Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2023, Side 61
þessa hljóðbreytingu með ⟨ie⟩ (⟨je⟩) (Stefán Karlsson 2000:54, 58). Eggert
Ólafsson mælti þó almennt með því í Réttritabók sinni frá 1762 að rita ⟨e⟩
fyrir þetta hljóðasamband en þó stundum ⟨ie⟩ (Smith 1965:90–92, 324–
325). Bæði í svokallaðri blaðamannastafsetningu seint á nítjándu öld og
skólastafsetningunni var notað ⟨je⟩ en í nútímastafsetningu er ⟨é⟩ orðið
aðaltáknið fyrir /je/.
Rask notaði ⟨è⟩, e með bakbroddi, til að tákna þetta hljóðasamband og
er þetta tákn líklega skýrasta einkenni stafsetningar Rasks. Slíkt tákn
hafði aldrei verið notað áður hér á landi. Í íslenskri málfræði sinni notar
Rask (1811:3–4) táknið ⟨é⟩ en fljótlega eftir það skiptir hann yfir í ⟨è⟩ og
dæmi eru um það í bréfum hans allt frá 1813 (Rask 1941(1):162, Jakob
Benediktsson 1979:16). Rask notar það skipulega eftir þetta í ritum sínum.
Þetta tákn (⟨è⟩) var mikið notað um miðbik nítjándu aldar og fram á
seinni hluta hennar, til að mynda af Jóni Sigurðssyni í tímaritinu Nýjum
félagsritum (1841–1864, 1867, 1869–1873) alla tíð (sjá Tímarit.is) og í fjöl-
mörgum blöðum og bókum frá þessu skeiði, t.d. útgáfum Bókmennta -
félagsins. Þótt ⟨è⟩ hafi ekki orðið ofan á síðar sem tákn fyrir þetta hljóða -
samband þá hefur almenn notkun þess um miðbik nítjándu aldar örugg-
lega haft áhrif á það að ⟨é⟩ en ekki ⟨je⟩ varð aðaltáknið fyrir þetta hljóða -
samband í nútímastafsetningu þar sem ⟨è⟩ ruddi brautina fyrir það að
stakt tákn yrði notað fyrir það síðar, þ.e. ⟨é⟩.
Líklegt er að Rask hafi fundið upp á því sjálfur að nota ⟨è⟩ og þá í sam-
hengi við það kerfi yfirsettra stafmerkja sem fjallað var um hér að framan.
Hann hefur snemma áttað sig á ólíku eðli „venjulegu“ tvíhljóðanna í
íslensku, /á/ [au(ː)], /ó/ [ou(ː)] og /æ/ [ai(ː)], sem eru hnígandi tvíhljóð,
og /je/ (físl. é /eː/) sem hafi einnig tvíhljóðast en verið stígandi.17 Það
kemur skýrt fram í sænskri útgáfu málfræði Rasks (1818:9) þar sem hann
segir að ⟨è⟩ sé frábrugðið öðrum tvíhljóðum þar sem sérhljóðið fylgi þar
samhljóðinu, eins og hann lýsir því, og því sé rétt að tákna það með öfug-
um broddi („emedan dess vokal följer efter dess konsonant och tycker
derföre naturligast betecknas med omvänd accent“). Rask (1832a:5) gerir
einnig grein fyrir rökunum fyrir þessu í forníslensku málfræðinni og í
bréfi til J.H. Halbertsma frá 25. júní 1830 (Rask 1941(2):241): „Beteg -
nelsen è synes derfor rigtigst som tydeligst modsat Tvelydenes Beteg -
nelse á, ó, undertiden også é“. Táknið è vísar því til uppruna hljóðs ins sem
Rasmus Rask og íslensk stafsetning 61
17 Rask (1832a:5) segir um ⟨è⟩ í inngangi forníslenskrar málfræði sinnar að óvíst sé
hversu gamall núverandi tvíhljóðsframburður þess sé (sjá einnig Bjerrum 1959:97–98 og
Rask 1941(2):261).