Goðasteinn - 01.09.2022, Side 29
27
Goðasteinn 2022
líkir Njáls sögu hvað varðar stíl og tónfall, ef svo má að orði komast, aðrir en
bréf og ræður Þorvarðar Þórarinssonar sem Barði Guðmundsson taldi helstu
sönnunargögnin í málinu.1 Einn þeirra hefur ekki komið til tals fram að þessu,
svo ég viti, enda kemur hann úr annarri átt. Hér er um að ræða brot úr Hallvarðs
sögu sem finna má í útgáfu Ungers á Heilagra manna sögum frá árinu 1877.
Nú er von að spurt sé: Hvað er Hallvarðs saga? Svarið er að hún er stutt
helgisaga af píslarvætti Hallvarðs nokkurs Vébjörnssonar, þeim sem Hallvarðs-
kirkjan í Osló er við kennd. Messudagur hans er 13. eða 15. maí eftir því hvar
niður er borið. Hallvarður vann sér það til píslarvættis árið 1043, samkvæmt
íslenskum annálum, að koma til varnar konu nokkurri þungaðri sem flúði þrjá
menn er að henni veittust. Hallvarður tók hana upp í bát sinn á strönd Drammen
um það bil sem þeir komu aðvífandi. Þeir fóru á eftir þeim á öðrum báti, gerðu
að þeim hróp og sökuðu hana um að hafa brotist inn hjá bróður þeirra og þjóf-
stolið hann. Hallvarður taldi ósannlegt að veikburða konan hefði getað brotið
upp svo rammgerar dyr; þar hefði þurft kraftakarl til. Fleiri andmæli hafði hann
uppi. Eltihrellarnir þrír svöruðu röksemdum Hallvarðs með því að skjóta hann
með ör af boga; síðan vógu þeir konuna. Hallvarði sökktu þeir í vatnið og bundu
steinhellu ofan á hann en konuna grófu þeir á ströndinni. Töldu þeir vísast að
þar með væru þeir lausir allra mála. Það stórvirki gerðist nokkru síðar að líkami
Hallvarðs flaut upp á yfirborðið með böndum og steini og öllu saman. Hann var
síðan fluttur til kirkju og á endanum til Oslóar þar sem Hallvarðskirkjan var
reist um 1130.
Heimildir um Hallvarð eru ekki fjölskrúðugar, en þó er minnst á hann hér og
hvar.2 Hans er getið í kirkjusögu Adams af Brimum, bók III, kafla 53 (og nefnist
þar Alfwardus) 3 og í Utrecht er varðveitt uppskrift af legendu hans, sem tekin
var upp í helgisagnasafnið Acta Sanctorum. Einnig eru þrjú Hallvarðsles á lat-
ínu í Breviarium Nidrosiense. Fjórða heimildin er svo Hallvarðs saga sem varð-
veitt er í tveim íslenskum handritum frá fjórtándu öld, byrjunin í AM 238 fol.,
sem ekki er vitað hvaðan af landinu er komið, og sögulokin í AM 235 fol. sem
komið er úr Skálholti.4 Hallvarðs saga er nefnd í bókaskrá Möðruvallaklausturs
1461 þar sem hún stendur á einni bók ásamt mörgum öðrum heilagra manna
og kvenna sögum.5 Líkneski hans mun hafa verið á Munkaþverá svo seint sem
1525; hans er getið í Heilagra manna drápu, vísum 22 og 23, og til er sekvensía
honum til heiðurs í 15. aldar handriti.6 Loks er til af honum sagnadans, sem
Árni Magnússon skráði 1703 eftir gamalli konu í Garðahverfi á Álftanesi. Þar
er Hallvarður reyndar ekki talinn frá Hlíðum á Vestfold í Vík austur, heldur
Hlíðarenda í Ölfusi, og á einum stað í jartegnum hans er kominn skógur mikill
milli Strandar í Selvogi og Þorlákshafnar.7