Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2023, Blaðsíða 65
íng, yng > ýng, ung > úng) en hin urðu tvíhljóð (eng > eing, öng > aung)
(Stefán Karlsson 2000:25–26). Frá þeim tíma og síðar voru þessar hljóð -
breytingar oft táknaðar í stafsetningu, t.d. ⟨eing⟩, ⟨ijng⟩, ⟨äng⟩ (Stefán
Karlsson 2000:58). Í Réttritabók sinni mælti Eggert Ólafsson með rit-
háttunum ⟨ang⟩ og ⟨eng⟩ en hins vegar ⟨aung⟩ (fyrir /öng/) (Smith 1969:
236, 238, 240).
Rask notaði lengi vel stafsetningu sem endurspeglaði nútímaframburð
á undan ng og nk, t.d. ⟨áng⟩ fyrir /ang/ o.s.frv. Hann ræðir ekki beint um
þetta stafsetningaratriði í skrifum sínum en það sést til að mynda skýrt á
notkunardæmum í Lestrarkverinu (Rask 1830:15), s.s. ⟨fáng⟩, ⟨leingt⟩,
⟨þeinkt⟩, ⟨þíng⟩, ⟨kóng⟩, ⟨úngs⟩, ⟨sýng⟩ o.s.frv., að hann vildi nota „breiða“
sérhljóða í slíkum dæmum.22 Í útgáfum fornsagna sem Rask kom að var
ritunin hins vegar á reiki, sbr. Fornmanna sögur, 11. bindi: ⟨aungum⟩
(289), ⟨lángr⟩ (23), ⟨híngað⟩ (30), ⟨konúngi⟩ (39) en ⟨löngum⟩ (327) o.s.frv.
Að rita breiða sérhljóða á undan ng/nk-samböndum var algengt á nítj-
ándu öld, t.d. var það almenn ritun í Nýjum félagsritum (1841–1864, 1867,
1869–1873).
Á sínum allra síðustu árum virðist Rask hafa skipt um skoðun á ritun
slíkra hljóðasambanda, a.m.k. í útgáfum fornra texta.23 Rask (1832a:9)
segir til dæmis í formála að forníslenskri málfræði sinni að stutt sérhljóð,
a, o, e á undan ng/nk séu upprunaleg og finnist í sumum fornum ritum.
Hann nefnir þó einnig að ekki sé hægt að kalla ritmyndir eins og ⟨áng⟩
rangar því að þær finnist einnig í sumum fornum handritum og séu frekar
gamlar í málinu.
Í skólastafsetningunni síðar á nítjándu öld voru grannir sérhljóðar
hafðir á undan ng/nk, t.d. ⟨ung⟩ (sjá Halldór Kr. Friðriksson 1859:138–
139).
3.2.3 ⟨y, ý, ey⟩ og ⟨i, í, ei⟩
Kringdu sérhljóðin /y, ý, ey/ afkringdust á fjórtándu og fimmtándu öld
og féllu við það saman við /i, í, ei/ (Guðvarður Már Gunnlaugsson 1994:
117, 121). Notkun táknanna ⟨y⟩ og ⟨ey⟩ lagðist þó aldrei af en ritun þeirra
Rasmus Rask og íslensk stafsetning 65
22 Hugtakið grannur sérhljóði er oft notað í stafsetningarreglum um einhljóðin i (y), e,
u, ö, o, a en breiður sérhljóði um tvíhljóðin sem táknuð eru með au, ei (ey), æ, ó, á og auk
þess einhljóðin í (ý) og ú. Sjá Höskuld Þráinsson (2021:37, 66).
23 Sjá Stefán Karlsson (2000:62): „Fyrir framan ng og nk hafði hann broddaða sér-
hljóða, au og oftast ei, einnig í fornritaútgáfum, en þó komst hann að þeirri niðurstöðu að
hæpið væri að prenta svo í slíkum útgáfum.“