Goðasteinn - 01.09.2005, Page 32
Goðasteinn 2005
Guðjón Ólafsson Syðstu-Mörk:
Frá fjallferðum
Á árunum 1938 til 1963 tók ég þátt í smölun afrétta Vestur-Eyfellinga flest
haust, þá voru gerðar þrjár leitir eins og gert var bæði fyrr og síðar, stundum fór
ég í tvær eða fleiri ferðir sama haustið.
Eftir 1944 smöluðum við líka skógræktargirðinguna á Þórsmörk og Goðalandi
en afréttir okkar liggja að henni bæði að innan og framan, en þar sem svæðið var
ekki hringgirt fór alltaf eitthvað af fé inn á það vegna þess að sumar kindur telja
ekki eftir sér að fara upp í skriður og kletta til að komast í góðan haga en haginn á
Þórsmörk og Goðalandi var betri en hægt var að finna annars staðar á þessum
slóðum. Það kom líka fyrir að Krossá eða Hvanná skemmdu girðinguna í vatna-
vöxtum og þá gat opnast leið fyrir fé inn í hana.
Frá 1944 fram að niðurskurðinum 1952 voru tveir leitarmannaflokkar sem
smöluðu þetta landsvæði, annar sunnan Krossár en hinn norðan, að öðru leyti en
því að Teigstungur voru smalaðar með Þórsmörk. En eftir fjárskiptin var einn
hópur sem smalaði svæðið allt og þá á fjórum dögum en með ferðunum fram og
til baka fóru sex dagar í fjallferðina.
Eftir að Ferðafélag íslands byggði skála sinn í Langadal vorum við þar allar
næturnar sem við vorum í ferðinni. Það var mikill munur heldur en að gista í
bólum eða tjöldum eins og við höfðum búið við áður.
Þessar ferðir voru sannkallaðar ævintýraferðir. Ég veit ekki hvort mér þótti
minna til þess koma að fara í fjallferðir en sportveiðimönnum að fara í laxveiði.
Þó voru þessar ferðir mjög erfiðar. Allir voru afréttirnir smalaðir gangandi, ekkert
var hægt að smala á hestum en farið var ríðandi inn fyrir, sem kallað var, eða
þangað sem smölun hófst að morgni. Göngur voru svo langar og erfiðar að
sjaldgæft var að eldri menn en um fimmtugt færu í fjallferðirnar, nema þá til þess
að vera með hestana.
Jökulár skipta svæðinu niður í afmarkaða hluta sem smalaðir voru hver út af
fyrir sig. Því var féð sem kom úr smölun að kvöldi hvers dags látið í girðingu og
geymt þar á haga þar til rekið var af stað fram til byggða. Þessar girðingar voru
tvær, önnur í Húsadal en hin á Fagraskógi á Stakkholti.
Þessi afréttarlönd eru mjög brattlend og sundurskorin af giljum og gljúfrum,
þar eru víða hamrar með hillum og öðrum stöðum sem kindur fara í en komast
-30-