Sveitarstjórnarmál - 2021, Qupperneq 21
21
Fjölraddað leiðarstef í skólastarfi
Það var ekki einfalt verk að taka
við grunnskólanum frá ríkinu fyrir
aldarfjórðungi. Hægt væri að hafa langt
mál um kerfislægar og fjárhagslegar
hindranir sem yfirstíga þurfti - og yfirstíga
þarf enn. Mig langar þó að ræða eina
sérstaka áskorun sem okkur yfirsést
stundum en er þó hryggjarstykkið í
skólastarfi.
Einkenni á heilbrigðu skólastarfi er
fjölbreytni - en þó fjölbreytni sem stefnir
að sama grundvallarmarkmiði. Skólakerfi
eru í eðli sínu rammpólitísk og með
aukinni dreifstýringu eykst krafan um að
kerfið hafi skýra stefnu þrátt fyrir fjölbreytt
pólitískt og félagslegt samhengi.
Áður en ríkið flutti grunnskólann yfir til
sveitarfélaganna hafði það fallið á því
pólitíska prófi að tryggja samstöðu um
grundvallarhlutverk menntunar. Þvert á
móti hafði hin eiginlega menntastefna
landsins, sem grundvölluð var í
grunnskólalögunum frá 1974, mætt
pólitískum mótvindi sem í kjölfarið
braust út í margvíslegum deilum
og jafnvel átökum. Sturlumálið og
Sögukennsluskammdegið mætti nefna.
Átök um grundvallarmál skapa bresti
sem hindra að róið sé að sama marki.
Þau eiga fátt sameiginlegt með eðlilegum
skoðanamun eða ólíkum, faglegum
sjónarmiðum.
Hlutverk sveitarfélaganna var kannski
fyrst og fremst að finna leiðir til að róa
í sömu átt. Það reyndist auðvitað ekki
einfalt og óþarfi er að rekja í smáatriðum
þær hindranir sem á veginum hafa orðið.
Það hafa hins vegar einnig orðið sigrar
og, jafn þversagnarkennt og það kann
að hljóma, virðist öflugasti lykillinn að
samstöðunni felast í því að hafa hugrekki
til að leyfa fjölbreytninni að blómstra.
Íslenskir skólar eiga ekki að vera eins -
alveg eins og íslensk sveitarfélög eiga
ekki að vera eins. Allar tilraunir til að
steypa okkur öll í sama mót eru ekki
aðeins dæmdar til að mistakast heldur
byggja á misskilningi um það hvað felst í
því að vera samfélag.
Það var ekki einhugur hjá þjóðinni um
það á sínum tíma að stærri samfélög
væru hin æskilega og eðlilega
byggðaþróun. Það er alveg ljóst að
þorps- og bæjarsamfélög voru á sínum
tíma álitin einhverskonar uppsöfnun
félagslegra vandamála. Svipuð viðhorf
mátti greina í umfjöllun um skólana þegar
þeir spruttu upp í þéttbýlinu.
Við búum í samfélagi af sömu ástæðu og
hljóðfæraleikarinn gengur í hljómsveit eða
söngvarinn fer í kór. Rými þess mögulega
stækkar með fleiri, ólíkum röddum. Við
færum á mis við fegurðina í tónlist ef við
ætluðumst til þess að pákan, sellóið og
fiðlan gæfu öll frá sér sama hljóminn.
Mig langar að bera saman tvenns konar
skólaþróun sem átt hefur sér stað í
grunnskólanum frá því að sveitarfélögin
tóku við. Önnur tegundin tel ég að sé
varhugaverð og árangurslítil. Hin held ég
að sé á heimsmælikvarða.
Það má líta á samband skólastarfs
og stjórnvalda sem samspil regns og
ræktunar. Regnið kemur ofan frá og er
nauðsynlegt öllu lífi. Gróðurinn sprettur úr
þeim jarðvegi sem til staðar er. Of mikið
regn drekkir gróðri en í þurrkatíð skrælnar
hann.
Það má nefna mýmörg framfaraverkefni,
sem jafnvel eru sett í gang af góðum
hug, sem einkennast fyrst og fremst af
skilaboðum að ofan, jafnvel valdboði;
regni eða slagviðri. Sumir þættir í
innleiðingu skóla án aðgreiningar falla
Ragnar Þór Pétursson
Formaður Kennarasambands Íslands
Austurbæjarskóli í Reykjavík. Kópavogsskóli. Grunnskólinn Vogum.
25 ÁR FRÁ YFIRFÆRSLU GRUNNSKÓLANS