Bændablaðið - 27.06.2024, Qupperneq 14
14 Fréttir Bændablaðið | Fimmtudagur 27. júní 2024
Talið er að kolefnisbinding skóga
minnki eftir því sem skógar
eldast. Þar með breytist árleg
meðaltals-kolefnisbinding eftir
aldri skóganna.
Í matsskýrslum Milliríkjanefndar
Sameinuðu þjóðanna um
loftslagsmál (IPCC) hefur m.a.
verið fjallað um að kolefnisupptaka
eldri skóga dali og því geti verið
skynsamlegt að fella þá til nytja og
planta nýjum trjám.
Aðspurð um hvernig þessu
hátti til á Íslandi, segja þau
dr. Aðalsteinn Sigurgeirsson,
skógerfðafræðingur hjá Landi og
skógi, dr. Brynhildur Bjarnadóttir,
líffræðingur og prófessor við
Háskólann á Akureyri, dr. Bjarni
Diðrik Sigurðsson, líffræðingur,
skógfræðingur og prófessor við
Landbúnaðarháskóla Íslands, Arnór
Snorrason, skógfræðingur hjá Landi
og skógi og Pétur Halldórsson,
upplýsingafulltrúi hjá sömu
stofnun, að skógur í vexti bindi
mikinn koltvísýring allt þar til hann
hafi náð tilteknum aldri.
„Þegar trén verða gömul hægir á
vextinum, tré taka að drepast og á
endanum verður jafnvægi milli lífs
og dauða, á milli kolefnisupptöku og
-losunar. En kolefni í skógarjarðvegi
heldur áfram að aukast á meðan
skógurinn er til,“ segja þau.
Sumar trjátegundir sem notaðar
séu í íslenskri skógrækt geti lifað
í margar aldir og bundið kolefni
eins lengi og trén eru á lífi, kjósi
skógareigandinn að leyfa trjánum
að verða gömlum.
Bindingunni viðhaldið
„Í sjálfbærum nytjaskógi er stöðug
binding og loftslagsáhrifin eru
tvíþætt. Kolefni binst í nýjum
viði sem myndast og ef viðurinn
er nýttur í varanlega nytjahluti
viðhelst forðinn. Timburhús
geyma t.d. kolefnið svo lengi
sem þau standa. Eins dregur úr
nettólosun ef viðurinn er notaður
í stað ósjálfbærra jarðefna úr olíu
og kolum.
Á sama tíma taka yngri kynslóðir
trjáa við af þeim sem hafa verið
felld og fjarlægð. Það viðheldur
bindingunni. Í því lífhagkerfi sem
senn tekur við af olíuhagkerfinu
er hverri þjóð dýrmætt að eiga
nægilega mikið af aðalhráefni
lífhagkerfisins, timbri. Það verður
notað í allt sem olía er notuð í
nú en einnig í stórauknum mæli
við mannvirkjagerð, til dæmis í
háhýsi framtíðarinnar,“ segja þau
Aðalsteinn, Brynhildur, Bjarni,
Arnór og Pétur.
Þau benda jafnframt á að skógar
á Íslandi séu fæstir „eldri“ eða
„gamlir“, að því leyti að í „gömlum“
skógum séu standandi tré sjaldnast
gömul. Elstu standandi birkitrén í
náttúruskógum landsins séu um 150
ára gömul.
Bindi kolefni til langframa
Ólafur S. Andrésson, lífefna-
fræðingur og prófessor emeritus
við Háskóla Íslands, hefur bent
á að hafa beri í huga að úr felldu
trjánum losni megnið af bundna
kolefninu á skemmri tíma en það
taki nýja skóginn að vaxa upp. Þetta
sé í rauninni spurning um að halda
sem mestu af bundnu kolefni á
viðeigandi landsvæði til langframa.
Jafnframt þurfi að halda til haga
að í sumum tilvikum rati ekki nema
10–15% af skógarviði í nýtanlegt
timbur, og oft sé meðallíftími
timburs ekki nema nokkrir áratugir.
Í langtíma kolefnisbúskap þurfi að
taka þessa þætti með í reikninginn.
Þá segir Ingibjörg Svala Jóns-
dóttir, prófessor í vistfræði við
Háskóla Íslands, að nytjaskógrækt,
eins og hún hefur verið mest stunduð
bæði hér á landi og erlendis, leiði til
lítillar aldursdreifingar trjáa, öll trén
séu meira eða minna jafngömul.
Losi meira en nemur bindingu
„Í þannig jafngömlum skógi
koma fram þessar aldurssveiflur
í kolefnisbindingu, mest þegar
skógurinn er tiltölulega ungur en
síðan dregur úr hraða bindingarinnar
með aldri og að lokum fer skógurinn
að losa meira en hann bindur,“
segir Ingibjörg. Hvenær það gerist
fari eftir tegund trjáa sem plantað
var og við hvaða loftslagsskilyrði.
„Þetta er hins vegar ekki vandamál
í náttúrulegum skógum þar sem
aldursdreifing er mikil. Þar helst
bindingin stöðug til lengri tíma og
skilyrði fyrir líffræðilega fjölbreytni
eru hámörkuð. Það er einmitt
mikilvægt að hafa þetta atriði í huga
við endurheimt náttúruskóga, þ.e. að
tryggja sem mesta aldursdreifingu
og að þeir ferlar sem stuðla að
sífelldri endurnýjun viðhaldist. Hér
á landi virðist því miður lítill munur
gerður á þeim skógum sem plantað
er sem loftslagsaðgerð og skógrækt
sem hefur það markmið að framleiða
skógarafurðir,“ segir hún.
Ingibjörg segir einnig rétt að halda
til haga þeim hættum sem skapist
með einsleitum plantekruskógum
með lítilli aldursdreifingu: aukinni
eldhættu og dreifingu sjúkdóma og
skordýraplága. /sá
Talið er að kolefnisupptaka eldri skóga dali og segja sumir skynsamlegt að
fella þá til nytja og planta nýjum trjám. Mynd / sá
Skógar:
Kolefnisjafnvægi
milli lífs og dauða
Loftslagsmál:
Samtal við atvinnulíf
og sveitarfélög
– Uppfærð aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum
Stjórnvöld kynntu á dögunum
uppfærða aðgerðaáætlun í
loftslagsmálum. Samtal við
samfélagið og ítarlegra mat er
sagt meðal nýjunga.
Um er að ræða uppfærslu eldri
áætlunar frá árinu 2018 um aðgerðir
í loftslagsmálum. Inniheldur
uppfærslan 150 loftslagsverkefni og
-aðgerðir sem sögð eru endurspegla
raunhæfar og metnaðarfullar lausnir
til samdráttar í losun gróðurhúsa-
lofttegunda og aukinnar bindingar
kolefnis. Stjórnvöld segja aðgerða-
áætlun í loftslagsmálum bæði vera
verkfæri til að Ísland geti framkvæmt
aðgerðir til að draga úr styrk gróður-
húsalofttegunda í andrúmsloftinu og
tæki til að undirbúa, samhæfa og
samstilla samfélagið í heild til þess
að innleiða slíkar aðgerðir.
Veltur á grænu orkuframboði
Ísland hefur skuldbundið sig til að
taka þátt í sameiginlegu markmiði
ESB, Íslands og Noregs um 55%
samdrátt í samfélagslosun árið 2030
miðað við árið 1990.
Í uppfærðri aðgerðaáætlun
er metinn beinn ávinningur 26
aðgerða á beinni ábyrgð stjórnvalda
í samfélagslosun Íslands. Stjórnvöld
meta það þannig að áætlunin skili
35–45% samdrætti í samfélagslosun
fyrir 2030. Hærri talan geri ráð
fyrir árangursríkri innleiðingu og
framkvæmd aðgerða sem ekki var
hægt að meta beint.
Í áætluninni sé með afgerandi
hætti skýrt að frekari árangur í
loftslagsmálum velti á því að í landinu
sé nægt framboð grænnar orku sem
komi í stað jarðefnaeldsneytis.
Frekari samdráttar er þó þörf eigi
íslensk stjórnvöld að ná sjálfstæðu
markmiði sínu um 55% samdrátt
árið 2030 og kolefnishlutleysi
árið 2040.
Í samráðsgátt stjórnvalda
Stjórnvöld segja að stöðugt verði
unnið að endurmati, undirbúningi og
uppfærslu aðgerða eftir því sem þörf
sé á. Þegar er komin fram gagnrýni
á aðgerðaáætlunina og sagt skorta
á tímasett og mælanleg markmið.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir
matvælaráðherra sagði við kynningu
áætlunarinnar að skilvirkasta leiðin
til að draga úr losun frá landi væri
að endurheimta votlendi. Í því
ljósi væri mikil áhersla á slíkar
aðgerðir, bæði í einkalöndum og á
jörðum í eigu ríkisins. Hún hyggst
leggja fram þingsályktun um átak í
endurheimt votlendis á ríkisjörðum
á næsta þingi.
Áætlunin er nú komin í
Samráðsgátt stjórnvalda til
næstu tveggja mánaða þar sem
almenningi, félagasamtökum og
hagaðilum gefst kostur á að koma
með umsagnir og ábendingar til
14. ágúst nk. Í Samráðsgáttina er
jafnframt komið frumvarp til laga
um ný heildarlög um loftslagsmál
og er það til umsagnar til 16. júlí
nk. Mun vera um að ræða uppfærslu
á ákvæðum laganna með tilliti til
markmiðs Íslands í loftslagsmálum
og betri útfærslu þess ramma sem
lög um loftslagsmál þurfi að vera.
/sá
Áherslur uppfærslu
Aðgerðaáætlunin samanstendur
af 92 loftslagsaðgerðum og 58
loftslagstengdum verkefnum.
√ Loftslagsaðgerðir kortlagðar og
metnar ítarlegar en áður hefur
verið gert.
√ Grundvallarbreyting í nálgun
stjórnvalda á verkefnið hvað varðar
samtal við atvinnulíf og sveitarfélög
um loftslagsmál sem er undirstaða
áframhaldandi árangurs.
√ Áætlunin stuðlar með markvissari
hætti en áður að samdrætti
í losun gróðurhúsalofttegunda
og aukinni bindingu kolefnis.
√ Aðgerðir sem búið er að meta
benda til að Ísland geti náð 35-45%
samdrætti í samfélagslosun fram til
ársins 2030.
√ Aðgerðir sem miða að
aukinni grænni orkuöflun hluti af
aðgerðaáætlun í fyrsta sinn.
√ Aðgerðir sem snúa að réttlátum
umskiptum, jafnrétti og velsæld til að
gæta því að samfélagsleg sátt ríki um
aðgerðir stjórnvalda í loftslagsmálum.
√ Losun á beina ábyrgð Íslands
hefur minnkað um 30% á hvern
einstakling frá viðmiðunarári.
Sjá nánar á vef stjórnvalda: co2.is.
Aðgerðir sem búið er að meta benda til að Ísland geti náð 35-45% samdrætti í samfélagslosun fram til ársins 2030.
Graf / Stjr.