Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2023, Page 113
ármann jakobsson
Tittlingurinn sem hvarf
Um fjölnefnt málbragð í stökum og máli
Árið 1988 naut lagið „Sjúddirarirei“ af samnefndri plötu Gylfa Ægissonar
talsverðra vinsælda meðal þjóðarinnar. Stílbragðið úrfelling eða rímfall
(ellipsis á öðrum málum) setur svip sinn á lagið þannig að þegar kemur að
rímorði fjórðu línu birtist ekki það tiltölulega dónalega orð sem búið er að
vekja væntingar um heldur er sungið í staðinn „sjúddirarirei, sjúddirarira“.
Þetta gerist á orðum sem hefðu átt að ríma við Fríða, bókin, skvísa, glaðir,
stoppa og bunka og eru hin hugsanlegu rímorð (ríða, lókinn, rísa, graðir,
toppa? og rúnka) þannig haganlega gefin í skyn en aldrei nefnd heldur
kemur titilorð lagsins í stað þess eina orðs sem fellt er burt. Í kjölfarið
fylgir svo önnur heldur smekklegri lína sem ekki rímar þó við neitt. Þó
að lagið sé góðra gjalda vert er ekki ólíklegt að þessi smellna notkun úrfell-
ingarinnar í textanum hafi átt ríkastan þátt í vinsældum þess á sínum
tíma.
Úrfellingar, sem sumar eru nefndar tengieyðingar eða götun, eru eðli-
legur hluti íslenskrar setningaskipanar (Höskuldur Þráinsson 2005:140–
141) og eins á úrfelling (eða liðfelling) sinn eðlilega stað í bragfræðinni
(Kristján Árnason 2013:253–258). Í þriðja lagi er úrfelling eða liðfelling stíl -
bragð sem auðvelt er að ráða í af samhengi textans (Þorleifur Hauksson
og Þórir Óskarsson 1994:162) og í fjórða lagi getur rofið verið bygging-
arþáttur skáldverka og annarra texta (Þorleifur Hauksson 2003:41). Ég
nefni hér þessi fjölmörgu hugtök sem notuð eru yfir ellipsis í íslensku meðal
annars til þess að benda á að engin samstaða ríkir um hvað skuli nefna
hugtakið þó að ég noti úrfelling í þessari flugu. Ástæða er til að bæta við
enn einni skilgreiningu á úrfellingu því að í dægurlagi Gylfa Ægissonar er
hið hverfula orð kjarnaatriði textans og textinn allur fjallar fyrst og fremst
um það sem ekki er sagt.
Þegar ég var íslenskunemi kynntist ég vísu þar sem sams konar stíl-
bragði var beitt. Hún var sögð ort um Ólaf nokkurn. Sá hafði eignast bú -
jörð sem nefndist Tittlingur en breytt nafninu í Hlíðarenda af því að hon -
um þótti fyrra nafnið óvirðulegt. Um það hafði verið ort þessi vísa:
Íslenskt mál 45 (2023), 113–118. © 2023 Íslenska málfræðifélagið, Reykjavík.