Bændablaðið - 25.05.2023, Page 22

Bændablaðið - 25.05.2023, Page 22
22 Bændablaðið | Fimmtudagur 25. maí 2023 FRÉTTASKÝRING Í ljósi þess hversu umfang verkefnisins er mikið og umræðan enn að þroskast var verkefninu áfangaskipt og í fyrsta hluta liggur fyrir greining á viðfangsefninu og yfirlit um helstu valkosti. Lykilspurningar eru t.d. hvort vindorkuver eigi áfram að heyra undir lög um Rammaáætlun eða standa utan hennar, hvernig hátta skuli gjaldtöku af þeim, m.a. skiptingu milli ríkis og sveitarfélaga, og hvort forgangsraða þurfi orkuöflun í þágu loftslagsmarkmiða og skuldbindinga Íslands í þeim efnum. Einnig er spurt hvort tilefni sé til að setja sérstök viðmið um staðsetningu, fjölda og stærð vindorkuvera. Gerð er grein fyrir hvernig Danmörk, Noregur, Skotland og Nýja-Sjáland haga vindorkumálum sínum og fjallað upp að einhverju marki um möguleika vindorkuvera á sjó. Í þessum fyrsta áfanga vinnu starfshópsins er meginniðurstaðan að stjórnvöld verði að fara í heildarstefnumörkun vindorkumála. Í starfshópnum sitja Hilmar Gunnlaugsson, lögmaður og formaður hópsins, Björt Ólafsdóttir, fyrr- verandi umhverfis- og auðlinda- ráðherra, og Kolbeinn Óttarsson Proppé, fyrrverandi þingmaður. Skýrslan hefur undanfarið verið kynnt á opnum fundum út um landið og segir í henni að það sé von starfshópsins að hún verði grundvöllur opinnar umræðu um málefnið. „Það hve skammt á veg við erum komin í málefnum vindorku, miðað við margar aðrar þjóðir, gefur okkur færi á því að horfa heildstætt á málefnið og setja skýran ramma til framtíðar. Þar skiptir ekki síst máli hvernig samspili orkuöflunar verður háttað við áætlanir um að ná kolefnishlutleysi og hætta notkun jarðefnaeldsneytis árið 2040. Ljóst er að ef þau markmið eiga að nást á 17 árum þarf heildstæða stefnumótun í öllum orkubúskap þjóðarinnar,“ segir í skýrslunni. Jafnframt er bent á að mörg álitaefni eigi jafnt við um aðrar virkjanir sem nýta vatnsafl og jarðvarma. Því séu stjórnvöld hvött til að huga heildstætt að orkukerfinu. Á Náttúruverndarþingi 2023, sem haldið var 29. apríl sl. í Árnesi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, sagðist Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra telja að vindorkuver ættu heima undir Rammaáætlun. Þingið varaði í ályktun við skautun í samfélaginu þar sem loftslagsumræðu væri oft stillt upp á móti náttúruvernd. Draga þurfi úr upplýsingaóreiðu með fræðslu til skólabarna, háskólanema, fjölmiðlafólks, þingmanna, sveitar- stjórna og almennings. Sveitarfélög vilja meiri vigt Um fjörutíu manns fóru nýlega í fræðsluferð um hagnýtingu vindorku í Noregi en hún var skipulögð af íslenska sendiráðinu í Noregi í samstarfi við Grænvang, samstarfsvettvang atvinnulífs og stjórnvalda um loftslagsmál og grænar lausnir. Fulltrúar Skeiða- og Gnúpverjahrepps og sveitarstjórna á Vesturlandi, Norðurlandi og Austurlandi fóru í ferðina auk hagsmunaaðila úr íslenska orkugeiranum og fulltrúa ráðuneyta og starfshópa. Þar hitti hópurinn m.a. forsvarsmenn sveitarfélaga, orkuframleiðendur og fleiri hagaðila við hagnýtingu vindorku. Áður hafa verið farnar fræðsluferðir, t.d. til Danmerkur, í sömu erindagjörðum. Bjarni H. Ásbjörnsson, varaoddviti Skeiða- og Gnúpverja- hrepps, skrifar í pistli um ferðina, sem birtist í Gauknum, fréttabréfi Skeiða- og Gnúpverjahrepps, í apríl sl., að Norðmenn hafi verið jákvæðir gagnvart vindmyllum á landi í upphafi en það hafi breyst eftir því sem tækni fleytti fram og myllurnar urðu hærri og stærri til að auka framleiðslugetu. Norðmenn horfi nú mögulega fremur til þess að reisa vindorkugarða úti fyrir strönd landsins með fljótandi vindmyllum sem stagaðar væru niður í stað þess að standa á hafsbotni. Dýptarviðmið vindmyllu- framleiðenda eru skv. Vindorku- skýrslunni 100 m fyrir botnfastar vindmyllur og fljótandi vindmyllur notaðar á dýpri hafsvæðum. Viðmiðin breytist hins vegar hratt. Hafsbotn í kringum Ísland með minna en 100 m dýpi er um það bil 43.447 km2 eða um 5,7% efnahagslögsögunnar. „Leyfi til framleiðslu á rafmagni með vindorku í Noregi er veitt til 30 ára,“ skrifar Bjarni í grein sinni. „Á þeim tíma er framleiðanda skylt að leggja hluta af tekjum af raforkusölunni í sjóð sem notaður verður til þess að fjármagna það að taka niður vindmyllurnar eftir 30 ára notkun og ganga frá landi þannig að það verði sem næst því sem það var áður en uppbygging hófst.“ NVE, ríkisstofnun sem heyrir undir norska olíu- og orkumálaráðuneytið og yfirfer allar umsóknir um orkuframleiðslu í landinu, hefur samkvæmt Bjarna hafnað umsóknum um orkuframleiðsluleyfi vegna rökstuddrar gagnrýni frá samfélögum og sveitarstjórnum. Niðurstaðan sé endanleg og ekki kæranleg. Rík áhersla sé lögð á aðkomu íbúa og nágrannasveitarfélaga í undirbúningi leyfisveitinga NVE. Í Vindorkuskýrslunni er minnst á að meðal leiða til að einfalda ferli leyfisveitinga gæti verið að sameina eða fækka leyfum sem sækja þurfi um, efla stofnanir sem veita leyfi og einfalda ferlið t.d. með því að skilgreina eina stofnun sem aðilar geti sótt upplýsingar um öll leyfi til. Samtök orkusveitarfélaga telja að sveitarfélög beri ekki nóg úr býtum af virkjunum innan þeirra vébanda, m.a. vegna þess að orkumannvirki eru undanþegin lögum um fasteigna- skatta, að frátöldum eiginlegum stöðvarhúsum. Hafa sum hver hætt að veita framkvæmdaleyfi fyrir nýjum virkjunum að óbreyttu. Samorka, samtök veitu- og orkufyrirtækja á Íslandi, telur mögulega heppilegra að sveitarfélög ráði framtíð vindorkunýtingar fremur en Alþingi. Ljóst virðist að umræðan um vindorkuver er enn skammt á veg komin á Íslandi og finna þarf henni farveg sem byggir á áreiðanlegum upplýsingum, óhlutdrægni og yfirvegun. YLEININGAR Léttar stálklæddar samlokueiningar sem fást með þéttifrauðs- eða steinullarkjarna. Auðveld og fljót uppsetning, auðveld þrif, mikil burðargeta, mikið einangrunargildi og er ódýr kostur ef miðað er við hefðbundnar lausnir. Henta vel fyrir eldri gripahús þar sem skipta þarf út þak- og eða veggjaklæðningum. Hafðu samband: bondi@byko.is Umhverfismat stendur yfir vegna eftirfarandi vindorkuvera: 1. Hróðnýjarstaðir, Dalabyggð – Fyrir liggur ákvörðun um matsáætlun. Framkvæmdaaðili hefur ekki skilað inn umhverfismatsskýrslu. 2. Garpsdalur, Reykhólahreppur - Fyrir liggur ákvörðun um matsáætlun. Framkvæmdaaðili hefur skilað inn umhverfismatsskýrslu til meðferðar hjá Skipulagsstofnun. 3. Grjótháls, Borgarbyggð - Fyrir liggur ákvörðun um matsáætlun. Framkvæmdaaðili hefur ekki skilað inn umhverfismatsskýrslu 4. Sólheimar, Dalabyggð - Fyrir liggur ákvörðun um matsáætlun. Framkvæmdaaðili hefur skilað inn umhverfismatsskýrslu til meðferðar hjá Skipulagsstofnun. Framkvæmdaaðili er nú að vinna úr ábendingum Skipulagsstofnunar. 5. Mosfellsheiði, Sveitarfélagið Ölfus og Grímsnes- og Grafningshreppur - Fyrir liggur ákvörðun um matsáætlun. Framkvæmdaaðili hefur ekki skilað inn umhverfismatsskýrslu. 6. Hnotasteinn Hólaheiði, Norðurþing - Fyrir liggur ákvörðun um matsáætlun. Framkvæmdaaðili hefur ekki skilað inn umhverfismatsskýrslu. 7. Grímsstaðir Meðallandi, Skaftárhreppur - Fyrir liggur álit um matsáætlun. Framkvæmdaraðili hefur ekki skilað inn umhverfismatsskýrslu. Framkvæmdaraðili hefur lagt fram aðra matsáætlun vegna stækkunar á fyrirhuguðu vindorkuveri. Sú matsáætlun er nú til meðferðar hjá Skipulagsstofnun. 8. Múli, Borgarbyggð - Fyrir liggur álit um matsáætlun. Framkvæmdaaðili hefur ekki skilað inn umhverfismatsskýrslu. 9. Brekka, Hvalfjarðarsveit - Fyrir liggur álit um matsáætlun. Framkvæmdaaðili hefur ekki skilað inn umhverfismatsskýrslu. 10. Klaustursel, Múlaþing – Framkvæmdaaðili hefur skilað inn matsáætlun sem er nú til meðferðar hjá Skipulagsstofnun. 11. Lagarfossvirkjun, Múlaþing - Framkvæmdaaðili hefur skilað inn matsáætlun sem er nú til meðferðar hjá Skipulagsstofnun. Heimild: Skipulagsstofnun Skipulagsstofnun er nú með í vinnslu umhverfismat vegna ellefu vindorkuvera en tugir hugmynda að staðsetningum vindorkuvera um allt land hafa komið fram, þótt ætla megi að ekki allar nái landi. Stjórnvöld verða að fara í heildarstefnumörkun í vindorkumálum.

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.