Bændablaðið - 25.05.2023, Page 60

Bændablaðið - 25.05.2023, Page 60
60 Bændablaðið | Fimmtudagur 25. maí 2023 Þann 12. maí næstkomandi verða níutíu ár liðin frá því Búnaðar- samband Suðurlands, BSSL, gerði samning við Sandgræðsluna um leigu á húsum og jörðum í Gunnarsholti og nágrenni. Enn fremur keypti BSSL allan bústofn Sandgræðslunnar í Gunnarsholti þetta sama ár, 1933. BSSL var með höfuðstöðvar sínar í Gunnarsholti í þrjú ár. Sveinn Runólfsson, fyrrverandi landgræðslustjóri, vinnur nú að ritun Sögu Gunnarsholts og fékk hjá nafna sínum Sigurmundssyni, framkvæmdastjóra BSSL, ýmis gögn um samskipti þessara aðila fyrir nær einni öld. Jörð fyrir BSSL Fljótlega eftir 1930 voru umræður hjá BSSL um að taka á leigu eða kaupa jarðnæði fyrir starfsemi þess. Þar yrði rekið fyrirmyndar nýbýli og starfsmenn BSSL hefðu þar aðstöðu. Af því varð ekki vegna mikils kostnaðar. En í ársbyrjun 1933 bauð Búnaðarfélag Íslands Gunnarsholt til leigu ásamt Brekkum og Reyðarvatni, með húsum, girðingum og áhöfn, það er búfénaði. Getið er um að þar hafi Sandgræðslan rekið nautabú um nokkur ár, eða frá 1929, en Sandgræðslan keypti Gunnarsholt og Brekkur árið 1926 þegar þær voru sandi orpnar. Áherslur í rekstri Búnaðarsambandið réð Kristján Karlsson sem ráðunaut og forstjóra búsins og reka eftir nýjustu búnaðarþekkingu. Áherslur í væntanlegum rekstri: 1. Kúabú með allt að 20 kúm og gætu bændur fengið þaðan kyngóða lífkálfa. 2. Nautabú, geldneyti fóðruð á útigangi og í því skyni keypti Búnaðarsambandið Galloway- nautið Brján sem fæddist í Þerney í janúar 1934. 3. Kornrækt til að selja bændum útsæðiskorn. 4. Kartöflurækt í stórum stíl og selja bændum útsæði. 5. Alifuglarækt og sex svínabú. BSSL lagði fram fjármuni til að koma rekstrinum af stað og var ákveðið að sækja um að fá það samþykkt sem kennslubú er tæki námsmenn, sem yrðu leiðandi í sveitunum. Ítarlegir búreikningar skyldu sýna bændum hvar yrði gróði eða tap á starfsemi þessari. Einn námsmaður mun hafa verið á búinu. Sandgræðslan og BSSL gerðu samkomulag um leigu þess síðarnefnda á Gunnarsholti, Brekkum og Reyðarvatni með húsum og girðingum. Enn fremur keypti BSSL allan búfénað Sandgræðslunnar, alls um 50 gripi. Samningar þar að lútandi voru undirritaðir í Gunnarholti þann 12. maí 1933. Gunnlaugur Kristmundsson sandgræðslustjóri og Sigurður Sigurðsson búnaðarmálastjóri undirrituðu samninga fyrir hönd Sandgræðslunnar, en Guðmundur Þorbjarnarson, bóndi á Stóra-Hofi á Rangárvöllum og formaður BSSL, fyrir hönd þess. Þann sama dag voru jarðir, girðingar og hús tekin út og bústofninn metinn. BSSL greiddi 10 þúsund Sveinn Sigurmundsson afhenti nýlega Landgræðslunni fyrir hönd BSSL stílabók með vigtartölum og verði á öllum nautgripum búsins. Kvígur, kýr og hestar voru ekki vigtaðar, en allar verðlagðar af matsmönnum. Enn fremur voru verðlögð tæki og áhöld, kol og skúr fyrir hænsni. Samtals var verðmatið nákvæmlega 10.000 krónur sem BSSL greiddi Sandgræðslunni. Innifalið í þessum kaupum voru ýmsir utanstokksmunir, þar á meðal stórgripavog. Í fyrrnefndri bók eru einnig skráðir aðkeyptir nautgripir eftir 12. maí, vigt og verð þeirra. Verð á hestum og hænsnum sem keyptir vareinnig tiltekið. Skráðir eru fjórir búshlutir sem keyptir voru einnig eftir 12. maí, þar á meðal vekjaraklukka á tíu krónur. Áburðarkaup BSSL voru nokkur á árinu, það er af tilbúnum áburði til að bera á tún í Gunnarsholti. Síðan eru færðar vigtartölur allra nautgripa á þriggja mánaða fresti til 30. apríl 1936. Gallowaynautið Brjánn frá Þerney var keypt 1934 og er fyrst vigtað í lok október 1935 og er þá um 18 mánaða gamall og vó aðeins 382 kíló, enda væntanlega verið á útigangi, en braggaðist heldur þegar leið á veturinn. Búreksturinn á þessum árum virðist hafa gengið þokkalega, land brotið til ræktunar og kartöflur og rófur ræktaðar í stórum stíl. En þó var tap á fyrsta ári búrekstrarins. Í Gunnarsholti voru höfuðstöðvar BSSL Bústjóri fyrsta eina og hálfa árið og ábúandi í Gunnarsholti var Kristján Karlson, ráðunautur og síðar skólastjóri Bændaskólans á Hólum. Veturinn 1935 til 1936 voru búfræðingarnir Halldór Árnason og Magnús Pétursson í forsvari fyrir búrekstrinum. Á þessum árum var því Gunnarsholt höfuðstöðvar Búnaðar- sambands Suðurlands og hélt Guðmundur formaður Þorbjarnarson stjórnarfundi þar. Sandgræðslan hafði áfram aðstöðu fyrir ferðahesta og verkfæri til girðingarvinnu eins og verið hafði frá 1928. Skiptar skoðanir En mjög voru skiptar skoðanir hjá aðildarfélögum BSSL um þessa starfsemi BSSL í Gunnarsholti. Þar við bættist að búnaðar- málastjóri og ríkisstjórnin sögðu upp ábúðarsamningi BSSL frá fardögum 1936, enn fremur var samþykkt á aðalfundi BSSL að hætta öllum búrekstri í Gunnarsholti. Sandgræðslan keypti svo af BSSL kýr og hesta, ýmis tæki, fasteignir og verkfæri fyrir tæpar tíu þúsund krónur. En eitthvað af smáhlutum var selt á uppboði. Sveinn Runólfsson, fyrrv. landgræðslustjóri, og Sveinn Sigurmundsson, framkvæmdastjóri BSSL. LESENDARÝNI Níutíu ára afmæli BSSL Gunnarsholt 1944. Þar var Búnaðarsamband Suðurlands með höfuðstöðvar. Mynd / Haraldur Ólafsson Matvæla- og fæðuöryggi eru fullveldismál Það hefur margt breyst í ísskápnum hjá okkur Íslendingum á síðustu áratugum. Hnat t rænt m a r k a ð s - hagkerfi færir okkur ferskan ananas frá f j a r h o r n u m h e i m s i n s allt árið um kring. Það er alltaf hægt að kaupa vínber og grænmetis- kælirinn í næsta stórmarkaði er fullur af framandi ávöxtum og frystarnir fullir af hverslags kjöti frá Evrópusambandinu. Við erum á allt öðrum stað hvað varðar matvæli í dag en við vorum fyrir nokkrum áratugum. Matur var fiskurinn í sjónum, dilkakjöt og soðnar kartöflur. Matur varðaði ekki öryggi eða fullveldi þjóðar. Matur var úr nærumhverfinu, einfaldur og næringarríkur en kannski ekki fjölbreyttur. Mikilvægi matvæla- og fæðuöryggis hefur vaxið umtalsvert á síðustu árum og áhrif kórónuveirunnar og innrásar rússneskra stjórnvalda í Úkraínu hafa opnað augu marga fyrir því hversu fallvölt matvælaframleiðsla á heimsvísu er. Í því tilliti hafa þjóðir heims horft sér nær, fyllt á neyðarbirgðir og gert áætlanir um aukna innlenda framleiðslu matvæla Hvaðan kemur maturinn þinn? Fjöldi framandi matartegunda hafa ratað inn í daglegt líf okkar án þess að við gefum því sérstakan gaum hvaðan þau koma, hvernig þau eru ræktuð eða hver ræktaði þau. Við búum vel hér á Íslandi, erum efnamikil í samanburði við meginþorra mannkynsins. Trónum á toppi fæðupýramídans ef svo má komast að orði en mikið af þeim matvælum sem við neytum eru framleidd við bág skilyrði af fólki sem á varla til hnífs og skeiðar fyrir brauðstritið. Þetta eru þær hliðar matvælaframleiðslunnar sem varða ójöfnuð og ofnýtingu gæða jarðarinnar og er ekki getið í innihaldslýsingunni. Alþjóðleg stórfyrirtæki stjórna matvælaframleiðslu á heimsvísu og sjá okkur fyrir helstu aðföngum sem þarf til hennar. Þetta er sammerkt með matvælaframleiðslu eins og öðrum iðnaði, þrátt fyrir það er tilhneigingin að líta á þjóðir heims sem matframleiðendur, í það minnsta í daglegu tali. Eflaust eru það hugrenningatengslin við það hvar matvælin eru ræktuð. Rófan er dönsk, laukurinn franskur og grjónin líklega frá Indlandi eða Taílandi. Þýskt kjöt, íslenskur hamborgari Íslendingar geta ekki framleitt allan sinn mat án þess að breyta stórkostlega matseðli heimilisins. Við getum gefið í og gert betur. Átak í kornrækt er mikilvæg varða á þeirri leið og liður í að efla innlenda matvælaframleiðslu lengra niður aðfangakeðjuna en við eigum að venjast, það er gleðiefni og eykur sjálfstæði innlendrar matvælaframleiðslu. Á sama tíma og við sækjum fram í akuryrkju og sköpum ný tækifæri til framleiðslu matvæla innanlands þurfum við að standa vörð um þau matvæli sem við þegar framleiðum. Það er hluti af heilnæmi íslenskra matvæla að eftirlit, framleiðsla og hreinleiki afurða er í fyrirrúmi. Það skýtur því skökku við þegar innflutt hrávara, eins og kjöt, er notuð við gerð matvæla sem merkt er íslensk. Það er ábyrgðarhluti stórmarkaða, verslana og framleiðenda að leggja sitt á vogaskálarnar í þessum efnum. Það er lykilatriði að ganga skilmerkilega frá merkingum á uppruna þeirra afurða sem notaðar eru til framleiðslu matvæla hér á landi og merkja ekki þýskt kjöt sem íslenskan hamborgara af því að hakkavélin sem marði saman buffið var boltuð niður í íslenska storð/ staðsett í Hafnarfirði (eða einhvers staðar á Íslandi). Upprunamerkingar matvæla Það er mikilvægt að neytendur geti treyst á upprunamerkingar. Notkun fánalita íslenska fánans við merkingar á innlendri framleiðslu með erlendum afurðum ætti að vera með öllu óheimil, en nokkuð hefur borið á því að framleiðendur freistist til þess að nota fánalitina með þeim hætti sem hér er lýst. Til þess að koma innlendum vörum á framfæri við neytendur þurfa framleiðendur og seljendur að koma sér saman um fyrirkomulag sem tryggir skýrar upplýsingar um innihald matvæla. Að gefnu tilefni hyggst ég leggja fram fyrirspurn til hæstvirts viðskipta- og menningarráðherra um notkun fánalitanna við merkingar á matvælum. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður fjárlaganefndar og þingmaður VG í Norðausturkjördæmi. Sveinn Runólfsson. Sveinn Sigurmundsson. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Þýskt kjöt, íslenskir hamborgarar. „Það er lykilatriði að ganga skilmerkilega frá merkingum á uppruna þeirra afurða sem notaðar eru til framleiðslu matvæla hér á landi og merkja ekki þýskt kjöt sem íslenskan hamborgara af því að hakkavélin sem marði saman buffið var boltuð niður í Íslenska storð/ staðsett í Hafnarfirði (eða einhvers staðar á Íslandi)“.

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.