Goðasteinn - 01.09.2005, Page 111
Goðasteinn 2005
sonar af píslardauða Jóns Þorsteinssonar í Tyrkjaráninu í Vestmannaeyjum árið
1627? Samkvæmt Kláusi flýði séra Jón með heimilisfólki sínu í helli í urð undir
hamri nokkrum og fór hann þar með guðsorð því til huggunar. Svo fór þó að ráns-
menn fundu hellinn og gekk foringi þeirra á undan og átti orðastað við prestinn,
hjó hann síðan þrisvar uns hann var örendur. Upp frá því var hann jafnan nefndur
Jón píslarvottur.
Túlkun Tyrkjaránsins
Tökum nú þræðina saman og lesum úr altaristöflunni á Krossi. Gefendurnir,
Kláus Eyjólfsson og Níels Klemensson, voru báðir vel heima í trúartáknum sam-
tímans og Kláus hafði sett Tyrkjaránið í Vestmannaeyjum í trúarlegt samhengi í
frásögn sinni. Báðir höfðu þeir fundið Tyrkjaránið á eigin skinni enda var það
mestu hamfarir sem þeir lifðu á ævi sinni. Tvær nýjar biblíuútgáfur stóðu þeim til
boða, dönsk og íslensk, í þá dönsku sóttu þeir meginhugmyndina að mynd-
gerðinni og í þeirri íslensku gátu þeir lesið hvemig Lúther tengdi Opinberunar-
bókina við Tyrkjaógnina.
Lesum þá boðskapinn út úr altaristöflunni á Krossi, mynd fyrir mynd frá
vinstri til hægri eins og vera ber í vestrænni menningu:
Mikil er þjáning mannanna og mest var hún í Tyrkjaráninu, en Kristur þjáðist
einnig og leið fyrir syndir okkar.
Hin illu öfl sækja að eins og Tyrkir að séra Jóni Þorsteinssyni en þau fá ekki
grandað okkur því að Kristur hefur sigrað dauðann.
Kristur mun ríkja og hið góða fær yfirhöndina, ekki fyrir ofbeldi og vopnavald
heldur „munnsverð" og „munnvönd“ (eins og Lúther orðaði það); sverð andans
sem er guðs orð.
Ef þessi lestur er réttur hafa Kláus Eyjólfsson og Níels Klemensson sagt að
hefndin og ofbeldið séu ekki leiðin til að yfirvinna hörmungar, heldur orðið og
siðmenningin. Sverð andans sigrar ofbeldismennina.
Svo geta menn mátað þennan boðskap við hefndarskyldu og vopnadýrkun
fyrstu alda íslandssögunnar eða innrásina í írak í nútímanum. Ef þeir hafa yfirleitt
trú á því að einn tími segi öðrum nokkurn skapaðan hlut.
Þeim sem vilja kynna sér aöra og lengri umfjöllun um þetta efni
og tilvísanir í heimildir er bent á Arbók Hins íslenska
fornleifafélags 2001-2002 (Reykjavík, 2003).
-109-