Goðasteinn - 01.09.2022, Síða 25
23
Goðasteinn 2022
Því miður nutum við pabba ekki lengi því í upphafi árs 1941 gekk slæm
inflúensa. Pabbi fékk upp úr því lungnabólgu en á þeim tíma voru súlfalyf
varla komin á markað, hvað þá pensilín. Pabbi dó 1. febrúar 1941 og um sama
leyti dettur mamma á hálku og handleggsbrotnar. Staða okkar mæðgna var þá
orðin ansi erfið, þá var atvinnuleysi og hvorki styrkir til ekkna né barnabætur.
Systkini mömmu hvöttu hana því til að koma norður til þeirra á Vatnsnes um
stundarsakir.
Fyrst fórum við að Skarði á Vatnsnesi til Siguróskar systur mömmu og hennar
fjölskyldu. Þar var mikið hjartarúm en húsakynni þröng. Þá er það sem Ólafur
bróðir mömmu kemur og biður hana að koma til sín því þau hjónin vanti sárlega
aðstoð. Þau Ingibjörg eigi von á þriðja barninu en sakir vinnu sinnar sem þing-
skrifari á Alþingi var Ólafur lítið heima á vetrum. Við fluttum því til þeirra að
Grænahvammi. Þeim fæðist svo drengur 5. maí 1941 sem hlaut nafnið Tryggvi.
Þarna erum við mæðgur hjá Ólafi og Ingibjörgu, fyrst í Grænahvammi í þrjú
ár og síðan í Kothvammi, þegar þau flytja þangað, í önnur þrjú ár. Þá var litla
sem enga vinnu að hafa og mamma gat helst prjónað, ofið eða saumað en hún
átti vefstól sem afi hafði smíðað. Það var ekki venja til sveita að krakkar, 7 til
8 ára, væru í skóla. En ég var í farskóla í Helguhvammi þegar við vorum í Kot-
hvammi. Við Helgi Ólafsson, frændi minn árinu eldri, fengum að vera með.
Mamma þarf síðan suður til lækninga þegar ég er á níunda árinu. Þá er það
sem við förum suður og dveljum hjá Auðbjörgu systur mömmu og Torfa manni
hennar á Hlébergi í útjaðri Hafnarfjarðar en það tilheyrði Garðahreppi. Ég sótti
skóla í Hafnarfirði. Eftir 3 ár þar hjá þeim vilja Auðbjörg og Torfi kaupa sér
jörð og flytja norður á Vatnsnes, byggja þar upp eyðibýlið Tungukot. Mömmu
hugnaðist ekki að fara þangað, fannst það of afskekkt og lengra fyrir mig að
fara í skóla.
Þá er það sem henni býðst ráðskonustaða hjá Þórði í Þjóðólfshaga í Holtum
og þar erum við ein 3 ár, þá er ég orðin 15 ára. Ég kem austur að Þjóðólfshaga
1950, er tvo vetur í heimavistarskóla á Skammbeinsstöðum, fyrstu veturna sem
skóli er þar. Ég er fermd í Marteinstungukirkju 1952 og að einu ári liðnu til
viðbótar í Þjóðólfshaga flytjum við að Lýtingsstöðum. Þá er Lýtingur, bróðir
pabba, þar orðinn einn með aldraða móður sína, hana Sigurleifu, því að Katrín
systir hans og Magnús maður hennar eru flutt að Akbraut. Ég fer síðan í Skóga-
skóla í tvo vetur og lauk gagnfræðaprófi. Frá Lýtingsstöðum flyt ég síðan að
Þverlæk og mamma flytur svo til á sama tíma með mér þangað. Þannig var mín
lífssaga, ég átti hvergi heima lengur en í þrjú ár á hverjum stað fyrr en ég flyt að
Þverlæk 1956 og hef átt heima þar síðan. Við Guðni giftum okkur 8. júní 1957
og áttum því 65 ára brúðkaupsafmæli núna í vor.