Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2023, Blaðsíða 235
lítill greinarmunur gerður á fornírskum (8.–9. öld), miðírskum (10.–12. öld) og
nútíma skosk-gelískum orðum eða rithætti.
Eins og minnst var á áður eru kaflarnir stuttir og auðlesnir. Þetta virðist vera
kostur á bókinni en er þó í rauninni galli sem kemur í veg fyrir að hægt sé að gera
umfjöllunarefni kaflanna góð skil og kafa dýpra í einstök atriði. Þorvaldur fjallar
um stofnun Dál Ríata (sem hann stafsetur Dalríata), konungsdæmis á fimmtu
öld sem óx og breiddist út frá norðaustur hluta Írlands þangað til það náði einnig
yfir vesturströnd Skotlands þannig að gelíska breiddist þar út líka (bls. 46). Hann
sleppir hins vegar alveg að fjalla um önnur svæði á meginlandi Skotlands og um
Pétta sem þar bjuggu en einblínir á gelískuna. Vitneskja um hina dularfullu þjóð
Pétta er frekar takmörkuð þótt nú telji sérfræðingar að tungumál þeirra hafi verið
náskylt velsku (Rhys 2015). Sumt af landnámsfólki Íslands kom líklega frá þeim
svæðum þar sem Péttar bjuggu þegar Ísland var numið og því er undarlegt að geta
ekki um þá í umfjöllun um íslensku örnefnin, sérstaklega þar sem nokkurn veg-
inn einu leifarnar af tungumáli Pétta er hugsanlega að finna í örnefnum á Skot -
landi. Með þessari vanrækslu skilur Þorvaldur heilt málsvæði út undan í umfjöll-
un sinni um málaðstæður á Bretlandseyjum til forna. Ekki síðri vanrækslusynd er
að hann lítur ekki til velsku, mönsku eða annarra keltneskra tungumála sem töluð
voru á Bretlandseyjum á landnámstíma Íslands.
Þorvaldur notar orð úr fornírsku, nútímaírsku og skoskri gelísku eins og þau
séu öll sömu orðin í sama tungumálinu, með sömu merkingu, og þar að auki
getur hann ekki um uppruna orðanna eða kemur með neina útskýringu á því af
hverju ákveðið orð var tekið upp í íslensku frekar en annað. Hann stingur oft-
sinnis upp á einungis einu keltnesku orði sem hliðstæðu við íslensk orð og setur
sjaldan fram fleiri möguleika um tökuorð; þar með útilokar hann mörg orð sem
eru e.t.v. alveg eins líkleg og þau sem hann valdi. Raunar er fullmikið sagt að upp-
ástungurnar séu „líklegar“ því að val orðanna virðist mikið til hafa ráðist af höpp-
um og glöppum.
Hér og þar í ritinu tilgreinir Þorvaldur gelísk orð en hann getur aldrei upp-
runa þeirra né hvernig þau hefðu verið rituð á þeim tíma þegar Ísland var numið.
Í stað fornírskra orða tilgreinir hann oft orðmyndir úr nútíma skosk-gelísku og
virðist ekki gera sér grein fyrir því að tími og rúm getur hafa haft áhrif á form og
merkingu orða. Sem dæmi má nefna að í umfjöllun um Bekanstaði (bls. 141) er
fornírska orðmyndin becán ‘lítill, smár’ ekki nefnd heldur skosk-gelíska myndin
beagan, sem sýnir mun yngra málstig. Ef tilgangurinn var að gefa út fræðilega
rannsókn á áhrifum gelísku á íslensku á landnámstímanum hefði handritið þurft
á vandlegum og gagnrýnum yfirlestri að halda.
Það blasir við að útgáfa þessarar bókar var fljótfærnislega unnin og lítt vandað
til heimildavinnu. Ekki nóg með að efnisyfirlitið kemur ekki heim og saman við
kaflaskil, eins og áður var nefnt, heldur eru þar fjölmargar innsláttarvillur, t.d.
Imbolg í staðinn fyrir Imbolc ‘hátíðisdagur heilagrar Brigid, 1. febrúar’ (bls. 65).
Vanþekking höfundar á gelísku kemur líka ítrekað í ljós, t.d. í undarlegum rit-
háttum á orðum, bæði á forn- og miðírsku og skoskri gelísku. Þetta kemur ber-
Ritdómar 235