Bændablaðið - 07.09.2023, Qupperneq 28

Bændablaðið - 07.09.2023, Qupperneq 28
28 Bændablaðið | Fimmtudagur 7. september 2023 LÍF&STARF Árið 2003 sameinuðust tuttugu sauðfjárbændur á Austurlandi um sölu upprunamerkts lambakjöts á netinu í gegnum vefsíðuna Austur- lamb. Ýmist gekk það vel eða erfiðlega en svo fór að þátttakendum fækkaði og Austurlamb hætti starfsemi 2011. Austurlamb gaf neytendum kost á að kaupa upprunamerkt lambakjöt milliliðalaust af bændum, frá Héraði og allt suður á Djúpavog. Var boðið upp á sérvalið og sérverkað úrvalslambakjöt frá tilteknum bændum og gátu kaupendur kynnt sér með einföldum hætti framleiðsluaðferðir, þ.e.a.s. búskaparhætti seljenda og valið stærð og gæðaflokka. Matreiðslumenn höfðu á þessum tíma sumir hverjir kvartað nokkuð yfir seigu, morknu og bragðlitlu kjöti þrátt fyrir fagmannlega meðhöndlun fyrir eldun. Röktu þeir það til rangrar meðferðar sláturfjár, hraðrar kælingar eftir aflífun og stutts kælitíma fyrir frystingu. Þeir voru hins vegar ánægðir með Austurlambskjötið og sögðu það bragðgott, mjúkt og vel fitusprengt, auk þess sem villibragðið af kjötinu hefði verið markvert. „Óhætt er að fullyrða að framtak okkar Austfirðinga hafi orðið nokkur hvatning fyrir þá bændur sem vilja selja vöru sína beint til neytenda undir kjörorðinu „Beint frá býli“, sögðu forsvarsmenn Austurlambs. Sigurjón Bjarnason, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sláturfélags Austurlands, sem stóð að baki verkefninu, segir neytendur ekki hafa verið tilbúna fyrir netviðskipti af þessu tagi og krafan um lágt verð á lambakjöti hafi gengið að Austurlambi dauðu. Milliliðalaus markaðssetning „Þetta var tilraun til að markaðssetja lambakjöt án milliliða,“ segir Sigurjón Bjarnason. „Hugmyndin var einnig sú að kaupendur gætu raunverulega valið framleiðandann.“ Var þetta fyrsta tilraun í þá átt hérlendis, að hans sögn. „Upphafið var að við höfðum ekki ráð á því að slátra hér á Austurlandi, né markað. Lambakjötsmarkaðurinn var búinn að einangra sig við tiltekin sláturhús og þau tvö sláturhús sem voru á Austurlandi höfðu hreinlega ekki aðgang að íslenskum markaði. Þá stóðum við frammi fyrir því að þurfa að selja okkar kjöt til þeirra sem höfðu markaðinn og voru raunverulega í beinni samkeppni við okkur í sambandi við slátrun. Þá varð ekkert eftir, menn fengu ekki upp í framleiðslukostnaðinn,“ segir hann. „Við vorum með vef þar sem fólk gat séð á hverju kindin nærðist, sem sagt allt um fóðrun, hvernig hún var ættuð, hvað hún var mikið úti að vetrinum og þar fram eftir götunum. Ég veit ekki hvort neytandinn var nokkuð að spekúlera í þessu en við lögðum áherslu á þetta.“ Í byrjun skráðu tuttugu bændur sig í Austurlamb og segir Sigurjón það hafa verið harla góð viðbrögð. „Svo kom í ljós að sumir seldu mjög lítið í gegnum vefinn og duttu fljótlega út, en aðrir héldu áfram og voru dálítið að harka sjálfir við að selja í gegnum þetta.“ Fenginn var sérhæfður kjötiðnaðarmaður á Reyðarfirði í að hluta sundur skrokkana eftir að þeir komu frá sláturhúsinu á Húsavík, til að tryggja að neytandinn fengi gott kjöt og taka út það af skrokknum sem menn höfðu ekki áhuga á að selja. „Þetta þurfti að fara í gegnum sláturhús á Húsavík og þeir sáu um að taka frá fyrir okkur skrokka í réttum fituflokkum,“ heldur Sigurjón áfram. „Við vorum ekki með það feitasta í þessu og ekki heldur það magrasta heldur völdum úr vinsælustu flokkana. Við tókum heldur ekki mjög þunga skrokka né þá léttustu. Þetta var allt saman stillt inn í hugbúnað sem var settur upp á Húsavík fyrir Austurlamb.“ Áhöld hafi þó verið um hvort sá búnaður virkaði sem skyldi og stóðu bændur stundum sjálfir í sláturhúsinu til að tryggja skrokkavalið. Neytandinn ekki tilbúinn Saga Austurlambs var þó á enda árið 2011. „Það náðist bara ekki sala til að standa undir þessu,“ segir Sigurjón og bætir við: „Það er ekki flóknara en það að neytandinn var ekki tilbúinn.“ Þátttakendur hafi þó ekki farið illa út úr verkefninu fjárhagslega þrátt fyrir áratugarlangt hark. „Menn lögðu svo sem ekki í mikinn kostnað sjálfir. En eftir að vinnslan á Reyðarfirði hætti – hún fór á hausinn eftir að Austurlamb hafði verið þar með vinnslu í tvö ár – þá fóru menn að gera þetta sjálfir. Þetta hafði verið á flækingi hér á Egilsstöðum í ýmsu húsnæði um skeið en endaði með því að við störtuðum upp kjötvinnslu á vegum Sláturfélags Austurlands, sem stóð fyrir þessu verkefni upphaflega og er raunar enn þá í gangi: það er þessi kjöt- og fiskbúð sem er starfrækt á Egilsstöðum enn þann dag í dag. Þar höfðu bændur aðstöðu til að vinna skrokkana sjálfir í Austurlambsverkefnið.“ Í dag er verslunin Kjöt og fiskur þó einvörðungu búð en selur ekki beint frá bændum. Um það að neytandinn hafi ekki verið tilbúinn og Austurlambs- verkefnið því fjarað út, segir Sigurjón að ef til vill sé orsakanna einnig að leita í því að ekki hafi verið fyrir hendi fjármagn til að markaðssetja verkefnið nægjanlega vel. Það sé stórmál að koma svona dæmi upp ef borga eigi full laun, bæði í markaðssetninguna og utanumhald. Hann segir einnig hafa komið í ljós að þegar búið var að verka skrokkana hafi á bilinu 20-25% þeirra ekki verið söluvara og sá hluti var ekki settur í sölupakkningarnar. „Þess vegna segi ég að stærsti milliliðurinn – af því að allir eru nú að tala um milliliðakostnað í lambakjöti – er tunnan! Það gengur svo mikið úr af lambsskrokknum.“ Finna þurfi einhvern markað fyrir til dæmis slögin. Sláturhús hafi þó eitthvað verið að vinna úr þeim og hægt sé að búa til úr þeim alls kyns rétti, svo sem eins og kebab eins og gert er í Mið-Austurlöndum. Í þessum efnum mætti fara í frekari afurðaþróun, að mati Sigurjóns. Færri bændur – meiri eftirspurn Sigurjón er spurður um hverja hann telji möguleika vera í afurðasölu um þessar mundir. Hann segist ekki hafa trú á að borgi sig fyrir hvern og einn að fara að slátra miklu magni heima hjá sér. „Það kostar heilmikla aðstöðu og mikill fastur kostnaður er í kringum slátrun sauðfjár. Þá þyrftu nokkrir bændur að taka sig saman og stofna lítið sláturhús. Mér myndi lítast betur á það heldur en að sláturhús sé á hverjum bæ.“ Að hans áliti hefur umhverfið í afurðasölu sauðfjárbænda ekki breyst að neinu ráði. „Ég held satt að segja að það bjargi bændum nú um stundir hvað þeim fer fækkandi. Það verður meiri eftirspurn. Það var of mikið framboð af kjöti og enginn raunverulegur markaður fannst erlendis á viðunandi verði. Ég sagði bændum blákalt að það væri um að gera að hafa kjötskort á sumrin. Maður í Króksfjarðarnesi sagði við mig að það að selja íslenskt lambakjöt væri eins og ef að allir togarar á Íslandi færu með allan fiskinn á einum og sama sólarhringnum og ætluðu að selja hann á einum degi í Bremerhaven. Svoleiðis er lambakjötsmarkaðurinn hér. Þetta kemur á markað í mánuð á ári og svo ekki meir. Bændur hafa lítið pælt í að lengja sláturtíðina. Mér er sagt að lamb sé flokkað sem lamb alveg fram undir páska næsta ár á eftir. Þá kemur upp vandamálið með lambhrútana, þeir verða vondir á bragðið. Einn bóndinn sagði ekkert mál að bjarga því: ef þú geldir lambhrúta í september þá verða þeir bara góðir á bragðið allan veturinn. En þetta má auðvitað alls ekki segja upphátt og varla hvísla því heldur.“ Er magnvara en ætti að vera lúxus Lambakjöt á að vera lúxusvara, að sögn Sigurjóns. „Þetta er miklu dýrara í framleiðslu heldur en kjöt af stórgripum og svínum. Fyrir utan nú að þetta er auðvitað besta kjötið. Mér finnst asnalegt þegar fólk er að bera saman verð á lambakjöti og svínakjöti, til dæmis. Það er eins og að ætla að kaupa epli og kartöflur á sama verði. En ef bændum fækkar þá verður þetta alvöru lúxusvara og þá geta þeir farið að verðleggja þetta almennilega. Búðirnar leita alltaf að lægsta verði og keppa í verði en ekki gæðum. Og lambakjötið verður ódýrt í búðunum. Svoleiðis vilja menn hafa það og þá fá bændur mjög lítið í sinn hlut.“ Hann er spurður hvort hugmyndin um Austurlamb eigi grundvöll í dag. „Nei, ég myndi segja að svo væri ekki, nema eitthvert sláturhús vildi taka þetta upp á sína arma. Ég sé það því miður ekki gerast. Sláturhúsin eru bara að koma í gegn sem allra mestu magni á sem stystum tíma og maður skilur það svo sem alveg að þau hafi ekki möguleika á að búa til eitthvað svona eins og Austurlamb stóð fyrir. Það yrði þá að reisa sérstakt sláturhús sem sæi bara um eitthvað svona á landsmælikvarða. Menn voru að reyna vera í lífrænu og sláturhúsum er bölvanlega við að þurfa að búa til eitthvert sérstakt system hjá sér. Því datt mér í hug að stofna mætti eitt sláturhús á Íslandi aðeins fyrir lífrænt. Þar væri hægt að nota Austurlambs-aðferðina. Lífrænt á náttúrlega að kosta meira en mér skilst að lífræna framleiðslan í lambakjöti sé hreinlega liðin undir lok. Enda var enginn milliliður að selja lífrænt kjöt vegna þess að þetta þarf allt að vera svo ódýrt. Litið er á lambakjöt sem magnvöru og þá er ekki hægt að selja það sem lúxusvöru til einstaklinga. Þetta eru bara vörustaflar.“ Hann telur að lambakjötssala gegnum stórmarkaði gangi ekki upp. „Það verður að vera sérstakt söluapparat sem er alveg fyrir utan stórmarkaði, sem eru bara hættulegir. Krafan um lága verðlagningu stendur allri framþróun fyrir dyrum í afurðasölu. En menn eru bara ekki tilbúnir að borga meira fyrir matinn sinn,“ segir Sigurjón að endingu. Múlaþing: Austurlamb á undan sinni samtíð – Milliliðalaus netsala upprunamerkts lambakjöts rann út í sandinn Gömul Austurlambsauglýsing.Sigurjón Bjarnason. Steinunn Ásmundsdóttir steinunn@bondi.is
Qupperneq 1
Qupperneq 2
Qupperneq 3
Qupperneq 4
Qupperneq 5
Qupperneq 6
Qupperneq 7
Qupperneq 8
Qupperneq 9
Qupperneq 10
Qupperneq 11
Qupperneq 12
Qupperneq 13
Qupperneq 14
Qupperneq 15
Qupperneq 16
Qupperneq 17
Qupperneq 18
Qupperneq 19
Qupperneq 20
Qupperneq 21
Qupperneq 22
Qupperneq 23
Qupperneq 24
Qupperneq 25
Qupperneq 26
Qupperneq 27
Qupperneq 28
Qupperneq 29
Qupperneq 30
Qupperneq 31
Qupperneq 32
Qupperneq 33
Qupperneq 34
Qupperneq 35
Qupperneq 36
Qupperneq 37
Qupperneq 38
Qupperneq 39
Qupperneq 40
Qupperneq 41
Qupperneq 42
Qupperneq 43
Qupperneq 44
Qupperneq 45
Qupperneq 46
Qupperneq 47
Qupperneq 48
Qupperneq 49
Qupperneq 50
Qupperneq 51
Qupperneq 52
Qupperneq 53
Qupperneq 54
Qupperneq 55
Qupperneq 56
Qupperneq 57
Qupperneq 58
Qupperneq 59
Qupperneq 60
Qupperneq 61
Qupperneq 62
Qupperneq 63
Qupperneq 64
Qupperneq 65
Qupperneq 66
Qupperneq 67
Qupperneq 68
Qupperneq 69
Qupperneq 70
Qupperneq 71
Qupperneq 72

x

Bændablaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.