Bændablaðið - 25.05.2023, Síða 37

Bændablaðið - 25.05.2023, Síða 37
37Bændablaðið | Fimmtudagur 25. maí 2023 Þau hafi hins vegar boðið utan- aðkomandi svínabændum að nýta sér aðstöðuna og eru 288 grísir í eldi í Norðurgarði. Þeir eru í húsunum í fjóra til fimm mánuði. Þeir aðilar leigja af þeim húsnæðið og umhirðuna en grísirnir eru ekki í eigu Norðurgarðsbænda. Svínabændurnir kaupa allt fóðrið og ákveða hvaða grísir fara í sláturhús og hverjir ekki. Bændurnir í Norðurgarði fá allan lífrænan áburð sem fellur til sem nýtist vel í áburðarsparnað. Þau sjá fram á að hætta með grísaeldið innan fárra ára þar sem fyrirséð er að húsnæðið muni úreldast með breytingum á aðbúnaðarreglugerðum, á meðan svínabændurnir sem eiga grísina eru í uppbyggingu heima hjá sér. Spenntur fyrir kornsamlögum „Við erum búin að vera í kornrækt samfleytt síðan 2001,“ segir Ásmundur. Hann segir uppskeruna yfirleitt hafa verið góða en telur að reikna megi með afhroði tíunda hvert ár. „Það hefur aldrei farið þannig að ég hafi ekki fengið eitthvað korn, en ég hugsa að stundum hefði borgað sig að sleppa því að þreskja, því það kostar að fara með vélina yfir þó hún taki nánast ekki neitt. Hún er ekkert fljótari að því,“ segir Ásmundur. Hann tekur þó fram að nokkur verðmæti felist í hálminum. Fyrstu árin voru þau með tvo hektara, en mest hafa þau farið í 30 hektara korns. „Það verður spennandi að fylgjast með hvað verður úr þessari hugmynd að stofna kornsamlög. Þá er komið net í kringum mann. Í dag erum við með 15 til 20 hektara, sem er nóg fyrir okkur. Ef maður væri með svona samlag nálægt sér, þá myndi maður kannski fara upp í 30 til 40 hektara, jafnvel meira. Kannski myndi maður leggja það allt inn og taka út í kjarnfóðri, eða leggja inn hluta af því. Ég held að ef það kæmi góð vinna varðandi byggrannsóknir þá sé auðvelt að leika sér í öðrum tegundum. Ef við byrjum í bygginu og keyrum upp ræktunarstarfið þá er ég sannfærður um að þá fylgir með áhugi til að prófa fleiri afbrigði. Þetta yrði svo mikil hvatning í ræktunarmenningu á Íslandi.“ Ásmundur segir að hann hafi orðið var við niðursveiflu í stemningu fyrir kornrækt frá árinu 2010. Bændur hafi lent í lélegum árum og þessu hafi fylgt kostnaður. „Þetta var alveg á mörkunum að borga sig gagnvart innfluttu. Þetta er vesen og það getur verið miklu þægilegra að sleppa þessu og kaupa af fóðursala.“ Búbót í verktökum „Þegar við flytjum hingað árið 1999 voru ekki til miklir peningar. Þá stofnuðum við hlutafélag, þrír bændur, og keyptum sambyggða rúlluvél. Við fengum síðan verktaka til að rúlla fyrir okkur. Við áttum ekki nógu öfluga traktora og við vildum hafa utanaðkomandi aðila. Fyrirkomulagið var þannig að ef ég var fyrstur þennan daginn, þá var ég síðastur í næsta þurrki. Ef við vorum allir að fara í heyskap þá fengum við bara hundrað rúllur í einu – þá fór vélin til næsta bónda og síðan koll af kolli,“ segir Ásmundur, en með þessu komu bændurnir í veg fyrir að einn bóndi einokaði rúlluvélina. Þar sem stutt var á milli eigenda gekk þetta upp. Árið 2003 byrjuðu bændurnir í Norðurgarði í stæðugerð Fyrstu árin notaði Ásmundur gamlan áhleðsluvagn til stæðugerðar- innar, en hefur nýtt sér þjónustu verktaka frá þriðja ári. Ásmundur segir nálægð við verktaka og öflugt búnaðarfélag hafa hjálpað honum mjög mikið í sínum búskap. „Ég hvatti einn verktakann til að kaupa vagn og lofaði að kaupa af honum þjónustu. Ég hef alltaf verið á þeirri línu að nota verktaka í heyskap og er búinn að gera það allar götur síðan. Við sláum, rökum saman og þeir koma og hirða og keyra allt heim. Síðan höfum við alltaf verið með aðeins af rúllum fyrir geldkúahey og hálm.“ Ríkisjörð tvíeggja sverð „Þetta virðist alltaf vera sama baslið að byrja að búa. Við byrjuðum með tvær hendur algjörlega tómar og það má segja að það hafi verið kostur hjá okkur að komast á ríkisjörð. Annars hefðum við sennilega hætt búskap. Á móti kemur að það að vera á ríkisjörð er rosalega bindandi. Ef þú vildir breyta einhverju þá þurftir þú að senda bréf til ráðuneytisins og óska eftir að gera hina eða þessa breytinguna og þaðan kom svar eftir þrjá mánuði með ósk um nánari útfærslu. Þetta er mjög langt ferli af því að ríkið er skuldbundið að kaupa af okkur ef við myndum hætta, þá eðlilega verða þeir að samþykkja allar breytingar. Þú getur ekki byggt hvað sem er og svo hættirðu. Þá er ríkið búið að skuldbinda sig til að kaupa af þér á einhverju matsverði. Þegar ég breytti fjósinu tók mig tvö ár að fá samþykki fyrir því að breyta. Eins tafði það okkur verulega að það var ekki lánað í veð í jörðinni við kvótakaup. Þannig að allan kvótann sem við keyptum þurftum við að kaupa hægt og bítandi. Þetta er stundum svolítið letjandi. Þó held ég að fyrir landbúnaðinn í heild séu ríkisjarðir góður kostur fyrir það fólk sem fær ekki jarðir upp í hendurnar. Ég held að það sé útilokað fyrir ungt fólk að kaupa jarðir í búrekstri á opnum markaði,“ segir Ásmundur Lárusson, bóndi í Norðurgarði. Hannes Orri með vél til að sá í bakka. Þetta er einfalt tæki sem sparar mikla vinnu og kemur í veg fyrir að tvö fræ fari í sama pottinn. Andrésfjós er steinsnar frá á þéttri bæjartorfunni.

x

Bændablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.