Goðasteinn - 01.09.2005, Page 14
Goðasteinn 2005
Sigríður Eiríksdóttir, Kór Félags eldri borgara í Reykjavík:
Skemmti- og söngferð að
Hvolsvelli 20. mars 2004
Þann 20. mars fórum við félagar í kór FEB í Reykjavík í skemmtilega ferð
austur að Hvolsvelli í boði Kvennakórsins Ljósbrár sem þar starfar. Við áttum
þessa ferð mest að þakka félaga okkar Margréti Björgvinsdóttur, en hún átti
frumkvæðið og skipulagði óslitna skemmti- og fræðsludagskrá allan daginn, enda
fyrrverandi félagi í Ljósbrá og íbúi Hvolsvallar til langs tíma.
Við mættum fyrir kl 10 í Glæsibæ í björtu og góðu veðri, full eftirvæntingar.
Arni formaður gekk fram og aftur um bílinn og á svipnum mátti ráða: „Skyldu
verða sæti fyrir alla eða fæ ég kannski að halda á einhverri?“ en það slapp fyrir
hom og allir komust með, 58 voru í rútunni en fjórir komu á eigin vegum. Fólk
var létt í skapi og fór með gamanmál í hljóðnemann eða við sessunaut sinn.
Við tókum varla eftir því þegar við fórum yfir Þjórsá á nýju brúnni sem var
vígð í haust, svo vel fellur hún að landslaginu. Þegar við vorum komin í
Rangárþing var Margrét óspör á að fræða okkur um staðhætti og fór með fallegt
kvæði eftir Guðmund Guðmundsson um héraðið og þessa heillandi fjallasýn sem
blasti við. Við snæddum hádegisverð á Hellu í veitingahúsinu Kristjáni X., ágætis
súpu, brauð og álegg.
Þegar allir voru mettir sagði veitingastjórinn frá þessu merka húsi sem hefur
gegnt mörgum hlutverkum í gegnum tíðina: verið matsalur Kristjáns X. á
Þingvöllum á alþingishátíðinni 1930, flutt að Ljósafossi og hýst mötuneyti við
virkjunarframkvæmdir Ljósafossvirkjunar, var notað lengi sem pakkhús á Hellu
en var endurbyggt 1999 og nú er starfræktur notalegur veitingastaður í þessu
víðförla húsi.
Við héldum áfram til Hvolsvallar og að Sögusetrinu þar sem Alma
Guðmundsdóttir og Matthías Pétursson tóku á móti okkur. Alma sýndi
Njálusafnið og byrjaði á langri upprifjun á Njálu. Ég verð þó að viðurkenna að
þegar leið á fyrirlesturinn þá hugsaði ég meira um hvort einhvers staðar væri
möguleiki að tylla sér niður, heldur en hvenær kveikt yrði í Njálsbrennu.
-12-