Goðasteinn - 01.09.2022, Síða 177
175
Goðasteinn 2022
Börn þeirra Guðna og Svönu eru tvö, þau kveðja föður sinn með söknuði.
1) Örn er fæddur 1. ágúst 1958. Börn hans og Þóreyjar Eyþórsdóttur, fyrrver-
andi eiginkonu hans, eru Eyþór, fæddur 1995, og Svanlaug, fædd 2000.
2) Margrét Björg er fædd 1967. Hennar maður er Emil Björn Héðinsson og
þeirra börn eru Arna Rut, fædd 1993, Guðni Snær, fæddur 1997, og Tinna Rún,
fædd 2006.
Samferð þeirra Guðna og Svönu, sem varði í yfir 60 ár, var góð og gleði-
stundirnar margar. Þau komu sér upp myndarlegu heimili á Vallarbrautinni þar
sem börnin ólust upp. Þau voru í hópi frumbyggjanna á Hvolsvelli og var ná-
lægð og kunningsskapur íbúanna oft mikil. Þau hjónin ferðuðust töluvert, bæði
innanlands og erlendis og höfðu ánægju af því að kynnast landinu sínu, sem og
menningu og háttum annarra landa.
Fyrstu árin á Hvolsvelli vann Guðni við afgreiðslu- og skrifstofustörf hjá
Kaupfélagi Rangæinga. Hann var síðan gjaldkeri og fulltrúi kaupfélagsstjóra í
tíu ár, frá 1954 til 1964. Þá tók hann við starfi sem tryggingafulltrúi fyrir Sam-
vinnutryggingar, sem Kaupfélagið hafði umboð fyrir. Hann varð síðan svæð-
isstjóri Vátryggingafélags Íslands á Hvolsvelli 1989 og gegndi því starfi allt þar
til hann lét af störfum 1997.
Guðni var farsæll í starfi og vel liðinn. Hann átti auðvelt með að leysa ýmis
mál sem upp komu og naut trausts og virðingar viðskiptavina. Hann var fram-
sóknar- og samvinnumaður og vék aldrei frá þeirri skoðun sinni. Teigsmenn
voru framsóknarmenn og ekki spillti að konuefni Guðna kom frá miklu fram-
sóknarheimili á Seljalandi. Á sínum yngri árum tók Guðni þátt í félagsmálum
og sat m.a. í stjórn Félags ungra framsóknarmanna í Rangárvallasýslu. Hann
var áhugamaður um fjárrækt og var formaður Fjárræktarfélagsins Hnýfils í
Fljótshlíð 1966–70. Fjármennskan var honum alltaf hugleikin og stundaði hann
fjárbúskap í frístundum alla tíð. Fljótlega eftir að hann fluttist á Hvolsvöll kom
hann sér upp litlum fjárstofni. Hann eignaðist landskika, ekki langt frá gömlu
símstöðinni, og var þar með kindurnar yfir veturinn. Síðar byggði hann mynd-
arlegt fjárhús vestan við veginn. Á vorin átti sauðburður hug hans allan og á
haustin voru það réttirnar, en ærnar voru reknar á Fljótshlíðarafrétt. Yfir vetr-
artímann naut Guðni þess að fara daglega og gefa ánum. Þar átti hann sína
kyrrðar- og slökunarstund frá vinnuamstri dagsins og eiga börnin og barna-
börnin margar ljúfar minningar frá samverustundunum í fjárhúsinu.
Guðni var heiðarlegur, vinnusamur og sanngjarn maður. Hann hafði fallegt
hjartalag og vildi öllum vel. Hann var ávallt til staðar fyrir sína nánustu, jafn-
lyndur, ástríkur eiginmaður og góður faðir og afi. Eftir að Guðni hætti að vinna
um sjötugt gerði hann það að vana að fara dag hvern í göngutúr. Hringurinn