Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2023, Blaðsíða 115
Erni Snorrasyni (1912–1985) og þá er þriðja línan orðin ók hér fríður upp
úr bænum (sjá m.a. Dagblaðið 1976; Dagur 1983a,b,c; DV 1985, 1991;
Skátablaðið 1985; Bændablaðið, 1987). Enn einn hagmæltur Akureyringur
sem nefndur er til sögunnar er Jakob Ó. Pétursson (1907–1977), ritstjóri
Íslendings og skáld, sem kallaður var „Peli“, og hafi hann verið fenginn af
Ólafi til að festa bæjarheitið með vísunni (Bændablaðið 2008). Í Héraðs-
skjalasafni Skagfirðinga er vísan sögð úr vísnasafni Sigurðar J. Gíslasonar
(1893–1983) sem varðveitt er í handriti á Héraðsskjalasafninu og þar er
Örn Snorrason sagður höfundur hennar. Í grein Benedikts Jónssonar
(2021) á netinu er líka minnst á Hjört Gíslason, ritstjóra og rithöfund
(1907–1963), sem höfund vísunnar þó að Benedikt aðhyllist raunar þá
hugmynd að Örn Snorrason hafi ort hana.
Í Vestfirska fréttablaðinu 1986 er höfundurinn kveðinn vera kennarinn
og ljóðskáldið Rósberg G. Snædal (1919–1983) og þá er tilgreind önnur
vísa með sama stílbragði sem hafi verið ort í kjölfar hinnar:
Margar hafa meyjar grátið,
mun svo verða enn um sinn.
Ólafur hefur eftirlátið
öðrum manni Hlíðarenda.
(Vestfirska fréttablaðið 1986, bls. 17).
Óvíst er hvort vísurnar hafi alltaf fylgst að eða hvort sú síðari hafi ef til
vill verið prjónuð við síðar en áhugavert er hversu margir kunnir norð -
lenskir hagyrðingar eru tilgreindir sem höfundar vísunnar. Allir eru þeir
af þeirri stærð að eins líklegt er að þeim hafi verið eignaðar margar vísur
annarra. Eins er efnið sem fylgir sögunni misjafnt. Í sumum gerðum er
bætt við þekkinguna um hinar grátandi meyjar en algengasta aukaefnið er
þó að Ólafur á Hlíðarenda hafi fengið skáld til að festa nýja nafnið í vísu
en sá hafi stungið hann í bakið með rímfallinu í þessari smellnu háðvísu.
Vísnaglens þar sem sérnafnið Tittlingur er í öndvegi er alls ekki eins-
dæmi, m.a. er á netinu vefsíðan Vísnahornið sem Ágúst Jónsson hélt úti
fyrir 15–20 árum en þar er á annan tug vísna um hrossið Tittling sem var
í eigu Jakobs Þórðarsonar, sveitarstjóra í Grýtubakkahreppi, og koma þar
fyrir línur á borð við sveittum ríður Tittlingi, til þess að strjúka Tittling hans
og Jakob dregur Tittling sinn, að ógleymdum línunum Tittlingur hans er hörku -
tól / honum er gott að ríða (Vísnahornið). Í þessu tilviki er engin úrfelling þó
að unnið sé með margræðni orðsins sem hesturinn dregur nafn sitt af.
Það segir sína sögu að allir sem nefndir eru í samhengi við vísuna um
Ólaf á Hlíðarenda eru karlkyns þó að vísurnar innihaldi bæði víf og meyjar.
Tittlingurinn sem hvarf 115