Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2023, Page 68
Í eldri verkum Rasks um íslensku sem gefin voru út með gotnesku
letri (sérstaklega Rask 1811) er notað hið hefðbundna tákn ⟨ø⟩ fyrir /ö/.
Í yngri verkum hans með latnesku letri er hins vegar notað ⟨ö⟩ en það
hafði aðallega verið notað í íslenskri skrift í handritum á seinni öldum
fyrir /ó/.27 Val á ö-tákni virðist því greinilega tengjast þeirri breytingu
sem varð á fyrri hluta nítjándu aldar þegar gotnesku letri var skipt út fyrir
latneskt (sjá 3.4.1). Táknið ⟨ö⟩ varð fljótlega hið almenna tákn fyrir þetta
hljóð á nítjándu öld.
Fróðlegt er að skoða þetta í samhengi við stafsetningartillögur Rasks
(1826:175 o.áfr.) fyrir dönsku. Þar lagði hann til að notuð yrðu tvenns
konar ö-tákn: ⟨ö⟩ fyrir opið hljóð eins og í smör en ⟨ø⟩ fyrir lokaðra hljóð
í orðum eins og dør, mør (sjá einnig Jacobsen 2010:351, 360). Rask
(1941(1):381–382) segir í bréfi til P.E. Müllers frá 29. janúar 1819 að það
sé merkilegt að í íslensku komi eingöngu fyrir ö en ekki ø.28 Það má leiða
líkur að því út frá þessu að honum hafi þótt ⟨ö⟩ heppilegra tákn en ⟨ø⟩
fyrir /ö/ í íslensku nútímamáli þar sem það væri þar opið hljóð. Ummæli
Rasks í handritinu NKS 149 c107 4to (30r) í ritgerð um ágæti latínuleturs
passa við þetta (uppskrift mín): „Einnig ø á ekki vel vid Islenzku, af því
það danska ø er annað hljóð […].“
3.3 Samhljóðstákn
Færri nýjungar voru í stafsetningu Rasks í táknun samhljóða. Undan -
tekning frá þessu var bókstafurinn ⟨ð⟩ sem hann lagði áherslu á að yrði
tekinn aftur upp í íslenska stafrófið og er eitt helsta einkenni stafsetning-
artillagna hans (sjá 3.3.1). Eins og nefnt var að framan vildi Rask einnig
taka út óþarfa samhljóða, þ.e. ⟨c⟩ og ⟨q⟩ (sjá 3.4.2). Auk þess festi hann í
sessi notkunarsvið ⟨z⟩ sem hafði verið á reiki áður (sjá 3.3.6) og mælti með
að ⟨j⟩ yrði ekki notað í táknun framgómaðra samhljóða (sjá 3.3.7). Sumar
af tillögum Rasks hafa þó ekki hlotið brautargengi á síðari tímum eins og
aðgreining ⟨r⟩ og ⟨ur⟩ í niðurlagi orða, t.d. ⟨maðr⟩, ⟨sögur⟩ (sjá 3.3.5), þar
sem nú er eingöngu ritað ⟨ur⟩.
Jóhannes B. Sigtryggsson68
27 Stefán Karlsson (2000:62): „[…] og eitt ö-tákn hefur hann, þ.e. ö í latínuletri, en staf-
urinn ö hafði lítt verið notaður áður fyrir hljóðið ö, enda hafði hann og ő lengi verið ó-tákn
í skrift; í gotnesku letri notaði Rask ø eins og venja var.“
28 Rask (1941(1):381–382): „Det er ellers mærkværdigt at Isl. har blot ö (ikke ø) og at
ö der hører til de haarde, saa at kör og kjör, görn og gjörn ere ganske forskjellige Ord og
Lyd. For ø have de allehaande andre Tvelyd hey Hø, dauðr død, fæða føde […].“