Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2023, Blaðsíða 236
lega í ljós þar sem fjallað er um hugtakið tairngiri ‘spádómur’, sem er iðulega staf-
sett sem tairgiri eða tairrgire, sem eru yngri skosk-gelískir rithættir orðsins. Orðið
flaith ‘höfðingi, prins’ er ranglega ritað flath (bls. 50). Þá er stungið upp á að orðið
Grænland sé komið af gelíska orðinu fyrir ‘sól’; rithátturinn í bókinni er grian
sem þýðir ‘sandur, jörð, land’ en rétt er aftur á móti grían ‘sól’.
Því miður er slíkt hirðuleysi víða að finna í þessari bók. Þótt athugasemdir af
þessu tagi kunni að bera vott um smámunasemi hlýtur að vera sjálfsögð krafa að
í riti sem þessu sé notaður viðurkenndur ritháttur, bæði almennt og varðandi
einstök smáatriði eins og hljóðalengd. Jafnvel í orðum sem vitað er fyrir víst að
eru af gelískum uppruna er rithátturinn oft annaðhvort rangur eða ósamræmdur;
örnefnið Kalmanstunga er hér t.d. tengt við calaman, columan ‘lítil dúfa’ (bls. 170)
en fyrirmyndin er oft talin vera fornírska nafnið Colmán.Varðandi örnefnið Kolla -
fjörður stingur Þorvaldur upp á coill, coil eða coille (bls. 177) um orðið ‘skóg’ en
þessi orð merkja hins vegar ‘heslitré’; aftur á móti er caill gelíska orðið um ‘skóg’.
Allt verður þetta enn samhengislausara þegar litið er á næsta örnefni í listanum,
Kollsvík. Í staðinn fyrir að stinga upp á að bæði Kollafjörður og Kollsvík séu
dregin af orðinu um ‘skóg’, þá er lagt til að orðið caille ‘blæja, hula’ sé að finna í
Kollsvík (bls. 177–8).
Örnefni eru oft einu vísbendingarnar sem eftir eru um að tiltekið tungumál
hafi verið talað á ákveðnu svæði og þau geta gefið okkur innsýn í hugsanlegt
sambýli tungumála á því svæði. Að sama skapi veita örnefnin afar takmarkaðar
upplýsingar sem nauðsynlegt er að gera sér grein fyrir. Líkt og önnur fög innan
málvísinda lýtur örnefnafræði ákveðnum reglum um aðferðir og fræðileg vinnu-
brögð, í þessu tilviki um myndun og þróun örnefna, og það er á meðal þess sem
Þorvaldur virðist ekki hafa gefið mikinn gaum. Tilfærð eru nokkur örnefni sem
vitað er fyrir víst að eru af gelískum uppruna, svo sem Brjánsstaðir (bls. 145),
Dufansdalur (bls. 151) og Konálsstaðir (bls. 178), svo að fáein dæmi séu tínd til.
Þessi örnefni eiga það sameiginlegt að fyrsti liðurinn í þeim er sérnafn, Brian
‘Brjánn’, Dubán/Dubhán ‘Dufan’ og Conall ‘Konáll’. Þetta er einfaldasta leiðin til
að mynda örnefni og getur ekki talist þýðingarmikil sönnun fyrir málsambýli eða
áhrifum eins tungumáls á annað því við vitum ekki hvort fólkið sem staðirnir eru
kenndir við talaði gelísku þótt það bæri gelísk nöfn. Ef við hugsum okkur að gel-
ískumælandi fólk hafi haft það mikil áhrif á íslensku að víðsvegar um landið séu
örnefni af gelískum uppruna þá væri eflaust fleiri samnöfn úr gelísku að finna
meðal þeirra, t.d. achad ‘akur’, alt ‘klettur’, áth ‘fjörður’, cenn ‘tangi, nes’, cnocc ‘hæð,
haugur’, druim(m) ‘hryggur’, dún ‘virki, garður’, glenn ‘dalur’, mag ‘slétta’, tech ‘hús,
dvalarstaður’, tulach ‘hóll‘ eða úaim ‘hellir’. Ætla mætti að gelískumælandi land-
námsmenn hefðu notað sitt eigið tungumál til að lýsa landslaginu í kringum sig
og orðin í því máli hefðu orðið órjúfanlegur hluti örnefnanna. Svo er ekki. Engin
ummerki eru um þessi algengu samnöfn í íslensku örnefnunum, þótt þau séu
algeng í mörgum gelískum örnefnum á Bretlandseyjum. Þess vegna verður niður -
staðan sú að gelískumælandi landnámsfólk hafi verið töluvert færra en hefði þurft
til þess að hafa varanleg áhrif á íslenskt mál almennt og íslensk nöfn og örnefni
sérstaklega.
Ritdómar236