Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2023, Page 9
einar freyr sigurðsson og j im wood
Maður, fornöfn og hrappar
1. Inngangur
Maður í íslensku er margslungið fyrirbæri.1 Eins og er vel þekkt getur
maður ekki einungis borið einkenni nafnorðs heldur einnig fornafns (t.d.
Aðalsteinn Eyþórsson 1986, Jóhannes Gísli Jónsson 1992, Hrafnhildur
Ragnarsdóttir og Strömqvist 2005, Helgi Skúli Kjartansson 2017).2
(1) a. Sérhver maður reynir að gera sitt besta.
(Aðalsteinn Eyþórsson 1986)
b. Það sást maður í Hljómskálagarðinum í gær.
(Hrafnhildur Ragnarsdóttir og Strömqvist 2005:144)
(2) a. Maður reynir að gera sitt besta. (Aðalsteinn Eyþórsson 1986)
b. Manni getur nú sárnað. (Aðalsteinn Eyþórsson 1986)
c. ✓ Segir maður ekki ollu?
d. ✓ Frá því maður var 10 ára hefur mig dreymt um þetta […]
e. ✓ Þegar maður sér sjálfan sig á hliðarlínunni þá hugsar maður að
það sé ekki skrítið að maður sé þreyttur
f. ✓ Á ekkert að heilsa manni?
Í þessari grein vísum við til maður sem nafnorðs í notkun á borð við þá
sem sýnd er í (1) en sem fornafns í dæmum á borð við (2). Viðfangsefni
Íslenskt mál 45 (2023), 9–49. © 2023 Íslenska málfræðifélagið, Reykjavík.
1 Þessi grein er að stofni til nokkurra ára gömul og hefur hún breyst talsvert mikið frá
því að hún var send til tímaritsins til ritrýni. Við þökkum Höskuldi Þráinssyni, sem var
annar ritstjóra Íslensks máls þegar greinin var ritrýnd, fyrir gagnlegar ábendingar og tveim-
ur ónafngreindum ritrýnum fyrir góðar athugasemdir, sem og Ástu Svavarsdóttur og
Þórhalli Eyþórssyni ritstjórum. Kærar þakkir fær Hlíf Árnadóttir fyrir umræður um efnið
á fyrri stigum og ýmsar snjallar ábendingar. Þá þökkum við fyrir góðar umræður og margar
athugasemdir þegar efnið var kynnt í Málvísindakaffi 30. nóvember 2018.
2 Í greininni styðjumst við á ýmsum stöðum við dæmi sem við höfum fundið við leit
á netinu, einkum í Risamálheildinni (https://malheildir.arnastofnun.is/?mode=rmh2022;
Starkaður Barkarson, Steinþór Steingrímsson og Hildur Hafsteinsdóttir 2022, Starkaður
Barkarson o.fl. 2022). Þegar við sýnum slík „raunveruleg“ máldæmi notum við táknið ✓ en
flest þessara dæma má finna í Risamálheildinni. Leturbreytingar í dæmum eru okkar.