Goðasteinn - 01.09.2005, Blaðsíða 175
Goðasteinn 2005
Látnir 2004
Bókamaður var Ólafur mikill og sannkallaður lestrarhestur. Hann vissi að sá
sem les bók finnur glöggt að hann er ekki einn. I bókinni eignast lesandinn
trúnaðarvin. Bókin opnar nýjar veraldir hlýju og samheyrileikakenndar. Sá sem
kann að lesa bækur verður aldrei einmana, skortir aldrei viðfangsefni, sér í
rauninni ekki út yfir það sem hann hefur að gera. Og góða bók lestu ekki einu
sinni, heldur oft og í hvert skipti sem þú kemur að henni aftur er það eins og að
heilsa gömlum vini og þú finnur óðara eitthvað nýtt og hrífandi, nokkuð sem þú
tókst ekki eftir áður. Og ein bókin minnir á aðra og hvetur til áframhaldandi
lestrar. Þannig verður til net óendanlegrar reynslu, vitsmuna og félagsskapar.
Hann var vel heima í Njáls sögu, lifði sig inn í frásögnina og bar ekki brigður á
hana og hafði ákveðnar skoðanir á persónum þessa snilldarverks og öllum þeim
mörgu, flóknu og litríku þráðum sem óviðjafnanlegur vefnaður sögunnar er ofinn
úr. Hann kunni líka Njálu-ljóð Guðmundar skólaskálds, kvæðaflokkinn fagra
„Gunnar á Hlíðarenda“, og lögin góðu sem Jón Laxdal tónskáld á Isafirði samdi
við þau, - og stundum við góðvinafagnað átti hann það til að hefja upp raust sína
og syngja síðustu hendingarnar úr samræðum þeirra vinanna Gunnars og Njáls:
„Okvíðnir skulum vér örlaga bíða, / öruggir horfa til komandi tíða, / ganga til
hvíldar með glófagran skjöld, / glaðir og reifir, hið síðasta kvöld. “
Hinn fornhelgi staður í Odda var Ólafi ákaflega hugleikinn og sýndi hann
prestsetrinu mikla rækt og ábúendum öllum vináttu. Hann var einkar vel að sér
um landnám Oddans og sögu; Sigfús prestur Loðmundarson á elleftu öld, sonur
hans, Sæmundur hinn fróði, lærdómsmaður og sagnfræðingur, Eyjólfur Sæm-
undarson, fóstri og kennari Þorláks biskups helga, og Loftur bróðir Eyjólfs, faðir
Jóns Loftssonar sem „mestur höfðingi hefur verið og vinsœlastur á Islandi“,- að
ógleymdum Sighvati Hálfdanarsyni sem atti kappi við Árna biskup Þorláksson í
„staðamálum hinum síðari" á þrettándu öld; og svo fólkið marga fram á þennan
dag; allt voru þetta góðkunningjar og heimilisvinir Ólafs í Hjarðarbrekku. Hann
hafði haft Oddastað fyrir augunum nær alla sína ævi þar sem hann rís lágt yfir
flata Rangárvellina og kirkjuturninn ber við suðvesturhimininn. Hann unni þess-
um stað og leit á endurreisn hans sem þjóðþrifamál.
Ólafur var mikill gleðimaður og félagslyndur, pólitískur, gamansamur og glett-
inn, smástríðinn. Hann var tilfinningamaður og í hugarfylgsnunum innst tókust á
gleði og sorg.
Ófáar voru hamingjustundirnar þegar hann fór í hestaferðir um fjöll og firn-
indi. Hann hlakkaði til þessara ferða, vissi að
Maðurinn einn er ei nema hálfur,
með öðrum er hann meiri en hann sjálfur. -
Og knapinn á hestbaki er kóngur um stund,
kórónulaus á hann rfki og álfur.
-173-