Goðasteinn - 01.09.2005, Blaðsíða 29
Goðasteinn 2005
sjö hjáleigur, auk gripahúsa, fjárhúsa og ýmissa annarra mannvirkja. Margir og
merkir hellar hafa verið og eru enn sýnilegir á svæðinu, í raun langt umfram það
sem eðlilegt má telja og verður vikið að þessu atriði síðar.
Margir tugir manna hafa búið á torfunni samtímis, og á dögum skólahalds má
ætla að mannfjöldinn hafi jafnvel verið á bilinu 150 - 200 samtals. Eru þá ótaldir
ábúendur þeirra jarða sem fjarri lágu staðnum, en voru þó í beinu samhengi. A
okkar mælikvarða tölum við hér um heilt sveitaþorp, allavega þegar litið er til
fólksfjöldans.
Þó Oddastaður sé í raun snyrtilegur og vel útlítandi leyfi ég mér samt að segja
að hann megi muna fífil sinn fegri, allavega ef litið er á íbúafjöldann. í vetur hef
ég löngum dvalið einn á staðnum, auk heimilisfólksins í Ekru og Vindási sem að
hluta sækir vinnu utan heimilis. Horfnar eru hjáleigur, vinnufólk og búpeningur
að miklu leyti, horfið er iðandi mannlíf á krossgötum sveitalífsins, ef svo mætti
segja.
Ég hefi leyft mér þann munað að reyna að hlusta á nið aldanna hér á þessum
merka stað. Ég hefi gengið um staðinn, margoft, bæði að degi og nóttu, horft til
himins og jarðar, leyft tóftarbrotunum að segja þöglar sögur, leyft hellistóftunum
að syngja sín vers og látið ímyndunaraflið fá að fljúga yfir stund og stað. Hvergi
sá ég himininn eins opinn og sjóndeildarhringinn eins magnaðan og í Odda, og
hvergi naut ég stormanna og niðar vindanna eins og þar. Ég sá sólina setjast djúpt
í vestri og rísa við Eyjafjöllin, berandi skilaboð um nýjan dag. Hvergi var ég eins
lítill frammi fyrir þessu undri en samt svo stór og þýðingarmill hluti af almættinu,
áhorfandinn og þátttakandinn í eilífri lífkeðju almættisins.
Oddi er merkileg blanda af berangri og skjóli. Berangurinn felst í að veður eru
válynd, opið til allra himinátta. Skjólið felst í móbergshryggnum sem staðurinn er
grundvallaður á, þar er ætíð skjól að finna einhvers staðar bak við krappar öldur
hryggjarins, sem teygir sig nokkra tugi metra yfir sjávarmálið.
Á gönguferðum mínum um staðinn tók ég eftir því að hellarnir eru jafnan
staðsettir einmitt þar sem skjóls má leita fyrir hvössum veðrum. Hér kem ég að
því atriði sem er næsta eðlilegt að sjá fyrir sér. Elstu hellarnir eru grafnir af hús-
lausum farandmönnum sem leituðu skjóls, eða jafnvel vetursetu. Ég hefi búið í
Noregi, landi víkinganna. Þar hef ég ekki séð slíka hella í móbergi, norskir
víkingar ruddu skóg og byggðu úr tré. Hafi nú Island verið skógi vaxið milli fjalls
og fjöru, eins og Ari fróði segir, hvers vegna þá hellar?
-27-