Bændablaðið - 07.09.2023, Page 50
50 Bændablaðið | Fimmtudagur 7. september 2023
Rigningartíð og grámi hafa löngum
þótt leiðinleg til lengdar. Hérlendis,
eins og margur hefur sjálfsagt tekið
eftir, hefur þessi gleði hafist – þá
a.m.k. ef tekið er tillit til áætlaðs
veðurfars næstu daga.
Samkvæmt Veðurstofu
Íslands er til dæmis frá og
með fimmtudegi skýjað
með köflum og dálitlar
skúrir vestan til, skýjað
og þokusúld eða rigning
út vikuna og áfram er
útlit fyrir vætu á einn
eða annan hátt.
Fyrir tæpum
hundrað árum var
tíðin svipuð, sam-
kvæmt tíðarfars-
yfirliti veðurbóka
skeytastöðvarinnar í
Síðumúla, Borgarfirði.
Þó kemur fram að maímánuður ársins
1935 hafi „verið ein samfeld veðurblíða,
svo að gamlir menn muna ekki slíka tíð.
Sama er að segja um jarðargróður. Hann er
ómunagóður. Úrkomur hafa verið mjög litlar,
aðeins til bóta, en oft áfall um nætur. Í júnímánuði
hefir yfirleitt verið köld og leiðinleg veðrátta.
Var á tímabili frost um nætur. Sérstaklega
inn til dala og upp til fjalla. Jarðargróðri
hefir því víða lítið farið fram, þartil síðustu
dagana að rigningin kom. Kartöflugras hefir
sumstaðar fallið og orðið svart. Grasspretta
er samt talin að vera í betra lagi. Tún eru
víða að verða slæg. Júlímánuður hefir verið
mjög erfiður hvað veðráttu snertir. Sífeldar
rigningar. Taðan hefir hrakist til stórtjóns.“
Áfram eru dagarnir raktir og fram á haustið þar
sem tíðin hélt áfram að sortna.
Sagan hefur þó sýnt að ekki má leggjast alveg
í híði þó svona ósköp dynji yfir en heldur reyna
að líta björtum augum á það sem er í kringum
mann og taka einhver skref sér til hugnaðar.
Þá er að velta fyrir sér hvað slíkt getur verið.
Fyrsta skrefið eftir góðan nætursvefn byljandi
rigningar getur verið heitt bað, sturta og/eða
heitur drykkur. Kertaljós jafnvel á meðan
íhugað er hvernig best sé að haga deginum.
Fatnaður er jafnan nauðsynlegur og hægt að
hafa í huga að þó farið sé út fyrir hússins dyr í
gúmmístígvélum, má alltaf taka með sér annað
skótau í poka – þá sérstaklega þegar haldið er
til vinnu.
Að ná jarðtengingu
Gaman er að geta þess að víða um heiminn
fyrirfinnast svokallaðir „núdistar“, fólk sem
kýs fremur að vera nakið en klætt – og telja
það afar hollt að striplast um í rigningunni.
Vatn er jú eitt frumefnanna og því upplagt
til að ná jarðtengingu eða innri ró með því að
standa berfættur á regnvættri jörð. Einn þekktasti
íslenski núdistinn var Þórbergur Þórðarson, en
til eru myndir af honum nöktum í flæðarmáli
fjöru Seltjarnarness iðkandi líkamsæfingar. Því
er spurning hvort fólk hafi ef til vill gott og
gaman af því að tileinka
sér þessa iðju og tengjast
sjálfu sér betur.
Hugsanir flytja fjöll
Ef ekki er farið til
vinnu er ýmislegt
sem hægt er að
gera sjálfum
sér til góðs.
S u m u m
þykir gott að
teygja sig og
beygja, anda djúpt og
vel auk þess að hefja
daginn á einhvers konar hugleiðslu. Þeir sem
stunda slíkt vilja meina að best sé að einbeita
sér að blessunum líðandi stundar og komandi
dags. Beint hugsunum að þakklæti og trú á að
heimurinn sé þeim hliðhollur.
Aðrir sem hafa engan áhuga á því að anda
djúpt og vera þakklátir geta á hinn bóginn
skreiðst upp í sófa með sængina sína og haldið
værð morgunlúrsins áfram með grunnri öndun
þeirra er liggja í híði. Að sama skapi hægist á
hjartslætti og efnaskiptavirkni og að minnsta
kosti hjá björnum gerir slíkt þeim kleift að lifa
af minnkað fæðuframboð. Sem helst þá í hendur
við að nenna ekki úr sófanum að sækja sér snarl.
Með montprik í hendinni og sultubollu í hinni
Eftir því sem dagurinn líður þarf þó að finna sér
eitthvað til dundurs. Einhverjir geta sökkt sér ofan
í góða bók eða þáttaraðir ljósvakans, aðrir fara í
gegnum þá ótal kassa og minningar sem þyrfti að
losa sig við og enn aðrir læra nýja uppskrift, sér
og öðrum til gleði.
Það er nefnilega til bolluuppskrift sem gleður
nær alla sem hana reyna og því ekki úr vegi að
hressa sig við og fá vindinn í andlitið ef þarf að
versla svolítið fyrir baksturinn. Þetta er óstjórnlega
góð austurrísk uppskrift að bollum. Þekkjast þær
bæði undir nöfnunum Buchteln og Wuchteln en
eiga það sameiginlegt að innihalda sultu og vera
sætar og góðar og mjúkar.
Fyrir þá sem stefna á búðarferð verður að taka
fram að vanir menn hafa löngu gefist upp á því
að nota regnhlíf hérlendis þó slíkt tól hafi verið
í einhvers konar notkun síðan a.m.k. 1859, þá
mögulega notað sem montprik.
Sbr. auglýsingu sem birtist í dagblaðinu Þjóðólfi
það ár. „– Svört regnhlíf úr silki með járnstaung
og handfángi úr horni hefir verið skilin eptir
einhverstaðar í bænum. Sá sem kynni að verða
var við hana hjá sér, er vinsamlega beðinn að
halda henni til skila þángað, sem eg hefi átt heima.
Reykjavík, 8 ágúst 1859. H. Guðmundsson. –“
Ef hugnast þó einhverjum má sem sé enn
brúka regnhlífar sem montprik. Spurning hversu
vel það gengur þegar barist er á móti íslenskum
rigningarsudda með innkaupapoka í hendinni.
En hvað sem öðru líður ættum við landsmenn
að geta gert okkur eitthvað til dundurs. Bakað
svolítið, hlaupið um (nakin) í rigningunni, æft
það að leggjast í híði eða verið þakklát fyrir allt
og alla í kringum okkur. Að meðtöldum okkur
sjálfum auðvitað. /SP
LÍF&STARF
Hvað er ...
Aspartam?
Aspartam er gerfisæta sem, sam-
kvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnun-
inni (WHO), er mögulega krabba-
meinsvaldandi. Aspartam er einnig
markaðssett undir heitinu Nutra-
sweet. E-númer aspartam er E951.
Frá níunda áratugnum hefur aspartam
verið útbreitt til að gefa sykurlausum
gosdrykkjum sætt bragð. Enn fremur
er það gjarnan notað í neysluvörur
eins og tyggjó, hlaup, ís og jógúrt.
Jafnframt er aspartam notað til að
bragðbæta tannkrem og hóstasaft.
Rétt eins og sykur, þá inniheldur hvert
gramm aspartam fjórar kaloríur. Þar
sem aspartam er nálægt 200 sinnum
sætara en sykur, þá þarf mjög lítið magn
til að ná fram sömu áhrifum á bragð.
Efnið er hvítt og lyktarlaust og er sett
saman úr þremur efnum; amínósýr-
unum fenýlalanín (50%) og aspartín-
sýru (40%) ásamt tréspíra (10%).
Fenýlalaníninu hefur verið umbreytt
með því að bæta við meþýl, sem
gefur hið sæta bragð. Eitt og sér er
fenýlalanín biturt á meðan aspar-
tínsýran er súr. Þegar aspartam er
neytt brotnar það hratt niður í sínar
frumeiningar, sem líkaminn nýtir meðal
annars sem orku. Við rannsóknir hefur
hreint aspartam ekki fundist í blóðrás
eða líffærum. Tréspíri er þekkt eiturefni,
en talið er að hann hafi engin skaðleg
áhrif í aspartami þar sem magn hans
er svo lítið.
Frá upphafi hafa komið fram
grunsemdir um skaðsemi aspartam á
heilsuna. Í sumar sendi WHO frá sér
yfirlýsingu þar sem aspartam er komið
á lista yfir efni sem eru mögulega
krabbameinsvaldandi. Þessi flokkun
byggist á því að fjöldi vísindarannsókna
hefur gefið óljósar vísbendingar um
tengsl aspartam við krabbamein. WHO
tekur sérstaklega fram að þörf sé á
frekari rannsóknum til að geta svarað
með óyggjandi hætti hvort sætuefnið
sé krabbameinsvaldandi eða ekki.
Enn sem komið er telur WHO ekki
ástæðu til að breyta ráðlögðum dag-
skammti, sem er að hámarki 40 milli-
grömm fyrir hvert kílógramm líkams-
þunga. Til að ná þessum skammti
þyrfti 70 kílógramma einstaklingur að
drekka níu til fjórtán dósir af sykur-
lausu gosi, sem innihalda 200 til 300
millígrömm af aspartami hver.
Árið 1965 uppg ötvaði bandaríski efna-
fræðingurinn James M. Schlatter aspar-
tam fyrstur manna. Hann starfaði hjá
lyfja fyrirtækinu Searle og var að vinna
að efni sem átti að nota við rannsóknir
á magasári. Fyrir slysni sleikti hann
fingurinn og fann sæta bragðið af
efninu sem hann hafði sett saman.
Í kjölfarið hófst vinna við þróun
sætuefnis fyrir neytendamarkað.
Árið 1974 fékk Searle heimild til að
setja aspartam í þurr matvæli, eins
og tyggjó og morgun korn, en þar sem
sér fræðingar matvælastofnunar
Banda ríkjanna (FDA) töldu sig sjá
tengsl efnisins við heilsukvilla og
efuðust um gæði rannsókna Searle,
var heimildin fljótlega dregin til baka.
Árið 1981 gaf FDA aftur heimild fyrir
notkun aspartam í þurrmeti og árið
1983 í drykki. Sama ár kom Diet
Coke á markað, sem upphaflega
notaði blöndu af sakkarín-sykurlíki og
aspartam. Eftir nokkur misseri var hætt
að nota sakkarín í gosdrykkinn, enda
aspartam mun sætara og ódýrara.
Sætuefni hafa lengi verið umdeild, en
þessi flokkur innihaldsefna er meðal
þeirra mest rannsökuðu á markaðnum.
Þau geta verið jákvæð fyrir
fólk sem þarf,
eða vill, takmarka
sykurinntöku af
ýmsum ástæðum.
/ÁL
Heimildir: EFSA,
National
Geographic, NHS,
Vísindavefurinn,WHO
Líf og fjör í haustlægðunum
Sultubollur
En þá er það uppskriftin að bestu sultubollum í
heimi, miðað er við um 18 stykki. Gott er að eiga
hringlaga form sem bollurnar fara allar ofan í.
Eða kassalaga álform. Það virkar ekki síður.
350 ml af mjólk
750 g af hveiti
150 g af mjúku smjöri
2 pokar af þurrgeri, þá miðað við að 1 poki af geri
= 7 g)
9 matskeiðar af sykri
2 egg af stærstu gerð
örlítið af salti
sulta að eigin vali
Gott er að hafa til handargagns brætt smjör til
viðbótar, til að pensla á bollurnar áður en þær
eru bakaðar.
Blandið saman hveiti, sykri, salti og þurrgeri í
skál. Gerið holu í miðjuna til að bæta eggjunum
við og hyljið þau svo með hveitiblöndunni.
Dreifið mjúku smjörinu ofan á hveitiblönduna.
Hitið mjólkina þar til hún er volg og hellið
helmingnum yfir hveitiblönduna. Hnoðið með
hrærivélinni á meðan mjólkinni er smám saman
bætt við. Hnoða skal þar til deigið er slétt og
festist ekki lengur við hlið skálarinnar.
Hyljið deigið með eldhúsþurrku og látið hefast
í klukkustund eða þar til það hefur að minnsta
kosti tvöfaldast að stærð.
Eftir klukkutímann skal hnoða deigið aftur,
skipta því í 18 bita og móta kúlur úr bitunum.
Aftur þarf að hylja þá og leyfa þeim að hefast í
um 20 mínútur. Forhitið ofninn í 190 °C.
Næst skal fletja hverja kúlu varlega út, setja
sultu í miðjuna og loka hverju stykki fyrir sig,
þétta vel. Raða svo kúlunum í bökunarformið
með skilin/sauminn niður.
Hyljið og látið lyfta sér í 20 mínútur. Penslið
bollurnar með bræddu smjöri og setjið í miðjan
ofn. Bakið í 25–30 mínútur. Eftir 20 mínútur af
bökunartíma skal pensla þær aftur með smjöri
og setja þær aftur í ofninn í 10 mínútur í viðbót.
Þegar bollurnar eru komnar úr ofninum skal láta
þær kólna að mestu og sigta flórsykri yfir.