Goðasteinn - 01.09.2005, Page 54
Goðasteinn 2005
innilega að hann réðist á mig svo ég gæti gengið úr skugga um hvort ég réði við
hann en til þess kom ekki, hann dreif sig upp á dekk, enda sjálfsagt ekki kært sig
um að Snæi skærist frekar í leikinn. Ég er víst fyrir löngu búinn að greiða þessum
pilti það sem hann lagði inn hjá mér. Þó gerði ég það ekki með handalögmáli og
held ég að það hafi verið af því að mér fannst það aldrei gustuk.
Það var yfirleitt föst venja og talið nauðsynlegt fyrir öryggi skipsins að gera að
minnsta kosti einu sinni á úthaldi ketilhreinsun. Hún var í því fólgin að blásið var
út af katlinum og hann látinn kólna og síðan hreinsaður vel og rækilega. Þetta tók
yfirleitt hálfan annan sólarhring þar til dampur var kominn upp að nýju. Þetta
þótti eins konar hátíð sem tilheyrði hverju úthaldi og skipshöfninni kærkomin,
þrátt fyrir að mannskapurinn yrði að skiptast á um að standa vaktir um borð. Það
var ekki fyrr en allmörgum árum síðar að svokallað hafnarfrí komst á og áttu þá
allir frí í tvo sólarhringa eftir að skipið kom í höfn.
Svo var það einu sinni er við komum að landi að aflokinni veiðiför að ákveðið
var að gera ketilhreinsun og brugðust allir glaðir við. Á skipinu var meðal annarra
ungur piltur sem var þó kominn mun lengra áleiðis til manns en ég. Við
hausuðum báðir og var nokkur metingur á milli okkar hvor hausaði meira. Annars
kom okkur vel saman og vorum samrýndir. Við bárum nú saman bækur okkar
hvernig við gætum best varið þessum dýrmæta tíma, og varð þá fyrst að sam-
komulagi að klæðast okkar bestu fötum og kom sér nú vel að búið var að sauma
úr efninu sem ég keypti í Englandi og fyrr er getið. Þegar við vorum orðnir allvel
til fara og að okkur fannst alls ekki óglæsilegar persónur, fannst okkur eðlilegt að
við notuðum mannréttindi okkar og útlit sem við vorum síður en svo óánægðir
með til að skyggnast inn á einhverjar nýjar leiðir sem heimurinn hafði á
boðstólum alveg eins fyrir okkur eins og hverja aðra. Við höfðum komist á snoðir
um að til þess að tryggja sér öruggan gleðskap væri heppilegasta leiðin að ná sér í
vín en þannig var þá háttað áfengismálum þjóðarinnar að algjört vínbann var í
landinu og þar sem við höfðum hvorugur smakkað vín áður og því síður staðið í
þeim útréttingum sem nauðsynlegar virtust vera í sambandi við öflun þess, sáum
við fram á að okkur mundi allmikill vandi á höndum.
En þegar við höfðum sannfært hvor annan um líkamlegt atgervi okkar á
ýmsum sviðum, réðumst við til atlögu og eftir nokkrar misheppnaðar tilraunir
hittum við loks bílstjóra sem virtist fáanlegur til að selja okkur viskíflösku fyrir
25 kr. og held ég að það hafi ráðið úrslitum að við sögðumst vera hásetar á togar-
anum Jóni forseta, enda höfðum við í frammi ýmsa viðeigandi tilburði og
orðbragð því til sönnunar og þar við bættist að við vorum allmikið tjörugir á
höndum og með þykkt lag á úlnliðum úr sama efni. Þetta stakk mjög í stúf við
-52-