Bændablaðið - 07.09.2023, Qupperneq 58
58 Bændablaðið | Fimmtudagur 7. september 2023
LESENDARÝNI
Til í samtalið við bændur
Ég fór á fund Bændasamtakanna
á Selfossi á dögunum. Þetta var
lokafundur í fundaröð undir
yfirskriftinni: Tökum samtalið.
Mér skildist
að aðeins tveir
þingmenn hafi
komið til þessara
funda, en var
alveg sátt við
að Viðreisn
skuli hafa átt
helming þeirra.
Ég veit að grund
vallarhugmyndir
Viðreisnar um atvinnufrelsi og
alþjóðasamvinnu hafa ekki í einu og
öllu átt upp á pallborðið hjá öllum
bændum.
Afstaða Viðreisnar er skýr um að
við viljum sjá íslenskan landbúnað
dafna og við höfum stutt þann
fjárhagslega stuðning sem bændur
njóta á fjárlögum. Við erum því
sannarlega til í samtalið við bændur.
Umfram allt trúi ég því að
hreinskilni sé betri í því samtali en
gylliboð.
Áhyggjur af afkomu
Það kom ekki á óvart að áhyggjur
af afkomu bænda voru hinn
þungi undirtónn. Vandinn er að
hluta tímabundinn vegna stöðu
efnahagsmála. En vandinn á
líka kerfislegar rætur, bæði í
landbúnaðarkerfinu sjálfu og
peningakerfinu.
Einn fyrrverandi landbúnaðar
ráðherra, reyndar sá sem lengst hefur
setið á þeim stóli á þessari öld, dró á
fundinum upp mjög dökka mynd af
framtíðinni. Að öllu óbreyttu gæti sú
spá ræst.
Ég vil gjarnan taka þátt í samtali
sem miðar að því að finna leiðir til
að koma í veg fyrir að sú kolsvarta
mynd verði að veruleika – og helst
að samtalið verði þannig að markmið
okkar um öflugan landbúnað verði sú
mynd sem rætt er um.
Við ættum að geta komist að
sameiginlegri niðurstöðu um þá þætti
sem núverandi stefna er að stranda á
og bændur finna rækilega fyrir. Svo er
ég til í að rökræða mismunandi leiðir
og hlusta á rök annarra.
Mig langar til að opna þetta samtal
með því að varpa fram spurningum
varðandi tvö atriði sem fram komu á
fundinum.
Fjármælaáætlun gerir ekki ráð
fyrir auknum fjárframlögum
Formaður Bændasamtakanna greindi
frá því að tólf milljarða króna
vantaði inn í reksturinn. Hann sagði
jafnframt að úrbætur fengjust ekki við
endurskoðun búvörusamninga á þessu
ári. Því yrði að leggja allt traust á nýja
búvörusamninga eftir þrjú ár.
Mín spurning er þessi: Er raunhæft
að stóla á meira svigrúm ríkissjóðs
eftir þrjú ár?
Í fimm ára fjármálaáætlun
ríkisstjórnarinnar er ekki gert ráð
fyrir auknum heildarframlögum.
Við sjáum þannig að núverandi
ríkisstjórnarflokkar hafa svarað
spurningunni afdráttarlaust
neitandi. Það er ekki gert ráð fyrir
auknum fjárframlögum af hálfu
ríkisstjórnarflokkanna þriggja.
Minn flokkur getur lofað einörðum
stuðningi við að núverandi styrkir
haldist að verðgildi. En það væri
ómarktækt gylliboð ef ég gæfi undir
fótinn með aukin útgjöld án samtalsins
um nýjar hugmyndir og sóknarfæri
fyrir landbúnaðinn. Slík pólitík er ekki
heiðarleg og hjálpar engum, hvorki
landbúnaðnum né öðrum.
Vandinn er fyrir hendi. Lausnin
liggur ekki á borðinu. Mér sýnist
því að samtal um hugmyndir sé
nauðsynlegt.
Kerfislegt óréttlæti
Ein leið er að kanna hvort unnt
er að minnka kostnað. Formaður
Bændasamtakanna upplýsti að
vaxtahækkanir að undanförnu
hafa aukið kostnað bænda um 5,5
milljarða króna. Vaxtahækkunin ein
er helmingurinn af því sem vantar
inn í reksturinn. Einnig hefur hann
bent á að við stöndum frammi fyrir
áskorun um hvernig við látum nýliðun
í íslenskum landbúnaði raungerast.
Þar vanti hagstæð lánakjör en
fjármagnskostnaður sé þar verulega
íþyngjandi þáttur.
Jafnvel ég, húsmóðir í Hafnarfirði
og Ölfusinu, sé í hendi mér að það
getur ekki gengið upp að greiða 40
krónur í vexti af hverjum mjólkurlítra
sem framleiddur er. Það endar með
ósköpum.
Að því kemur að vextir lækka
aftur. Þeir verða hins vegar alltaf
þrefalt hærri en hjá grannþjóðunum
sem neytendur horfa til með
verðsamanburð. Það sama gildir
um bændur. Sú væntanlega staða
gengur því heldur ekki upp.
Sjávarútvegurinn sætti sig ekki við
slíka samkeppnismismunun. Hann
fékk því heimild stjórnvalda til að
yfirgefa krónuna og tekur þar af
leiðandi ekki þátt í þeim umfram
kostnaði sem henni fylgir.
Með því er landbúnaðurinn
kominn í þá stöðu að bera byrðar
sem stórútflutningsatvinnugrein
arnar sleppa við, sjávarútvegurinn,
stóriðjan, Landsvirkjun, stærstu
ferðaþjónustufyrirtækin og þekkingar
iðnaðurinn. Með landbúnaðinum í
þessum báti eru heimilin og minni
fyrirtæki. Þessi þungi vaxtakostnaður
er þess vegna réttlætismál að leiðrétta.
Mögulegar leiðir
Er það náttúrulögmál að leggja
vaxtabyrðar á landbúnaðinn sem aðrar
atvinnugreinar í landinu sleppa við?
Mitt svar er nei.
Bændur vita að við viljum tryggja
jafna aðstöðu allra með því að taka
upp samkeppnishæfan gjaldmiðil. Ég
þykist vita að almennt eru bændur ekki
endilega sannfærðir. Þá er spurningin
Eru aðrar leiðir færar?
Ég sé ekki fyrir mér ríkisstjórn
sem snúa mun til baka og innleiða
pólitíska ákvörðun vaxta. Eftir sex ár
væru núverandi stjórnarflokkar búnir
að því ef þeir teldu það fært.
Ég veit þó ekki um neinn
stjórnmálaflokk sem vill ná jöfnuði
með því að skerða samkeppnisstöðu
helstu útflutningsgreinanna. Það
væri eins og að taka fóðrið frá bestu
mjólkurkúnni.
Við erum sammála um að ná þarf
vaxtakostnaðinum niður. Ég er tilbúin
að hlusta á aðrar hugmyndir en ég fer
ekki ofan af því að mismununin milli
bænda og útvegsbænda er óréttlát og
efnahagslega óhagkvæm bæði fyrir
landbúnaðinn og íslenskt samfélag í
heild.
Tölum meira saman
Ég vildi þakka fyrir áhugaverðan fund
á Selfossi og gott boð um að taka
samtalið lengra með því að draga þessi
afmörkuðu álitaefni fram strax í byrjun.
Vonandi getum við í framhaldinu átt
málefnalegt samtal um þau og málefni
landbúnaðar í stærra samhengi. Orð
eru til alls fyrst.
Stundum finnst mér að umræðan
snúist bara um tvennt: Endalokin eða
öflugasta landbúnað í heimi.
Er ekki rétt að byrja einhvers staðar
þarna á milli?
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir,
formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín
Gunnarsdóttir.
Eitthvað var það. Jafnvel eitthvað
áhugavert. En um leið og ég settist
niður til að skrifa gleymdi ég því
auðvitað samstundis.
Þið sýnið
mér vonandi
smá þolinmæði
meðan ég reyni
að rifja þetta upp.
Smá biðlund í
Billund, ef þið
eruð að lesa þetta
þar.
Bensín: rokgjarnara en
Stórhöfði?
Hvað gæti ég hafa lesið nýlega? Jú,
gluggaði loks í hina frægu bók Kama
Sutra um daginn. Aldeilis hvað ég
brann fyrir efninu, nánast frá fyrstu
málsgrein. Þetta var reyndar á sérlega
sólríkum degi í Portúgal, svo kannski
var það bara þess vegna sem ég
brann. Gleymdi mér við lesturinn og
sólvörnin mætti því afgangi. Engu
að síður alveg funheitt efni. Líklega
engin tilviljun að bálfarir og bólfarir
tengist oft, svona séð yfir aldirnar.
Oftar þó í öfugri stafrófsröð held ég.
Hvað annað var ég að gera nýlega?
Fyrir skömmu notaði ég vaskaföt
til að vaska föt. Föt sem við setjum
í fatahengi, líkt og samlíkingar í
samhengi. En það hafði ég ekki gert
lengi, þó rétt samhengi sé auðvitað
lykilatriði.
Keyrði líka framhjá Brókarvatni
á Vesturlandi. Það man ég vel,
enda leiddi það huga minn beint
í þverfaglegar hugsanir. Sjálfsagt
mætti nýta brókarvatn til að slökkva
áðurnefnd bál, sé fyrir því vissa að
manneskjan sem um ræðir verði ekki
við það alveg bálreið.
Ekkert af þessu ætlaði ég þó að
miðla til ykkar, en nú man ég loksins
hvað það var.
Búsetumál
Nýlega komst ég að því að íbúafjöldi
við mína reykvísku götu er margfalt
meiri en ég hélt. Stór hluti þeirra
reyndist ekki einu sinni skráður í
Þjóðskrá. Heilu hóparnir virðast
geta búið hér án þess að mikið beri á
og komist algerlega hjá því að vera
til í opinberum gögnum. Þetta kom
mér á óvart.
Satt að segja hef ég enga
hugmynd hvaðan þau komu né hve
lengi þau eru búin að vera hér, en
skv. mínum heimildum er þetta víst
nokkuð algengt. Mikilvægt er að
taka fram að sjálfsagt eru þau ekki
viðriðin neitt ólöglegt eða gruggugt.
Þegar maður kemst að einhverju
svona grunar mann þó auðvitað
ýmislegt. Hvað með sameiginlegu
sjóðina? Fyrst þau eru ekki til í
opinberum gögnum, borga þau
væntanlega enga skatta né gjöld til
ríkis og sveitarfélaga, eða hvað?
Sjálfsagt var þetta lengi augljóst
þeim sem vissu af, en ég hafði ekki
tekið eftir neinu fyrr en mér var bent
á þetta. Kona sem býr á Akureyri
hafði vitneskju um málið og mér
til lukku var hún svo almennileg
að deila þessu með mér. Svo kom
bruninn.
Bruni eða íkveikja?
Hundruð íbúa sáust inni í bruna! Sem
betur fer var ekki um íkveikju að ræða.
Það skýrðist fljótt þegar ljóst varð
að þessi bruni var víst innsláttarvilla.
Burnirót átti þarna að standa. Burnirót
(Rhodiola/Sedum rosea) kannist þið
örugglega flest við. Hún vex víða um
land og er bæði falleg og gagnleg.
Oft búa hins vegar á henni heilu
hóparnir af agnarsmáum langmítlum
af tegundinni Aceria rhodiolae.
Stundum kallaðir hnúðmaurar. Þótt
orðið „agnarsmáir“ beri með sér að
þeir séu svipaðir að stærð og Agnar,
sjást þessir einungis með smásjá.
Nærast á plöntusafanum og gera
okkur ekkert mein. Eru meira að
segja sérhæfðir á burnirót og hafa
engan áhuga á öðrum tegundum.
Enn eitt dæmið um „sérfræðinga
að sunnan“?
Fyrir tæpum sextíu árum sungu
bítlarnir „Ticket to Ride“, en til lengri
ferðalaga húkka mítlarnir miðalaust
far t.d. með flugum. Flugurnar leita í
blómin og því setjast þeir oft að þar.
Þeir láta svo plöntuna sjálfa um að
byggja fyrir sig híbýli, með því
að sprauta efni í plöntuvefinn sem
orsakar hnúðmyndun. Plönturnar
bíða sjaldnast nokkurn skaða
af veru mítlanna. Þegar hnúðar
myndast á sjálfum blómunum getur
það þó dregið úr sjálfsáningarhæfni
plöntunnar. Mennskir neytendur
burnirótar mættu hafa í huga að
magn annars af tveim virkum
efnum í plöntunni (salidroside) getur
helmingast, séu mítlarnir til staðar.
Ekki nógu frægir
Burnirótin er ekki ein um slíka
ábúendur. Svipaða mítla má t.d.
finna á grasvíði/smjörlaufi (Salix
herbacea) og sjást ummerkin þar
líka einna helst í kringum blóm eða
nærliggjandi blöð. Hafið endilega
augun opin í náttúrunni. Flestir taka
eflaust ekki eftir neinu óvanalegu,
en einhverjir hafa séð mun og velt
þessu fyrir sér. Af því mítlarnir
eru lítt þekktir meðal almennings
hérlendis og sjást ekki utan smásjár,
er ekki skrýtið að fólki detti í hug
sveppasýking.
Það er einmitt þess vegna sem
sýni rata til konunnar á Akureyri.
Sveppafræðingsins Guðríðar Gyðu
Eyjólfsdóttur hjá Náttúrufræðistofnun
Íslands. Hún sá fljótt að engin ummerki
um sveppi voru til staðar. Í þröngu
samhengi fannst ekkert, en af því hún
hefur augun og hugann opin, sá hún
hins vegar umrædda mítla.
Rétt samhengi
Hafi einhver gefist upp á miðri leið,
heldur viðkomandi kannski að eitthvað
vandræðafólk hafi komið sér fyrir við
götuna mína. Þið sem lásuð áfram
fenguð heildarmyndina. Alla söguna
um burnirótina og íbúa hennar í réttu
samhengi. Sveppafræðingar eru ekki
eina fólkið sem þurfa að skoða hlutina
nánar til að komast að hinu sanna. Við
eigum jú til að lesa bara fyrirsagnir og
jafnvel fyllast „réttlátri reiði“ án þess
að kynna okkur málið betur. Í réttu
samhengi. Fréttum kannski ekki af hinu
rétta fyrr en miklu seinna. Jafnvel eftir
að hafa sagt eða gert eitthvað sem við
hefðum betur sleppt.
Borusveppir og rassblöðkur
Ekki er hægt að ljúka grein um mítlana
án þess að minnast á rassblöðkurnar.
Þeir eru með fjóra fætur á framenda
og tvær blöðkur á afturenda, takk fyrir.
Vafalítið notaðar til að losa sig sem
hraðast við óvelkomna lykt.
En hvað var annars með þessa
borusveppi? Hvað er borusveppur?
Borusveppir brjóta niður dauðan við
og mynda sumir seig, fjölær aldin með
áberandi lykt, sem mynda árlega nýtt
borulag. Við greiningu getur útlitið,
ekki síður en borustærðin, hjálpað til.
Greiningar og annar sveppafróðleikur
er nokkuð sem áðurnefnd Guðríður
Gyða er einmitt óþreytandi í að fræða
landann um og á hún hinar mestu
þakkir skildar fyrir. Fyrir alla sem
vilja fræðast meira er því rétt að nefna
í lokin Facebookhópinn hennar, en
hann heitir: Funga Íslands – sveppir
ætir eður ei. /Kristján Friðbertsson
Kristján
Friðbertsson.
Brókarvatn og borusveppir
Smásjármynd af Aceria rhodiolae.
Mynd / Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir
Hnúðmyndanir í blómum burnirótar. Mynd / Kristján Friðbertsson.