildirnar — eða réttara sagt — við einstaklingana í öllum þeim heimildum
sem stuðst var við. Eins og doktorsefni bendir á væri þetta aðferð sem nota
mætti til að rannsaka og skrifa sögu annarra hópa úr neðri lögum samfélags-
ins. Það verður því fróðlegt að sjá hvað gerist í þeim efnum á næstu árum.
Afraksturinn af þessari miklu og örugglega tímafreku fínkembingu á
fjölmörgum frumheimildum er sú eigindlega grasrótarsaga sem við erum
hér með í höndunum, þar sem upplýsingar um fatlaða eða jaðarsetta ein-
staklinga í fortíðinni hafa verið fengnar úr heimildaforðanum. Af þeim
heimildum sem nýttar eru mætti nefna manntöl, kirkjubækur, sóknar -
manna töl, árlegar skýrslur um ástand mála frá undirmönnum til yfirmanna,
undanþágubréf frá próföstum til biskups vegna ferminga, dánarbús -
skýrslur, uppskriftar- og uppboðsbækur, sáttabækur og ársskýrslur héraðs -
lækna og landlæknis, auk dómskjala.
andmæli 203
2 Útgáfa eftirfarandi bókar markaði þáttaskil í fötlunarfræðunum: Rannveig
Traustadóttir (ritstjóri), Fötlun. Hugmyndir og aðferðir á nýju fræðasviði (Reykjavík:
Háskólaútgáfan, 2006). Fyrir um áratug síðan tók síðan hópur ólíkra fræði -
manna saman höndum, þeirra á meðal sagnfræðingur og bókmennta fræðingur,
sjá: Hanna Björg Sigurjónsdóttir, Ármann Jakobsson og Kristín Björnsdóttir,
ritstj., Fötlun og menning. Íslandssagan í öðru ljósi (Reykjavík: Félagsvísinda -
stofnun Háskóla Íslands og Rannsóknarsetur í fötlunar fræðum, 2013).